Sjónsköpun

Hvað er sjónsköpun?

Sjónsköpun („visualization") er tækni eða aðferð sem felst í að manneskja leitast við að setja sér fyrir sjónir myndir, hljóð, ilm og önnur skynáhrif sem tengjast því að ná ákveðnu, settu marki. Að ímynda sér að vera staddur í ákveðnu umhverfi eða aðstæðum getur vakið skynfærin og framkallað líkamleg og sálræn viðbrögð.

Rannsóknir hafa sýnt að með sjónsköpun megi:

  • Auka tímabundið fjölda ónæmisfrumna og styrkja þannig ónæmiskerfið,

  • draga úr einkennum depurðar og þunglyndis á tilfinningarnar,

  • stuðla að vellíðan.

 

Við hverju er að búast í dæmigerðum sjónsköpunartíma

Sjónsköpun má iðka heima með hliðsjón af bók eða hljóðritun eða leita til þjálfaðs meðferðaraðila. Sjónsköpun má iðka í hóp eða í einkatíma. Yfirleitt stendur svona tími í 20-30 mínútur. Í dæmigerðum sjónsköpunartíma gerist þetta:

  • Leiðbeinandinn notar einhverja af þeim margvíslegu aðferðum sem til eru við að leiða sjónsköpunina. Undir handleiðslu hans ferðu í huganum í gegnum ímyndaða reynslu.

  • Yfirleitt leiðir hann þig á staði eða í aðstæður þar sem þú nærð að upplifa kyrrð og ró, slökun, öryggi og óttaleysi.

  • Stundum notar leiðbeinandinn lágværa og ljúfa tónlist til að skapa þægilegt andrúmsloft sem hjálpar til að halda truflunum frá þér og auðvelda þér að einbeita huganum.

  • Þú verður beðinn um að ímynda þér eitthvað, svo sem hlýtt heilandi ljós á svæðinu þar sem krabbameinið var eða sjá fyrir þér myndir þar sem ónæmiskerfið þitt vinnur á krabbameinsfrumum. Vinsælt er að ímynda sér litla tölvukarla sem elta uppi og gleypa krabbameinsfrumur.

  • Leiðbeinandinn lýsir hljóðum, lykt, bragði og öðrum skynhrifum sem gætu átt við það sem þú setur þér fyrir sjónir.

  • Á meðan þú einbeitir þér að hinum ímynduðu aðstæðum kanntu að finna fyrir tilfinningum, líkamlegum eða andlegum, svo sem hitatilfinningu, léttleika, gleði eða krafti.

 

Kröfur um menntun og þjálfun

Engar sérstakar kröfur eru gerðar af hálfu hins opinbera um menntun eða þjálfun leiðbeinenda. Oft fer saman þjálfun í hugleiðslu og sjónsköpun. *Hægt er að finna hljómdiska og spólur (aðallega á ensku)þar sem iðkandinn er leiddur áfram í gegnum ímyndaðar aðstæður, og til er þess háttar efni sem sérstaklega er ætlað krabbameinssjúkum.

Rannsóknir á áhrifum sjónsköpunar á konur með brjóstakrabbamein

Rannsóknir á sjúklingum með brjóstakrabbamein og áhrifum sjónsköpunar hefur leitt í ljós að meðferðin getur eflt ónæmiskerfið og dregið úr kvíða, þunglyndi og depurð.

Í lítilli rannsókn sem gerð var við Oregon Health and Science University og birtist árið 2002,  voru 25 konur með brjóstakrabbamein á I. og II stigi leiddar, ein í einu, í gegnum dáleiðandií sjónsköpunartíma. Í tímanum voru þær beðnar að ímynda sér ákveðna tegund af ónæmisfrumum sem hafa það hlutverk að verja líkamann — s.k. drápsfrumur — og láta þær finna, tortíma, og eyða krabbameinsfrumum. Fyrsti tími hverrar og einnar var hljóðritaður. Konurnar notuðu upptökuna til að fara í sjónsköpun heima hjá sér þrisvar í viku í átta vikur.

Rannsakendur könnuðu ástand ónæmiskerfis og andlegt ástand kvennanna í þrígang: Fyrir fyrsta sjónsköpunartímann, eftir átta vikna ástundun og þremur mánuðum eftir að þær hættu að nota upptökuna. Þegar niðurstöðurnar voru bornar saman kom í ljós að þunglyndi hafði minnkað til muna og fjöldi drápsfrumna hafði aukist. Þótt fjöldi drápsfrumna hefði aukist var starfsemi þeirra ekki ólík því sem hafði mælst í upphafi. 

Í breskri rannsókn sem var birt 1999, var 96 konum sem nýlega höfðu greinst með stór eða stækkandi staðbundin æxli brjóstakrabbameins skipt í tvo hópa. Konurnar í báðum hópunum fóru í viðtekna krabbameinsmeðferð, þar á meðal 6 lyfjahringi með krabbameinslyfjum. Konurnar í öðrum hópunum fengu einnig þjálfun í slökun og sjónsköpun. Þeim konum leið betur og áttu auðveldara með að tjá tilfinningar sínar en þær sem aðeins fóru í hefðbundna meðferð. 

Í rannsókn sem fór fram í Kóreu og niðurstöður voru birtar úr árið 2005, fengu 30 sjúklingar með brjóstakrabbamein þjálfun í vöðvaslökun (PMRT) og var kennt að nota sjónsköpun þá sex mánuði sem þeir voru í meðferð með krabbameinslyfjum. Annar jafnstór hópur fékk einungis krabbameinslyf. Sjúklingar í hópnum sem iðkaði vöðvaslökun og sjónsköpun fundu til minni ógleði, köstuðu síður upp, fundu fyrir minni kvíða og voru jafnlyndari en sjúklingarnir í hinum hópnum sem einungis fengu krabbameinslyf. Hálfu ári eftir að meðferð með krabbameinslyfjum laukum upplifðu sjúklingar í hópnum sem fór í vöðvaslökun og sjónsköpun meiri lífsgæði en þeir sem enga þjálfun hlutu. 

Mikilvæg atriði sem rétt er að huga að áður en farið er í sjónsköpun

Meðvituð sjónsköpun er talin hættulaus. Hana er best að stunda þegar unnt er að einbeita sér til fulls. Varað er við því að reyna   sjónsköpun undir stýri eða við eldavélina.

ÞB