Nálastungur

Hvað eru nálastungur?

Við nálastungumeðferð (akúpunktúr) er dauðhreinsuðum, örfínum nálum stungið í ákveðna punkta á húðinni, "nálastungupunkta", og þær hreyfðar varlega. Rannsakendur geta sér þess til að nálastungurnar örvi taugakerfið og leysi þannig úr læðingi náttúrleg deyfilyf líkamans og örvi frumur ónæmiskerfisins sem flytji sig á þá staði líkamans sem hafa veiklast og minnki þannig sjúkdómseinkenni.

Rannsóknir sýna að nálastungur geta:

  • Dregið úr þreytu,

  • komist fyrir hitakóf,

  • dregið úr ógleði,

  • minnkað uppköst,

  • linað verki.

Ásamt æfingakerfum eins og tai chi eru nálastungur burðarásinn í hefðbundinni kínverskri læknisfræði sem er nokkur þúsund ára gömul. Í kínverskum lækningum er gengið út frá því að lífsorka, sem á kínversku kallast "qi" (borið fram "tsí") streymi eftir 20 orkubrautum sem tengjast nálastungupunktunum. Samkvæmt kínverskri læknisfræði getur líkaminn ekki starfað fyllilega rétt ef orkubrautir eru stíflaðar. Hlutverk nálastungumeðferðar er að opna ákveðna punkta á þessum orkubrautum og losa stíflaða orku, qi.

Hvernig fer dæmigerð nálastungumeðferð fram?

Í nálastungumeðferð skaltu búa þig undir eftirfarandi:

  • Meðhöndlarinn spyr þig spurninga um heilsufar þitt og lifnaðarhætti. Í fyrsta tímanum svarar þú spurningum um lyf sem þú tekur, þar á meðal jurtalyf og hvers kyns einkenni. Meðferðin ræðst síðan af aðstæðum þínum, lifnaðarháttum og heilsufari.

  • Meðhöndlarinn stingur nálum í nálastungupunkta á hörundinu. Meðhöndlarinn (nálastungulæknirinn) stingur nálum í viðeigandi punkta fyrir það sem að þér er. Notaðar eru hárfínar, sterkar, stálnálar og flestir finna aðeins örlítið fyrir stungunni eða jafnvel ekki neitt þegar þeim er komið fyrir. Nálunum er aðeins stungið í efsta lag húðarinnar en aldrei beint í einhver líffæri. Þegar nálarnar eru komnar á sinn stað finnst ekkert fyrir þeim.

Áhrif nálastungumeðferðar geta verið ólík frá einni manneskju til annarrar — sumir slaka á, aðrir finna fyrir aukinni orku, sumir verða örlítið ringlaðir en það varir yfirleitt stutt. Eftir meðferð er rétt að forðast allt sem krefst sérstakrar árvekni eins og að aka bíl, slá garðinn eða elda.

Fyrstu dagana eftir meðferð kunna einkennin að versna í einn eða tvo daga, eða þú verður vör við að matarlystin breytist, svefninn eða skapið áður en þú ferð að finna fyrir ábatanum. Gerist þetta, varir það stutt og gengur yfir með hvíld.

Kröfur sem gerðar eru til þeirra sem leggja stund á nálastungur

*(Innskot): Nálastungulækningar eru víða á Vesturlöndum orðnar svo útbreiddar að sumir telja að þær eigi ekki heima meðal óhefðbundinna meðferða. Hér á landi hefur landlæknir viljað einskorða leyfi til að veita nálastungumeðferð við lækna og hjúkrunarfólk sem hefur þá hlotið sérstaka þjálfun til að veita slíka meðferð, en kröfur um hve mikil sú þjálfun skuli vera eru ómótaðar og heimild landlæknis hefur verið dregin í efa af Umboðsmanni Alþingis og öðrum án læknismenntunar sem hafa hlotið reynslu og þjálfun í nálastungumeðferð erlendis. Til er Félag íslenskra lækna um akúpúnktúr.

Gakktu úr skugga um að sá sem þú leitar til hafi nægilega þjálfun og reynslu í nálastungumeðferð. Lesa má um meðferðaraðila með því t.d. að fletta upp orðinu "nálastungur" eða "akúpúnktúr" á netinu - eða fáðu meðmæli læknis þíns. Það sem fer á eftir á ekki við hérlendis, en er birt til fróðleiks.(*Innskot endar.)

Sífellt verður algengara að vestrænir læknar, svo sem svæfingarlæknar og taugalæknar, verði sér úti um þjálfun í nálastungum. Í Bandaríkjunum er einnig í boði þjálfun í nálastungumeðferð fyrir fólk sem ekki er læknismenntað.

  • Náms- og þjálfunarkröfur til lækna: Í flestum ríkjum þurfa læknar að hafa 200 til 300 klukkutíma þjálfun í nálastungumeðferð til þess að öðlast réttindi frá samtökum nálastungulækna (the American Board of Medical Acupuncture - ABMA).

  • Kröfur réttindanáms í nálastungumeðferð til þeirra sem ekki eru læknar:

    • Þjálfun. Í Bandaríkjunum þurfa nálastungulæknar/meðhöndlarar að ljúka 2.000 til 3.000 stunda þjálfun til meistaraprófs sem viðurkennt er af þar til bærri stofnun sem veitir réttindi í nálastungum og austurlenskum lækningum, Accreditation Commission for Acupuncture and Oriental Medicine.

    • Réttindi. Til að hljóta réttindi í Bandaríkjunum þarf nálastungulæknir/meðhöndlari að gangast undir viðurkenningarpróf (Board Exam) hjá sérstakri nefnd (National Certification Commission of Acupuncture and Oriental Medicine - NCCAOM). Hægt er að fara inn á vefinn hjá NCCAOM til að finna viðurkennda nálastungulækna.

Hafir þú fengið brjóstakrabbamein og langar til að prófa nálastungur skaltu ganga úr skugga um að viðkomandi meðhöndlari/nálastungulæknir hafi meðhöndlað konur með brjóstakrabbamein.

Rannsóknir á áhrifum nálastungumeðferðar á fólk með brjóstakrabbamein og aðrar tegundir krabbameins

Verið er að gera margar rannsóknir á því hvernig nálastungumeðferð get stuðlað að því að draga úr ýmsum aukaverkunum krabbameinsmeðferðar. Sýnt hefur verið að nálastungur geta dregið úr þreytu, hitakófum, ógleði, uppköstum og verkum.

Niðurstöður umfangmestu rannsóknar til þessa á áhrifum nálastungumeðferðar á brjóstakrabbameinssjúklinga birtist í Journal of the American Medical Association árið 2000. Í rannsókninni tóku 104 konur þátt sem voru í meðferð með stórum skömmtum af krabbameinslyfjum og fengu jafnframt hefðbundin ógleðilyf. Konur voru valdar af handahófi til að fá til viðbótar fimm daga í röð meðferð með rafnálastungum (nálastungumeðferð þar sem nálar eru örvaðar með vægum rafstraumi), nálastungum án rafstraum og engar nálastungur. Konurnar sem fengu nálastungumeðferð fundu til ógleði mun sjaldnar en þær sem ekki fengu hana.

Í rannsókn sem gerð var við Duke Háskólann og birt var árið 2002 var borin saman árangur þess að nota nálastungur annars vegar og hins vegar ógleðilyfið Zofran® (efnafræðiheiti: ondansetron) fyrir skurðmeðferð við brjóstakrabbameini til að draga úr ógleði sem fólk getur fundið fyrir eftir skurðaðgerð. Niðurstaðan var sú að nálastungumeðferðin virkaði betur en zofran.

Í franskri rannsókn sem birt var árið 2003 voru nálastungur rannsakaðar í tengslum við meðferð á verkjum af völdum krabbameins. Hjá sjúklingum sem meðhöndlaðir voru með nálastungum höfðu 36% minni verki eftir tveggja mánaða meðferð með nálastungum samanborið við 2% minnkun hjá sjúklingum sem fengu "ímyndaða" nálastungumeðferð.

Snemmbúnar niðurstöður úr rannsókn  á vegum Memorial Sloan-Kettering Cancer Center sem enn er ekki lokið og birtust árið 2004 sýndi sig að nálastungur drógu úr þreytu eftir meðferð með krabbameinslyfjum um 31% hjá fólki með mismunandi tegundir krabbameins. Önnur rannsókn sem er ólokið var gerð í Svíþjóð og birtar úr fyrstu niðurstöður 2005 sýndi að nálastungumeðferð minnkaði hitakóf um helming. Læknum þykja þessar niðurstöður uppörvandi en eru þetta eru engu að síður mjög snemmbúnar niðurstöður og frekari rannsókna þörf.

Atriði sem mikilvægt er að íhuga áður en nálastungumeðferð er reynd.

Á hverju ári fá milljónir manna meðferð með nálastungum. Þó er það svo að eins og allar meðferðir fylgir nálastungum ákveðin áhætta.

  • Hætta á sogæðabólgu: Enginn sem farið hefur í aðgerð til að fjarlægja eitla úr holhönd skyldi láta stinga nálum í þann handlegginn. Með því að meðhöndla handlegginn með nálastungum er hætta á sogæðabólgu , vökvasvöfnun í handleggnum. Talaðu við þann sem meðhöndlar þig um aðrar aðferðir til að meðhöndla handlegginn eins og til dæmist meðferð með ilmkjarnaolíum (arómaþerapíu).

  • Hætta á sýkingu: Viðtekið er í nálastungumeðferð að nota einnota, dauðhreinsaðar nálar og þvo stungusvæðin með spritti eða öðru sótthreinsandi áður en nálum er komið fyrir. Sýkingarhætta er alltaf fyrir hendi, en hættan eykst ef meðhöndlarinn fylgir ekki þessum reglum. Fólk með veiklað ónæmiskerfi vegna þess að hvítum blóðkornum hefur fækkað á enn frekar á hættu að verða fyrir sýkingu við nálastungumeðferð. Fækkun hvítra blóðkorna dregur úr mótstöðu gegn sýkingum.

  • Hætta á blæðingu hjá vissu fólki: Vegna hættunnar á blæðingu, skyldi fólk ekki fara í nálastungumeðferð sem:

    • Er með blæðisjúkdóma, (sjálfkveikt blæðing, skortur á storkuefni og fleira),

    • er með lækkað hlutfall hvítra blóðkorna,

    • tekur inn blóðþynningarlyf.

  • Hætta á að draga úr áhrifum krabbameinslyfja með því að taka inn jurtalyf eða fæðubótarefni úr jurtum: Stundum er mælt með jurtalyfjum ásamt nálastungumeðferð en þau skyldir þú EKKI taka á meðan þú ert í meðferð með krabbameinslyfjum. Þannig jurtalyf geta dregið úr árangrinum sem stefnt er að þegar gefin eru krabbameinslyf.

ÞB