Hvernig veit ég hvort meðferðargjafinn er áreiðanlegur?

Margir áreiðanlegir og færir græðarar og meðferðaraðilar eru að störfum. Hins vegar eru margs kyns óhefðbundnar meðferðir í boði án þess að leyfis opinbers eftirlitsaðila sé krafist. Það hefur í för með sér að til er fólk sem stundar alls kyns meðferðir á fólki án þess að hafa til þess næga þjálfun eða menntun. Þú verður því að vera virkur þáttakandi í óhefðbundnu meðferðinni og ganga úr skugga um að þú fáir þá góðu meðferð sem þú átt skilið. Þess ber einnig að gæta að það eru ekki allir sem kunna að meðhöndla konur sem hafa greinst með brjóstakrabbamein.

Hér á eftir fara fáein atriði benda til þess að meðferðaraðilann skorti tilskylda menntun eða reynslu: 

 • Loforð um að meðferðin geti læknað krabbamein.

 • Hann er með skilríki frá skóla sem þú finnur ekki á netinu.

 • Hann fer fram á háar greiðslur áður en hann byrjar að meðhöndla þig.

 • Hann er með alls kyns varning til sölu sem ætlast er til að þú kaupir sem lið í meðferðinni.

 • Hann segir þér að hætta í hefðbundinni læknismeðferð. 

Óhefðbundnar meðferðir geta komið konum sem greinst hafa með brjóstakrabbamein að góðu gagni svo fremi sem þeim sé beitt jafnframt hefðbundinni læknismeðferð. Óhefðbundin meðferð getur ekki komið í stað læknis og umsjár hans. Ekki er til nein óhefðbundin meðferð sem getur læknað krabbamein.

Áður en þú velur þér meðferðaraðila er ýmislegt mikilvægt sem þú mundir kannski vilja gera:

 • Kynna þér meðferðina og hvernig staðið er að henni. Þegar þú hefur hugmynd um út á hvað ákveðin meðferð gengur, þá veistu við hverju er að búast og hvers þú átt að spyrja. Upplýsingar um meðferðargjafa má iðulega finna á netinu. *Farðu inn á Hvað er til og hvar fæst það? til að finna upplýsingar. Ekki er heldur ólíklegt að þú þekkir einhvern sem gæti frætt þig eða bent þér á meðferðaraðila sem viðkomandi hefur af góða reynslu.

 • Biddu um meðmæli eða tilvísun. Hugsanlega er læknir þinn sá sem er í bestri aðstöðu til að vísa þér á áreiðanlegan græðara eða meðferðargjafa. *Skoðaðu það sem er í boði á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi

 • Ræddu við þá sem koma til greina sem meðferðargjafar. Vertu óhrædd við að spyrja eins margra spurninga og þér þykir þurfa. Undirbúðu spurningarnar og byrjaðu á að spyrja þeirra sem þér finnst mikilvægast að fá svar við. Þú getur prentað út Spurningalistann þér til hægðarauka og bætt við hann því sem þér finnst ef til vill vanta áður en þú byrjar meðferðina.

 • Veldu meðferðaraðila sem hefur reynslu af að vinna með konum sem hafa fengið brjóstakrabbamein. Mikilvægt er að meðferðargjafinn hafi þekkingu á því hvernig beita má óhefðbundinni meðferð með sem bestum árangri í þágu fólks sem hefur greinst með brjóstakrabbamein. Gakktu úr skugga um að meðferðargjafinn hafi nauðsynlega reynslu og þekkingu til að annast þig með góðum árangri og án áhættu.

 • Athugaðu meðmæli og/eða prófskjöl meðferðaraðilans.  Í mörgum löndum hafa verið settar reglur um óhefðbundnar meðferðir og þær menntunarkröfur sem meðferðargjafar þurfa að uppfylla. *Hérlendis á það aðeins við um fáar óhefðbundnar meðferðir, þar á meðal eru nálastungur og hnykkmeðferð. Hafi meðferðargjafinn ekki sérstakt starfsleyfi skaltu athuga hvort hann er með próf eða vottorð frá viðurkenndum skóla. Skilirí uppi á vegg og próf eru ekki endilega sönnun þess að viðkomandi geti veitt þér þá gæðaþjónustu sem þú þarft á að halda. Engu að síður gefur slíkt til kynna að viðkomandi uppfylli ákveðin lágmarksskilyrði.

 • Biddu um tíma til reynslu svo að þú getir gengið úr skugga um að þú hafir fundið rétta meðferðaraðilann. Farðu í einn til tvo tíma áður en þú skuldbindur þig til að halda áfram í meðferðinni (*sem getur t.d. haft áhrif á verðið sem þú greiðir fyrir hvern tíma.)

 

*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda.

ÞB