Starfsemi eggjastokka stöðvuð eða þeir teknir



Í stuttu máli: Áhyggjur af frjósemi

Þegar eggjastokkarnir starfa ekki lengur getur þú ekki orðið barnshafandi. Hvort þú getur hugsanlega orðið barnshafandi seinna meir er undir því komið hvort starfsemi eggjastokka hefur stöðvast tímabundið eða að fullu og öllu.

Ýmsir þættir hafa áhrif á hvort þú getur orðið barnshafandi seinna meira. Þar á meðal er meðferð með krabbameinslyfjum, andhormónameðferð, aldur þinn og á hvaða stigi sjúkdómurinn er. Lestu meira um frjósemi og það að eignast börn eftir meðferð við brjóstakrabbameini.

Hafir þú enn reglulega á klæðum og ert í barneign, framleiða eggjastokkarnir megnið af estrógeni líkamans. Sértu í barneign og með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum kann það að koma í veg fyrir að eggjastokkarnir framleiði estrógen og stöða þar með vöxt krabbameinsfrumna reynast mjög áhrifarík aðgerð. Unnt er að stöðva starfsemi eggjastokka með því að taka inn lyf eða fjarlægja þá með skurðaðgerð.

Þótt algengast sé að konur í barneign fari í andhormónameðferð með tamoxifeni, kann læknir þinn að nefna við þig að rétt sé að stöðva starfsemi eggjastokkanna eða taka þá og fer það eftir aðstæðum þínum.

Munurinn á aðferðunum er þessi:

  • Tamoxifen kemur í veg fyrir að estrógen geti sest á estrógenviðtaka og örvað vöxt.

  • Með því að stöðva starfsemi eggjastokka eða taka þá, minnkar magn estrógens í líkamanum til mikilla muna.

Stundum er bæði gripið til þess að stöðva starfsemi eggjastokka eða taka þá og gefa jafnframt tamoxifen til að koma í veg fyrir að estrógen sem verður til annars staðar í líkamanum, geti örvað vöxt krabbameinsfrumna.

Svona virkar það þegar starfsemi eggjastokka er stöðvuð eða þeir teknir

Sértu í barneign og með fjarmeinvörp brjóstakrabbameins með hormónaviðtökum kann læknir þinn að leggja til við þig að starfsemi eggjastokkanna verði stöðvuð eða þeir teknir þannig að þú farir úr barneign.

Báðar aðferðirnar - að stöðva starfsemi eggjastokkanna og að fjarlægja þá með skurðaðgerð - taka fyrir meginuppsprettu estrógens í líkamanum. Þegar minna estrógen er fyrir hendi til að „næra" brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum, hætta frumurnar að skipta sér eða dregur stórlega úr viðgangi þeirra.

Séu eggjastokkar fjarlægðir, ferðu rakleitt inn í tíðahvörf í stað þess aðlögunartíma sem fylgir breytingaskeiði. Þegar starfsemi eggjastokkanna er stöðvuð með lyfjagjöf gerist það aftur á móti smám saman á nokkrum mánuðum. Aukaverkanir þess að stöðva starfsemi eggjastokka eða taka þá eru meðal annars hitakóf, þurrkur í leggöngum, skapsveiflur, þunglyndi, þyngdaraukning og bjúgur eða þemba. Til eru leiðir til að vinna bug á þessum einkennum eða draga mjög úr þeim.

Að stöðva starfsemi eggjastokka eða taka þá hentar aðeins konum sem eru í barneign

Að stöðva starfsemi eggjastokka eða taka þá kemur einungis þeim konum að gagni sem eru í barneign og með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum. Áður en tekin er ákvörðun um meðferð mun læknir þinn vilja ganga úr skugga um hvort þú sért raunverulega komin yfir tíðahvörfin eða hvort blæðingar kunni að hefjast á ný.

Sumar konur sem eru í barneign þegar þær greinast með krabbamein verða fyrir því að krabbameinslyfin stöðva blæðingar. Þess háttar hlé á tíðum er hugsanlega aðeins tímabundið. Reglulegar blæðingar kunna að hefjast á ný þegar frá líður, yfirleitt innan árs en stundum eftir allt að tveimur árum.  

Sértu þegar komin úr barneign og hefur farið í gegnum eðlileg tíðahvörf eða farið úr barneign af völdum meðferðar með krabbameinslyfjum, er það ekki raunhæfur kostur að stöðva starfsemi eggjastokka eða taka þá. Séu liðin meira en tvö ár síðan þú hafðir á klæðum síðast eru eggjastokkarnir hættir að losa egg mánaðarlega. Það merkir að eggjastokkarnir framleiða lítið sem ekkert estrógen og því koma aðgerðir sem þessar þér ekki að notum.

 

Hvernig gengur læknir úr skugga um að þú sért komin úr barneign? 

Læknir þinn getur látið mæla hormónamagn í blóði til að átta sig á hvort þú ert komin úr barneign fyrir fullt og allt eða ekki. Hormónarnir sem leitað er að eru: 

  • estrógen,

  • eggbússtýrihormón (FSH) og

  • gulbúsörvandi hormón (LH).

Sértu mjög lág í estrógeni en mjög há í FSH og LH ertu að öllum líkindum komin yfir tíðahvörfin og ólíklegt að þú fáir aftur reglulegar blæðingar. Lestu meira um hormónamagn og tíðahvörf.

Mestur líkur eru á að meðferð með krabbameinslyfjum verði til að stöðva blæðingar að fullu og öllu ef:

  • þú varst fertug eða eldri þegar þú fórst í meðferðina,

  • blæðingar hafa stöðvast í meira en heilt ár,

  • krabbameinslyfin og skammtarnir sem þú fékkst hafa aukið líkur á að blæðingar stöðvist fyrir fullt og allt og þú farir úr barneign. Lestu meira um krabbameinslyfjameðferð og tíðahvörf.  

Um leið og þú ert komin yfir tíðahvörfin opnast möguleiki á annars konar andhormónameðferð með  aromatase-hemlum, annað hvort Arimidex® (efnafræðiheiti: anastrozole) eða Femara® (efnafræðiheiti: letrozole). Með nýjum rannsóknum er nú verið að kanna áhrif aromatase-hemla - sem aðeins eru gefnir konum sem komnar eru úr barneign -  á konur sem ekki voru komnar úr barneign þegar krabbameinsmeðferð hófst, hafa farið í meðferð til að stöðva starfsemi eggjastokka og hafa sem stendur ekki reglulegar blæðingar.

Þrjár leiðir til að stöðva starfsemi eggjastokka

Fara má þrjár leiðir til að koma í veg fyrir að eggjastokkar framleiði estrógen: 

  • Með lyfjum. Læknir þinn kann að mæla með að þú takir inn lyf í einhvern tíma til að girða fyrir boð frá heila til eggjastokka um að framleiða estrógen. Með því minnkar estrógenmagnið til mikilla muna.

Algengustu lyfin sem notuð eru í þessu skyni eru:

  • Zoladex® (efnafræðiheiti: goserelin)

  • Lupron® (efnafræðiheiti: leuprolide).

Lyfin er gefin með sprautu einu sinni í mánuði í nokkra mánuði.

  • Með skurðaðgerð. Unnt er að taka eggjastokka með því að gera lítinn skurð á kviðinn og nota áhald sem kallast kviðarholssjá til að komast að eggjastokkunum og fjarlægja þá. Aðgerðin kallast á læknamáli eggjastokkanám. Með því að nema brott eggjastokka hverfur megnið af estrógeni úr líkamanum. Hins er þó að gæta að önnur líffæri, svo sem nýrnahettur, framleiða áfram svolítið af estrógeni.  

  • Með geislum. Smáir skammtar af geislum girða fyrir framleiðslu estrógens í eggjastokkum. Þessari aðferð er afar sjaldan beitt nú orðið.

Hvernig komist þið læknir þinn að niðurstöðu um hvort rétt sé fyrir þig að láta stöðva starfsemi eggjastokkanna?

Það er stór og mikil ákvörðun að ákveða að stöðva starfsemi eggjastokka eða taka þá og hana þarf að íhuga vandlega. Sértu enn á fertugsaldri og hefur ekki alið barn eða langar til að eignast fleiri börn, getur það skipt þig miklu máli að eiga þess kost og vera áfram í barneign. 

Sértu á miðjum fimmtugsaldri eða að nálgast fimmtugsaldurinn, hefur enn á klæðum en krabbamein hefur greinst í eitlum, kann læknir þinn að mæla með fleiri en einni meðferð til að draga sem mest úr framleiðslu estrógens. Meðal þess kynni að vera að stöðva starfsemi eggjastokkanna eða fjarlægja þá og taka inn aromatase-hemla. Mögulegar meðferðarleiðir fara eftir því hve mikil hætta er á að sjúkdómurinn taki sig upp á ný. 

Konur með þekktan afbrigðilegan erfðavísi brjóstakrabbameins (eins og BRCA1 og BRCA2) kunna að velja þá leið að láta nema brott eggjastokkana til að koma í veg fyrir krabbamein í eggjastokkum. Líkur á brjóstakrabbameini minnka um 50% við að eggjastokkar eru fjarlægðir. Sú lágmarksframleiðsla á estrógeni sem fylgir brottnámi eggjastokka kemur í veg fyrir vöxt brjóstafrumna og dregur því mjög úr líkum á að krabbamein geti þróast.

Þau áhrif sem það kann að hafa á lífsgæði þín að fara inn í snemmbúin tíðahvörf (frjósemi, hitakóf o.s.frv.) svo og almenn áhrif á heilsufar (svo sem aukið kólestról í blóði og beingisnun.) kunna að ráða því hvaða meðferð verður fyrir valinu  

Brottnám eggjastokka til að draga úr líkum á eggjastokkakrabbameini

Sá möguleiki er fyrir hendi að þú kjósir að láta nema brott eggjastokka eftir að hafa farið í krabbameinslyfjameðferð í því skyni að minnka hættu á krabbameini í eggjastokkum - án tillits til þess hvort þú ert í barneign eða ekki.  

Brottnám eggjastokka dregur úr hættu á krabbameini í eggjastokkum, bæði fyrir og eftir tíðahvörf. Konum með mikla fjölskyldusögu af brjóstakrabbameini svo og þeim sem eru með þekkt afbrigði brjóstakrabbameinsgena, svo sem BRCA1 og BRCA2, getur það orðið ávinningur að láta fjarlægja eggjastokkana.  

Séu eggjastokkar fjarlægðir á meðan þú ert enn í barneign, dregur það bæði úr hættu á brjóstakrabbameini og eggjastokkakrabbameini. Hafir þú fengið brjóstakrabbamein og farið úr barneign fyrir fullt og allt af völdum krabbameinslyfja, kanntu engu að síður að óska þess að láta nema brott eggjastokkana til að draga úr hættu á eggjastokkakrabbameini.

Hlutfallslegar líkur á eggjastokkakrabbameini minnka um nokkurn veginn 80% við brottnám þeirra með skurðaðgerð. Líkurnar hverfa ekki alveg, vegna þess að frumur sem líkjast eggjastokkafrumum eru að öllu jöfnu til staðar á grindarsvæðinu (*í lífhimnu) og gætu eftir sem áður myndað krabbamein, jafnvel þótt eggjastokkar séu horfnir.

Þegar um er að ræða krabbamein sem tengist afbrigðilegum erfðavísi brjóstakrabbameins, virðist skipta máli hverrar tegundir sá erfðavísir er og hafa áhrif á hve mikið líkurnar minnka við að fara í fyrirbyggjandi brottnám eggjastokka. Rannsókn sem birt var árið 2008 af vísindamönnum við Krabbameinsmiðstöðina Memorial Sloan-Kettering Cancer Center sýndi að hjá konum með afbrigðilegt BRCA1 gen minnkaði brottnám eggjastokka líkur á eggjastokkakrabbameini mun meira en líkur á brjóstakrabbameini. Hjá konum með gallað BRCA2 gen gerði brottnám eggjastokka meira gagn í að minnka líkur á brjóstakrabbameini en líkur á eggjastokkakrabbameini.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB