Vill læknir þinn að þú skiptir um lyf?

Við ákveðnar aðstæður kann læknir þinn að leggja til að þú skiptir um andhormónalyf eða gerir hlé á meðferðinni. Það gildir um öll andhormónalyf.

Að skipta um lyf meðan þú ert enn í barneign:


Reglan er sú að gefa konum í barneign með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum tamoxifen í fimm ár. Þær aðstæður kunna þó að koma upp að ákveðið verði að hætta að gefa tamoxifen um hríð og byrja síðan aftur.

Þú ættir til dæmis ekki að reyna að verða ófrísk á meðan þú tekur inn tamoxifen. Sértu hins vegar að vonast til að verða barnshafandi á næstu þremur árum eða svo, gætir þú með lækni þínum hugsanlega lagt línurnar þannig að bæði sé hægt að fylgja fyrirbyggjandi meðferð gegn krabbameini og uppfylla löngun þína til að eignast barn. Í þannig tilfelli gætir þú ákveðið að taka inn tamoxifen í tvö ár og síðan - sé krabbameinið ekki í vexti - hvílt þig á aandhormónameðferðinni og reynt að verða ófrísk.

Þegar meðgöngu er lokið gætir þú byrjað aftur á tamoxifeni og lokið því að taka inn lyfið í fimm ár. Fimm ára óslitin andhormónameðferð með tamoxifeni er betri en tvö ár, en tvö ár á tamoxifeni eru betri en ekkert tamoxifen. Fimm ár á tamoxifeni með hléi vegna meðgöngu gæti reynst betra en eingöngu tvö ár.

Að skipta um lyf þegar þú er komin úr barneign:


Viðurkennd meðferð fyrir konur komnar úr barneign með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum er að gefa þeim aromatase-hemla í fimm ár þótt tamoxifen sé einnig mjög gott lyf.

Læknir þinn kann að vilja að þú skiptir út einu lyfi fyrir annað ef þannig þannig stendur á.

Sértu byrjuð að taka inn tamaoxifen

  • getur þú tekið inn tamoxifen í tvö til þrjú ár og skipt síðan yfir í aromatase-hemla eins og aromasin, arimidex eða femara

  • getur þú haldið áfram að taka inn tamoxifen í fimm ár og skipt síðan yfir í femara í önnur fimm (tíu ára andhormónameðferð).


Sértu ekki byrjuð að taka inn andhormónalyf

  • getur þú byrjað með aromatase-hemla, annað hvort arimidex eða femara.

  • Eftir að hafa tekið arimidex í fimm ár geturðu hætt að taka inn andhormónalyf eða íhugað að taka þátt í klínískri rannsókn sem kannar gildi þess að halda áfram að taka inn andhormónalyf að fimm árum liðnum.


Að skipta um lyf þegar sjúkdómurinn er langt genginn:


Svo lengi sem ákveðið andhormónalyf virkar vel er rétt að halda sig við það. Hins vegar getur lyfið hætt að virka með tímanum. Gerist það, kann læknir þinn að leggja til að þú skiptir yfir í annars konar andhormónalyf.  

 

Það sem mælir með því að skipta um lyf: Rannsóknir á aromatase-tálmum annars vegar og tamoxifeni hins vegar


Að baki liggja niðurstöður rannsókna sem hafa orðið til þess að breyta viðurkenndri meðferð fyrir konur sem komnar eru úr barneign. Áður var þeim gefið tamoxifeni, nú fá þær aromatase-hemla. Í umræddum rannsóknum voru bornir saman aromatase-hemlar og tamoxifen með þáttöku kvenna kominna úr barneign sem voru með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum:

Konur sem skiptu yfir í aromasin eftir að hafa tekið inn tamoxifen í tvö til þrjú ár og fengu þar með andhormónameðferð í fimm ár, lifðu lengur án sjúkdómsins en konur sem tóku inn tamoxifen í fimm ár.

Konur sem skiptu yfir í arimidex eftir tvö til þrjú ár á tamoxifeni og fengu því andhormónameðferð í fimm ár, áttu síður á hættu að fá sjúkdóminn á ný eða þróa með sér nýtt krabbamein samanborið við konur sem tóku inn tamoxifen í fimm ár.


Hjá konum sem tóku inn femara í fimm ár eftir að hafa tekið inn tamoxifen í fimm ár minnkuðu líkur á að krabbameinið tæki sig upp eða sáði sér, samanborið við konur sem ekki tóku inn femara.

Ekki er ljóst hvort það veitir einhverja viðbótarvörn gegn því að brjóstakrabbamein taki sig upp sé skipt yfir í annars konar andhormónalyf að lokinni fimm ára meðferð með aromatase-tálmum. Þær rannsóknir standa nú yfir og munu vonandi svara þeirri mikilvægu spurningu.

Margar konur spyrja: "Úr því að aromatase-hemlar eru svona góðir, af hverju er þá verið að gefa konum tamoxifen?" Svarið er að tamoxifen er ennþá það lyf sem talið er heppilegast að gefa konum í barneign sem ekki mega fá aromatase-hemla. Tamoxifen er einnig afar gott fyrir konur komnar úr barneign. Enn sem komið er hefur ekki verið aflað nægilegra sannana fyrir því að það henti ÖLLUM jafnt að skipta yfir í aromatase-hemla. Það á ekki síst við um konur sem eru með beinþynningu eða liðagigt.

 

Samvinna þín og læknis þíns þegar kemur að því að velja það andhormónalyf sem hentar ÞÉR best


Hvernig ferðu að því að komast að sem bestri niðurstöðu með lækni þínum um hvort rétt sé að þú haldir þig við ákveðið andhormónalyf eða skiptir einu lyfi út fyrir annað? Þú byrjar á að velja ákveðna meðferð. Tíminn líður og þú hittir lækni þinn reglulega til að fara yfir stöðuna og athuga hvernig þér vegnar. Aðalmarkmiðið er auðvitað að þú sért laus við krabbameinið. Þú vegur og metur kosti meðferðarinnar með hliðsjón af þeim aukaverkunum sem þú kannt að finna fyrir. Haldi aukaverkanir áfram að vera vandamál, er mögulegt að skipta um andhormónalyf. Til dæmis gætu hitakóf sem þú færð af því að taka tamoxifen minnkað við það að skipta yfir í aromatase-hemla.

Þar sem taka aromatase-hemla er talin tengjast beingisnun, er nauðsynlegt að þú látir mæla beinþéttina áður en ákveðið er að þú skiptir yfir í þannig lyf. *Beinþéttnimælingu getur þú pantað sjálf á LSH í Fossvogi (DEXA-myndgreiningu).  Farðu í beinþéttnimælingu einu sinni á ári til að fylgjast með beinheilsunni. Hugsanlega þarftu að taka inn beinstyrkjandi lyf  meðfram aromatase-tálmunum til að viðhalda beinstyrk.

Það tekur um það bil hálft til heilt ár fyrir breytingar á beinum að koma fram við beinþéttnimælingu, hvort sem um er að ræða beingisnun, beinþynningui eða óbreytt ástand. Hafi læknir þinn áhyggjur af að beinin gisni hugsanlega of hratt (hafir þú t.d. lækkað í lofti á nokkrum mánuðum) eru til mælingar sem veita svör á skemmri tíma. Hægt er með þvagsýni  að komast að því á nokkrum mánuðum hvort eða hvaða breytingar eiga sér stað í beinum.

Hafi beinstyrkjandi meðferð ekki tilætluð áhrif á einu ári meðan þú tekur inn aromatase-hemla, þótt vandað hafi verið til meðferðarinnar, gæti læknir þinn viljað að þú skiptir um andhormónalyf. Fyrstu niðurstöður úr sænskri rannsókn benda til að aromasini fylgi örlítið minni beingisnun en öðrum aromatase-tálmum. Aftur á móti stuðlar tamoxifen yfirleitt að sterkari beinum en ella.

Gigtarlyf kunna að vinna á liðverkjum og óþægindum samfara töku aromatase-hemla. Séu einkenni af þessum toga að angra þig og þú hefur ekki fengið neina bót með því að taka inn bólgueyðandi lyf eins og ibuprofen (tegundarheiti: ibufen), kann læknir þinn að mæla með að þú skiptir um tegund aromatase-hemla. Gagnist það ekki og einkennin halda áfram að baga þig, gæti læknirinn mælt með að þú skiptir yfir í tamoxifen.

Farir þú úr barneign meðan á meðferðinni stendur, gætuð þið læknir þinn viljað skipta um andhormónalyf. Þú varst ef til vill í barneign þegar andhormónameðferðin hófst, en ert nú komin úr barneign. Þá gætir þú viljað skipta úr tamoxifeni yfir í aromatase-hemla.

Einnig er til í dæminu að þú hafir verið í barneign þegar þú greindist, en hætt að hafa reglulegar blæðingar við það að fara í meðferð með krabbameinslyfjum. Síðan kunna blæðingar að hafa byrjað aftur þegar þú fórst að taka inn tamoxifen. Hafi þetta gerst hjá þér og þú ert með ágenga tegund brjóstakrabbameins (af hárri gráðu, stórt æxli og hefur sáð sér í eitla), gæti læknirinn mælt með að andhormónameðferðinni yrði breytt. Hann kynni til dæmis að ráðleggja þér að láta stöðva starfsemi eggjastokkanna með lyfjum eða láta taka þá til viðbótar við meðferð með tamoxifeni.


ÞB