Faslodex

Faslodex® (efnafræðiheiti: fulvestrant) hefur verið samþykkt af FDA í því skyni að meðhöndla:

  • Konur komnar úr barneign sem greinst hafa með langt gengið (meinvarps-) hormónaviðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein sem svarar ekki lengur öðrum andhormónalyfjum svo sem tamoxifeni.

*Kona getur verið komin sjálfkrafa úr barneign vegna aldurs eða starfsemi eggjastokkanna hefur verið stöðvuð með lyfjum eða þeir fjarlægðir með skurðaðgerð.

Faslodex® er eina ERD-lyfið sem unnt er að fá til að meðhöndla brjóstakrabbamein.

Faslodex® hrífur ekki á brjóstkrabbamein þar sem hormónaviðtökum er ekki til að dreifa (hormónaviðtaka-neikvætt brjóstakrabbamein).

Faslodex® er í fljótandi formi og er gefið einu sinni í mánuði með því að sprauta því í vöðva. Konum er yfirleitt gefið Faslodex® svo lengi sem krabbameinið svarar lyfjagjöf.

*Svörun: Meinið stendur í stað eða minnkar.

Gagnsemi Faslodex®

Rannsóknir hafa sýnt að Faslodex® virkar eins vel og jafnvel betur en Arimidex® (efnafræðiheiti. anastrozole), sem er aromatase-hemill  sem hægir á eða stöðvar vöxt meinvarpa (meins sem hefur dreift sér í aðra hluta líkamans) hormónaviðtaka-jákvæðs brjóstakrabbameins hjá konum komnum úr barneign eftir að tamoxifen er hætt að virka.

Aukaverkanir Faslodex

Algengustu aukaverkanir Faslodex eru:

  • hitakóf

  • ógleði

  • uppköst

  • niðurgangur

  • harðlífi

  • kviðverkir/magapína

  • særindi í hálsi

  • bakverkur

  • höfuðverkur

  • verkur á staðnum þar sem lyfinu var sprautað

Sumar konur geta fundið fyrir öðrum aukaverkunum þegar þeim er gefið Faslodex:

  • beina- og eða liðverkjum

  • svima

  • bólgum

  • lystarleysi

  • svefntruflunum

  • taugaveiklun

  • svita

  • þurri húð.

*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda.

ÞB