Atriði sem rétt er að hafa í huga

  • Vegna þess hve rannsóknir á óhefðbundnum meðferðum eru nýlegar og skammt á veg komnar þarftu að afla þér upplýsinga sjálf/ur eftir fremsta megni. Byrjaðu á að kanna hvort einhverjar rannsóknir hafa verið gerðar á öryggi og árangri af óhefðbundnu meðferðinni sem þú hefur áhuga á. Í sambandi við þær tegundir óhefðbundinna meðferða sem bent er á í þessum hluta er tekið fram hvort einhverjar rannsóknir liggi fyrir eða ekki.

  • Talaðu við lækninn þinn áður en þú ákveður að bæta einhverri eða einhverjum óhefðbundnum meðferðum við þá læknismeðferð sem þú ert á leið í eða færð nú þegar. Sértu þegar byrjuð skaltu segja krabbameinslækni þínum frá því þannig að hægt sé að bæta þeim upplýsingum inn á meðferðarplanið þitt. Lestu svolítið um hvernig þú getur talað við lækninn um þessi málefni.

  • Styðjist þú við óhefðbundna meðferð eins og til dæmis nudd, skaltu vera vandlát þegar þú velur þér nuddara/græðara. Þú finnur meira á síðunni Að finna meðferðaraðila. Athugaðu hvort stéttarfélagið þitt eða tryggingarfélag, sértu með sjúkratryggingu, tekur þátt í kostnaðinum. Endurhæfingarkort eða beiðni frá lækni getur einnig lækkað kostnað, einkum ef þú leitar innan spítalans.

* Í bók Dr. David Servan-Schreiber Anti Cancer - A New Way of Life er að finna eftirfarandi einföld ráð um hvernig megi forðast að lenda hjá skottulæknum eða fjárplógsfólki. Ég tek mér bessaleyfi að birta þau hér. Varastu þá sem:

  • Neita að vinna með krabbameinslækninum og mæla með að þú hættir hefðbundinni læknismeðferð.

  • Leggja til við þig meðferð sem ekki hefur verið sannað að komi að gagni en hefur sýnt sig að hefur hættu í för með sér.

  • Leggja til við þig að fara í meðferð þar sem verðið er ekki í neinu samræmi við þann árangur sem vænta má af henni.

  • Fullyrða að það sem þeir hafa að bjóða skili alveg örugglega árangri svo framarlega sem þú óskar þess nógu heitt að læknast.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB