Hnykkmeðferð
Hvað er hnykkmeðferð?
Í hnykkmeðferð (hnykklækningum - kírópraktík) er athyglinni beint að stoðkerfi og liðum líkamans - einkum hryggnum. Mikilvægasta aðferð hnykklækna er s.k. manipulationmeðferð (manus=hönd) en þá hreyfir hnykklæknirinn með höndunum liði örlítið lengra en unnt er að gera hjálparlaust. Einnig er hreyft við mjúkum vefjum og sinum með nuddi og teygjum.
Hnykkmeðferð byggist á hugmyndum sem í stuttu máli má lýsa sem svo:
-
Líkaminn hefur magnaðan hæfileika til að lækna sjálfan sig.
-
Stoðkerfi líkamans (einkum hryggurinn) og önnur starfsemi hans eru nátengd og þessi tenging hefur áhrif á heilsufar.
-
Hnykkmeðferð er veitt í því skyni að koma á eðlilegu sambandi stoðkerfis og líkamsstarfsemi og hjálpa líkamanum til að lækna sig sjálfur.
Við hverju má búast þegar farið er til hnykklæknis
Í fyrstu heimsókn fer hnykklæknir yfir heilsufarssögu þína. Hann skoðar þig, einkum hryggsúluna. Hugsanlega þarftu að fara í fleiri rannsóknir, t.d. röntgenmyndatöku. Telji hnykklæknirinn að þú getir haft gagn af meðferðinni, gefur hann þér tíma og setur upp meðferðarplan.
Í meðferðinni kann hnykklæknirinn að hnykkja á einum eða fleiri stöðum (manipulationsmeðferð). Þetta gerir hann með höndunum. Oftast er það hryggurinn sem er tekið á, snöggt og af afli sem hnykklæknirinn hefur fulla stjórn á. Þannig lagfærir hann stöðu liða til að auka hreyfigetu á svæðinu sem hann er að vinna með.
Flestir hnykklæknar beita fleiri aðferðum svo sem að:
-
hreyfa til liði eins langt og þeir komast,
-
nudda,
-
beita ekki aðeins höndum heldur nota hita, ís, hljóðbylgjur eða rafræna örvun.
Verði vart hliðarverkana geta þær falist í tímabundnum óþægindum þar sem líkaminn var meðhöndlaður, í höfuðverk eða þreytu. Þessar hliðarverkanir eru oftast minni háttar og hverfa á einum til tveimur sólarhringum.
Hve oft hnykkmeðferðir hafa framkallað alvarlega kvilla eru menn ekki á eitt sáttir um. Engar skipulagðar rannsóknir á fjölda slíkra tilfella hafa verið gerðar svo vitað sé. Með hliðsjón af því sem best er vitað, er hættan afar lítil.
Kröfur um menntun og þjálfun hnykklækna
Hnykklæknar eru sérmenntaðir í að meðhöndla liði og vöðva líkamans og hafa leyfi yfirvalda til að sjúkdómsgreina og meðhöndla sjúklinga, að undangengnu námi sem getur verið mislangt eftir löndum. Sækja þarf um leyfið og þá er farið í saumana á námskröfum og gengið úr skugga um að hnykklæknir hafi staðist öll tilskylin próf áður en leyfið er veitt.
Kostnaður
Tryggingastofnun ríkisins greiðir ekki niður meðferð hjá hnykklæknum, en ýmis stéttarfélög, vinnustaðir og íþróttafélög veita styrki til þessa og rétt að kynna sér það.
Rannsóknir á áhrifum hnykkmeðferðar á konur með brjóstakrabbamein
Rannsóknir hafa sýnt að með hnykkmeðferð má draga úr höfuðverkjum, bak- og liðverkjum hjá konum sem hafa farið í meðferð við brjóstakrabbameini. Með öðrum rannsóknum hefur verið kannað hvort draga megi úr tíðahvarfaeinkennum með hnykklækningum hjá konum sem hafa greinst með brjóstakrabbamein, en niðurstöður voru ekki einhlítar.
Mikilvæg atriði sem þarf að taka tillit til áður en leitað er til hnykklæknis
Mikilvægt er að þú ræðir við krabbameinslækni þinn sértu að hugsa um að leita til hnykklæknis.
-
Þeim sem eru með blæðisjúkdóm eða taka blóðþynningarlyf kann að vera hættara við slagi ef farið er að meðhöndla hrygginn á þennan hátt.
-
Konur með veikluð bein eða beinþynningu af völdum meðferðar við brjóstakrabbameini geta átt beinbrot á hættu fari þær í hnykkmeðferð.
Gefi læknirinn grænt ljós á hnykkmeðferð, er brýnt að þú segir hnykklækninum frá þeim meðferðum sem þú hefur farið í eða lyfjunum sem þú færð vegna brjóstakrabbameins. Hnykklæknirinn þarf að fara mjög varlega nærri svæðinu þar sem þú varst skorin. Sumar konur þola ekki að hreyft sé við svæði þar sem þær voru skornar.
ÞB