Gagnsemi aromatase-hemla

Aromatase-hemlar eru nú orðið það lyf sem helst er gefið konum komnum úr barneign með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum.


Aromatase-hemlar fela í sér marga mikilvæga kosti við ýmsar aðstæður. Þeir geta:

 • Minnkað hættu á að meinið taki sig upp,

 • minnkað hættu á að nýtt krabbamein myndist,

 • minnkað stór krabbameinsæxli með hormónaviðtökum fyrir skurðaðgerð þannig að hægt sé að láta fleygskurð nægja í stað þess að taka allt brjóstið,

 • hægt á vexti langt gengins krabbameins með hormónaviðtökum (krabbameins sem hefur sáð sér í aðra líkamshluta).


Gagnsemi aromatase-hemla samkvæmt klínískum rannsóknum


Margar stórar klínískar rannsóknir hafa sannað gagnsemi aromatase-hemla sem allir hafa verið reyndir á konum í hundraða og þúsunda tali. Þær þrjár tegundir sem til eru (Arimidex® [efnafræðiheiti: anastrozole], Aromasin® [efnafræðiheiti: exemestane] og Femara® [efnafræðiheiti: letrozole]) eru allar gefnar konum með fjarmeinvörp brjóstakrabbameins (brjóstakrabbamein sem hefur sáð sér í önnur líffæri eða aðra líkamshluta). Hvert þeirra er einnig gefið konum með sjúkdóminn á fyrri stigum á mismunandi tíma:

1. Aromatase-hemlar eftir byrjunarmeðferð með skurðaðgerð, krabbameinslyfjameðferð og/eða geislameðferð:

ATAC (Arimidex and Tamoxifen Alone or in Combination) rannsóknin sýndi að meðferð í fimm ár á arimidexi gafst betur en fimm ár á tamoxifeni sem fyrsta andhormónameðferð fyrir konur komnar úr barneign með krabbamein með hormónaviðtökum á fyrri stigum. Arimidex reyndist betra en tamoxifen þegar kom að því að:

 • Minnka hættu á eða tefja fyrir því að krabbamein tæki sig aftur upp í brjósti eða eitlum,

 • minnka hættu á að krabbameinið dreifði sér til annarra líkamshluta,

 • minnka líkur á að nýtt krabbamein myndaðist í hinu brjóstinu.


Konur sem tóku inn arimidex fundu fyrir færri aukaverkunum en konur sem tóku inn tamoxifen, hvort heldur litlum eða miklum. Hins vegar var konunum hættara við beinbrotum og liðverkjum en þeim sem tóku inn tamoxifen. 

ATAC rannsóknin hófst árið 1999 og rannsakendur munu halda áfram að fylgjast með konunum til ársins 2011. 

BIG (Breast International Group) 1-98 rannsóknin sýndi að meðferð í fimm ár með femara gafst betur en fimm ár á tamoxifeni sem fyrsta andhormónameðferð hjá konum komnum úr barneign með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum á fyrstu stigum. Femara reyndist betur en tamoxifen þegar kom að því að: 

 • Draga úr hættu á eða tefja fyrir því að krabbamein tæki sig aftur upp í brjósti eða eitlum,

 • draga úr hættu á að krabbamein dreifði sér til annarra líkamashluta,

 • minnka líkur á að nýtt krabbamein næði að myndast í hinu brjóstinu,

 • minnka hættuna hjá konum með ágengar tegundir krabbameins sem þegar höfðu farið í krabbameinslyfjameðferð eða verið með krabbamein sem hafði dreift sér í eitla.


Konur sem tóku inn femara fundu fyrir færri aukaverkunum en konur sem tóku inn tamoxifen, hvort heldur litlum eða miklum. Þeim var hins vegar hættara við beinbrotum og liðverkjum og voru með meira kólestról í blóði en konurnar sem tóku inn tamoxifen. 

BIG 1-98 rannsóknin hófst árið 2000 og rannsakendur munu halda áfram að fylgjast með konunum til ársins 2008.


2. Skipt yfir í aromatase-hemla eftir tvö til þrjú ár á tamoxifeni:

Skipt yfir í Aromasin®: IES rannsóknin (Intergroup Exemestane Study) sýndi að árangur kvenna kominna úr barneign með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum á fyrstu stigum, sem skiptu yfir í aromasin  (grein á ensku) eftir að hafa tekið inn tamoxifen í tvö til þrjú ár (samtals meðferð í fimm ár) var betri en hinna sem höfðu tekið inn tamoxifen í fimm ár.  

Líkur á að sjúkdómurinn tæki sig upp hjá konum í hópnum sem skipti um lyf eða að nýtt krabbamein myndaðist í hinu brjóstinu voru um það bil þriðjungi minni en hjá konunum sem tóku allan tímann inn tamoxifen.

Munur á lífslengd almennt var óverulegur milli hópanna tveggja. Þær sem skiptu yfir í aromasin og hinar sem héldu sig við tamoxifen lifðu jafnlengi.

Skipt yfir í Arimidex®: Evrópsk rannsókn sem náði til rúmlega 3.000 kvenna kominna úr barneign með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum á fyrstu stigum sýndi að það kann að skila góðum árangri að skipta yfir í arimidex eftir tvö til þrjú ár á tamoxifeni í stað þess að taka tamoxifen í fimm ár. Þegar þær voru bornar saman við konur sem tóku inn tamoxifen í fimm ár kom í ljós að líkur á að sjúkdómurinn tæki sig aftur upp í sama brjósti hjá konum sem skiptu yfir í arimidex eftir tvö til þrjú ár á tamoxifen, minnkuðu um 40% og sömuleiðis minnkuðu líkur á nýju krabbameini í hinu brjóstinu um 40%.


3. Að halda áfram andhormónameðferð á aromatase-tálmum eftir meðferð í fimm ár með tamoxifeni:

Alþjóðleg rannsókn með þátttöku rúmlega fimm þúsund kvenna komnum úr barneign með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum á fyrstu stigum sýndi að það kann að skila góðum árangri að halda áfram andhormónameðferð með femara eftir að hafa tekið tamoxifen í fimm ár.  Í rannsókninni fékk helmingur kvennanna femara í fjögur ár en hinn helmingurinn lyfleysu (sykurpillu).

Hjá konunum sem tóku inn Femara® komu upp færri tilfelli þar sem meinið tók sig upp aftur, hvort heldur var staðbundið (í brjóstinu) eða fjær (utan brjóst- og eitlasvæðis). Einnig voru í þeim hópi færri konur sem fengu nýtt krabbamein í hitt brjóstið.

Næstum 40% fleiri konur með brjóstakrabbamein í eitlum sem tóku inn femara eftir fimm ára meðferð með tamoxifeni voru á lífi samanborið við þær sem fengu lyfleysu.

Hefði sjúkdóminn ekki sáð sér í eitla, var enginn marktækur munur á ævilengd þeirra sem tóku inn femara og þeirra sem tóku inn lyfleysu.

Niðurstöður þessara rannsókna renna frekari stoðum undir þá ályktun að aromatase-hemlar veiti konum mikilvæga meðferð, hvort sem sjúkdómurinn er á fyrstu stigum eða síðari (fjarmeinvörp). Þú og læknir þinn þurfið að íhuga alla þætti áður en þið ákveðið hvaða andhormónameðferð muni henta þér best.  

ÞB