Gagnsemi tamoxifens


Tamoxifen er magnað lyf sem í rúm þrjátíu ár hefur hjálpað milljónum kvenna í baráttu þeirra við brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum. Það hjálpar einnig konum sem miklar líkur eru á að fái brjóstakrabbamein og konum með sjúkdóminn á öllum stigum hans. Lyfið hentar konum á öllum aldri, og víða um heim er tamoxifen eina andhormónalyfið sem konum gefst kostur á.

Tamoxifen er það andhormónalyf sem æskilegust er talið fyrir konur í barneign og næstbesti kosturinn á eftir aromatase-hemlum  fyrir konur sem komnar eru úr barneign.

Tamoxifen getur:

  • Minnkað hættu á brjóstakrabbameini hjá konum sem miklar líkur eru á að fái sjúkdominn en hafa ekki greinst með hann.

  • Minnkað hættu á að krabbamein taki sig upp. Það getur minnkað líkur á að sjúkdómurinn taki sig upp um 40-50% hjá konum komnum úr barneign og um 30-50% hjá konum í barneign.

  • Minnkað hættu á að nýtt brjóstakrabbamein myndist. Hafir þú fengið brjóstakrabbamein í annað brjóstið, aukast líkur á að þú fáir krabbamein í hitt brjóstið miðað við konur sem aldrei hafa fengið brjóstakrabbamein. Tamoxifen getur minnkað líkurnar um helming (50%). Rannsókn ein benti til að tamoxifen gæti minnkað líkur á nýju brjóstakrabbameini um tvo þriðju hjá konum komnum úr barneign. 

  • Minnkað stór brjóstakrabbameinsæxli með hormónaviðtökum fyrir skurðaðgerð. Það gæti hugsanlega orðið til þess að gera má fleygskurð og veita þér geislameðferð í stað þess að taka allt brjóstið.

  • Haft hemil á vexti langt gengins brjóstakrabbameins (meinvörpum) hjá konum í barneign og þeim sem komnar eru úr barneign. Tamoxifen getur stöðvað framrás brjóstakrabbameins með hormónaviðtökum annars staðar í líkamanum um lengri eða skemmri tíma hjá um það bil 75% kvenna.

 
Tamoxifen býr einnig yfir öðrum góðum eiginleikum, ótengdum verkun lyfsins gegn brjóstakrabbameini. Þar sem þetta er SERM-lyf (selective estrogen-receptor modulator) örvar það ákveðna, útvalda (selective) östrógenviðtaka í beinvef og lifur við vinnslu kólestróls. Þar af leiðir að tamoxifen getur: 

  • Stuðlað að sterkum beinum eftir tíðahvörf. Tamoxifen stöðvar að vissu marki þá beinþynningu sem á sér stað með aldrinum. Konum sem hafa tekið inn tamoxifen í fimm ár er síður hætt við úlnliðs- og mjaðmabrotum en konum sem gefin er lyfleysa.

  • Minnkað kólestrólmagn. Tamoxifen minnkar magn LDL (Low-Density Lipoproteins) kólestróls í blóðinu ("vonda kólestrólsin"). Til þessa hefur þó ekki verið sannað að þessi kostur við að taka inn tamoxifen leiði til færri hjartaáfalla eða heilblóðfalla.


Þú þarft að íhuga þessa almennu kosti við lyfið þegar þú ræðir við lækni þinn um kosti og galla meðferðar með tamoxifeni.

ÞB