Hvað segja læknar og sjúklingar um óhefðbundnar meðferðir?
Hafir þú aldrei prófað óhefðbundna meðferð — og jafnvel þótt þú hafir gert það — getur verið gagnlegt að heyra hvað aðrir hafa um þær að segja.
Sumir sem segja sögu sína hér á eftir höfðu notað óhefðbundnar meðferðir árum saman áður en þeir greindust með brjóstakrabbamein. Aðrir kynntust þeim vegna þess að þeir fréttu af þeim meðan á hefðbundinni læknismeðferð við krabbameini stóð.
Saga Nicole:
„Ég var nýbyrjuð í jógatímum þegar ég greindist með staðbundið mein í mjólkurgangi (DCIS). Mér fannst jógatímarnir frábærir, fannst ég slaka vel eftir á þótt ég væri svolítið þung á mér og ætti bæði erfitt með að standa upp og setjast á gólfið. Ég hafði samt aldrei gert mér grein fyrir hvað ég var stíf og spennt, en með jóga lærði ég að slaka á.
Brjóstakrabbameinið kom mér í opna skjöldu. Ætli það eigi ekki við um alla. Ég var bara svo hraust og enginn hafði nokkru sinni fengið krabbamein í minni fjölskyldu. Ég vaknaði iðulega upp um miðjar nætur með mikinn hjartslátt af slæmum draumförum og átti erfitt með að sofna aftur.
Ég varð afskaplega þægur sjúklingur — gerði allt sem læknarnir sögðu. Ég tók mér hálfs árs leyfi frá kennslu í grunnsóla og einbeitti mér alfarið að þessari hlið tilverunnar. Þegar ég hins vegar var búin að fara þrisvar sinnum í fleygskurð og í geislameðferð, gerði ég mér grein fyrir að eitthvað fleira þurfti að koma til. Ég var alveg þreklaus þegar ég byrjaði aftur í jógatímum en þraukaði vegna þess að ég hafði svo sterklega á tilfinningunni að ég þyrfti að ná stjórn á einhverju. Og ég hafði rétt fyrir mér. Ég vildi bara óska að ég hefði haldið áfram í jóganu á meðan ég var í krabbameinsmeðferðinni.
Læknirinn minn bannaði mér aldrei að stunda jóga — varaði mig bara við því að ég yrði þreytt. En vinkona mín ein benti mér á leiðbeinanda sem hafði fengið ristilkrabbamein. Hún vissi upp á hár hvað var í gangi hjá mér. Ég held að það hafi verið mikil hjálp í því að vera hjá einhverjum sem skildi andlegan og tilfinningalega þátt sjúkdómsins. Hún kenndi mér sérstakar slökunarstöður. Ungbarnastaðan varð mín uppáhaldsstaða. Í hvert sinn sem farið var í stöður sem voru mér of erfiðar fór ég í ungbarnastöðuna.
Ég er ákveðin í að halda áfram í jóga og það næsta sem ég ætla að gera er að fara vikulega í nudd. Ég er þeirrar skoðunar að læknarnir passi mjög vel upp á það sem snertir beinlínis krabbameinið, en maður verður sjálfur að passa upp á annað."
Lestu meira um jóga meðan á meðferð við brjóstakrabbameini stendur og að henni lokinni:
Saga Rebekku:
„Ég var 48 ára þegar ég greindist með ífarandi brjóstakrabbamein. Þá hafði ég verið í nálastungumeðferðum og nuddi í nær 25 ár. Ég byrjaði strax í nálastungumeðferð á spítalanum þar sem brjóstið hafði verið fjarlægt en húðin skilin eftir svo hægt væri að búa til nýtt brjóst — og nálastungurnar urðu enn mikilvægari fyrir mig eftir næstu skurðaðgerð. Að láta taka brjóstið er eins og að fara í handsnyrtingu miðað við aðgerðina við að byggja upp brjóstið! Ég var með þvílíka verki og tók inn svo mikið af verkjatöflum að ég gat ekki borðað — og hef ég þó alltaf haft mjög góða matarlyst.
Í hvert skipti sem ég kom í nálastungurnar spurði nálastungulæknirinn minn í hverju ég vildi helst láta vinna. Stundum var það eitthvað í sambandi við öxlina og hreyfigetuna, en oftast vildi ég að hann hjálpaði mér að fá aftur matarlystina.
Á meðn hún meðhöndlaði mig lá ég fyrir og hún kveikti á tveimur hitalömpum — annan við fæturna á mér og hinn við öxlina — til að vel færi um mig og mér væri hlýtt. Svo gekk hún hringinn í kringum mig og stakk í mig örfínum nálum. Þær voru aldrei settar neins staðar nálægt skurðunum — þess í stað stakk hún þeim í þær orkubrautir sem eiga að örva þá heilun sem sóst var eftir, blóðflæði eða það sem kínverjar kalla chi, lífsorku. Ég fann lítið fyrir stungunum, þær voru meira eins og flugnabit. Þegar 12 til 14 nálar voru komnar á sinn stað, tók hún að ýta svolítið á þær þangað til ég fann eins og svolítinn straum sem gerist þegar nálin hittir á chi. Ég sá það fyrir mér eins og fisk sem stekkur til að bíta á öngul.
Ég var alltaf svo afslöppuð þegar hún fjarlægði nálarnar — og fann ekki fyrir að þær væru teknar burt. Á eftir var ég svöng - GLORHUNGRUÐ. Maðurinn minn og ég fórum þá yfirleitt eitthvað og fengum okkur gott að borða.
Það er ekki hægt að komast hjá skurðmeðferð eða öðrum læknismeðferðum; þær virka eins og slaghamar sem ekki verður komist undan. Nálastungumeðferðin er öll mildari og þægilegri meðferð sem hefur hjálpað til að draga úr verkjum og ná aftur fyrri þyngd."
Lestu meira um nálastungur á meðan við brjóstakrabbameini stendur og eftir að henni lýkur.
Reynsla annarra sjúklinga:
„Deildin með óhefðbundnu meðferðunum á krabbameinsmiðstöðinni sem var í nágrenni við mig var dásamleg — lítil en með frábæru starfsfólki. En að fá tryggirnar til að taka þátt í kostnaðinum við þessar viðbótarmeðferðir var hægara sagt en gert. Ég var alveg orkulaus eftir lyfjameðferðina og nógu erfitt að koma sér í nálastungumeðferð án þess að þurfa að fara endanna á milli á spítalanum. Sé fólki alvara með að samþætt óhefðbundnar meðferðir hefðbundnum meðferðum, þyrfti að gera sjúklingum auðveldara fyrir. Svo þarf að gera þeim sem taka þátt í kostnaðinum grein fyrir hve mikilvæg svona viðbótarmeðferð er." — Aisha
„Fyrir sex árum greindist ég með ágengt brjóstakrabbamein á 3. stigi sem hafði dreift sér í 9 eitla. Með hjálp læknisins mín uppgötvaði ég bænahring fyrir krabbameinssjúkum. Svo samþætti læknirinn minn meðferðirnar mínar sem voru skurðmeðferð, reiki, meðferð með krabbameinslyfjum og geislameðferð. Allt þetta fólk kom fram við mig af virðingu, glaðværð og væntumþykju. Þegar brjóstakrabbameinið tók sig upp í lungum og hálsi, vissi ég að sömu úrræði voru fyrir henda. Ég hef nú verið í meðferð í tæpt ár og fagna hverjum degi (gott og vel: flestum dögum) með orku, trú, von og hlátri." — Terry
Lestu meira um reiki.
„Nú eru 15 1/2 ár síðan ég greindist með brjóstakrabbamein. Það gerðist í sömu viku og ég varð 38 ára. Ég hef líka öðlast réttindi til að máta gervibrjóst á konur og annað sem þær þurfa á að halda. Það er mér ómæld gleði að vinna með þessum stórkostlegu konum sem daglega koma í verslunina. Í heilunarferli mínu hefur mér reynst erfiðast að glíma við viðhorf, sjónarhornið. Það er svo auðvelt að missa sjónir af því sem virkilega skiptir máli þegar allt er á hvolfi í lífi manns. Ég hef lært öndunartækni — til að róa mína innri rödd — og slaka á! Ég hef lært að lifa í andránni, ég hef lært að allt sem ég þarf á að halda er innra með mér og hvernig ég get fundið það og nýtt mér þegar ég þarf á því að halda." — Heather
Hvað hafa læknar að segja um óhefðbundnar meðferðir?
Læknar fá menntun sína innan kerfis sem rannsakar sjúkdóma vísindalega og meðferðir með ströngum klínískum rannsóknum. Margir læknar vilja sjá jákvæða niðurstöðu úr umfangsmiklum klínískum rannsóknum áður en þeir mæla með einhverri meðferð eða lyfi.
Aðrir læknar hafa kynnt sér kosti óhefðbundinna meðferða og mæla með þeim við sjúklinga sína þótt þær séu studdar fáum rannsóknum með færri þátttakendum svo og frásögnum einstaklinga. Sumir hafa heyrt um óhefðbundnar meðferðir hjá sjúklingum sínum og kynnt sér eða tileinkað sér þær á eigin spýtur.
„Eftir hefðbundna læknismeðferð höfum við konur sem hafa læknast af sjúkdómnum en eru hræddar við að lifa. Þess vegna þurfum við á heilandi meðferðum að halda. Hún vinnur með hefðbundnum læknismeðferðum, ekki gegn þeim."
— Beth Baughman DuPree, læknir, F.A.C.S.
„Við mundum vilja að sjá óhefðbundna meðferð af einhverju tagi verða hluta af nýrri sýn sjúklinga. Byrji þeir á henni, getur það orðið leið til að draga úr einkennum sem þeir kunna að finna fyrir í meðferðinni. Við teljum að sé byrjað á jóga og slökun áður en meðferð hefst, geti það dregið úr einkennum og sömuleiðis gert fólki auðveldara að halda áfram þegar meðferð er lokið því þá hefur það orðið fastur liður í lifnaðarháttum þess."
— Lorenzo Cohen, Ph.D., deildarstjóri Samþættrar læknisfræði við University of Texas M. D. Anderson Cancer Center
"Hefðbundin læknisfræði eins og tíðkast tekur ekki á sálfræðilegum og tilfinningalegum atriðum sem tengjast brjóstakrabbameini. Mörgum sjúklingum reynist svo erfitt að ráða við kvíða og depurð að það getur haft áhrif á meðferðina. Stærsti kosturinn við óhefðbundnar leiðir er sá tími sem meðferðargjafinn ver með sjúklingum. Hvort slíkar meðferðir lengi líf þeirr eða komi í veg fyrir að brjóstakrabbamein taki sig upp er ekki vitað. En sjónsköpun, hugleiðsla, jóga, hópefli, allt þetta getur komið sjúklingum að gríðarmiklu gagni."
— Debu Tripathy, læknir, yfirmaður Komen/UTSW brjóstakrabbameinsrannsókna við University of Texas Southwestern Medical Center at Dallas
„Flestir sjúklingar spyrja mjög ákveðinna spurninga í upphafi eins og 'Hvaða vítamín ætti ég að taka inn til að draga úr ógleði?' Eða 'Hvað ætti ég að ganga mikið á dag fyrst á eftir skurðmeðferð?' Yfirleitt fá þér góða leiðsögn um slíkt hjá meðferðaraðilanum. Það sem kemur þeim á óvart eru tengslin sem myndast meðan á þessari vegferð stendur. Þau áttu ekki von á að hafa með sér manneskju sem virkilega hlustar vel og veitir athygli öllum þörfum manneskjunnar sem heildar, en horfir ekki bara á sjúkdómsferlið. Þetta kallast heilun og heilun tekur mun lengri tíma en það tekur að fara í gegnum meðferð."
— Tracy Gaudet, læknir, framkvæmdastjóri Duke Center for Integrative Medicine
„Vonin sem felst í því að geta valið og eiga einhverra kosta völ er mikilvægur liður í samþættri meðferð. Sumir læknar segja: 'Þú ert bara að vekja með þeim vonir.' Og ég svara: Hvað er að því að eiga vonir?"
— Ronald P. Ciccone, læknir, yfirlæknir Integrative Family Medicine við Lourdes Wellness Center
ÞB