Dáleiðsla

Hvað er dáleiðslumeðferð?

Dáleiðsla er aðferð til að hjálpa fólki að komast í rólegt en vakandi hugarástand þannig að það eigi auðveldara með að vinna úr eða gera breytingar á sjálfu sér. Fólk styðst oft við dáleiðslu til að komast yfir ótta eða vana sem það vill losna við.

 • Dáleiðsla er innri einbeiting. Dáleiðslan hjálpar fólki að loka úti truflandi atriði og einbeita sér að ákveðinni hugmynd, tilfinningu eða minningu.

 • Dáleiðsla hefur í för með sér djúpa slökun. Í slökuninni sem fylgir dáleiðslu er auðveldara að virða fyrir sér kvíða, ótta, sársauka eða aðra erfiðleika frá nýju sjónarhorni. 

 • Dáleiðsla getur gert manneskju opnari fyrir sefjun. Dáleiðsla gerir það mögulegt að opna hugann vegna þess að meðvitaður hugur —sem kann að vera lokaður og gagnrýninn — er hljóður á meðan athyglin beinist að dýpri sviðum hans.

Rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna að dáleiðsla getur dregið úr: 

 • Sársauka,

 • ógleði,

 • uppköstum,

 • streitu,

 • kvíða.

Til eru margs kyns aðferðir við dáleiðslu. Þegar þú ert komin í dáleiðsluástand kann dáleiðandinn að:

 • Tala róandi við þig þannig að þér þú getir slakað á og finnist þú óhult.

 • Komið með tillögur um hvernig þú getir breytt atferli þínu á jákvæðan hátt.

 • Hvetja þig til að sjá sjálfa þig breyta öðru vísi. Það er áhrifamikil aðferð sem byggist á svokallaðri "sjónsköpun".

Meðferðaraðili sem beitir dáleiðslu getur unnið með þér að því að finna aðferð sem hentar þér best og þeim árangri sem þú stefnir að. Þótt mikilvægt sé í byrjun að vinna með aðila sem hefur hlotið þjálfun, getur dáleiðandinn kennt þér að dáleiða sjálfa þig þannig að þú getir æft þig heima. Þegar þú hefur með hjálp hans náð góðum tökum á atriðum eins og að ráða við verki eða þreytu, geturðu haldið áfram upp á eigin spýtur með sjálfsdáleiðslu.

Við hverju má búast í dæmigerðri dáleiðslumeðferð

Í fyrsta sinn sem þú kemur til dáleiðanda spyr hann þig trúlega um sjúkrasögu þína og tilfinningalíf. Hann biður þig að tala um vandamál sem þú átt við að glíma, svo sem verki, kvíða, þreytu. Þegar hann hefur áttað sig á hvernig þér líður velur hann viðeigandi dáleiðsluaðferð.

 • Dáleiðandinn byrjar hugsanlega á að biðja þig um að loka augunum og fer að tala við þig lágum, róandi rómi og draga upp fyrir þér skýrar myndir sem hjálpa þér að slaka á.

 • Þegar þú ert komin í dáleiðsluástand leggur hann til ýmsar leiðir að takmarkinu, hvort sem það er að draga úr verkjum að kalla fram æðruleysi.

 • Dæmigerður tími varir frá hálfri upp í eina klukkustund.

 • Þér gæti nægt einn tími eða þú þarft að fara í nokkra tíma í röð.

 • Í lok tímans getur þú komið þér hjálparlaust úr dáleiðslunni.

 • Eftir tímann getur þú tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið fyrir tímann.

Það sem dáleiðsla er ekki:

 • Á meðan þú ert í dáleiðsluástandi fær dáleiðandi ekki vald yfir þér. Dáleiðandi getur ekki neytt þig til að gera eitthvað sem þú ekki vilt.

 • Ekki er unnt að dáleiða þig gegn vilja þínum. Þú þarft að opna hugann og vera tilbúin að taka á móti dáleiðslu til þess að hún virki. 

Kröfur til dáleiðenda

Dáleiðendur sem starfa á eigin vegum þurfa ekki sérstakt leyfi. Brýnt er að finna dáleiðanda með reynslu, helst úr heilbrigðisgeiranum. Hægt er að finna fólk með þann bakgrunn sem hefur tileinkað sér þessa aðferð til viðbótar við annað í því skyni að hjálpa fólki. Það geta verið félagsráðgjafar, sálfræðingar eða læknar. Leitaðu ævinlega upplýsingar um menntun og reynslu viðkomandi.  *Á LSH eru starfandi dáleiðsluteymi. Talaðu við krabbameinslækni þinn eða hjúkrunarfræðing, hafir þú áhuga á að reyna þessa meðferð.

Rannsóknir á gildi dáleiðslu fyrir fólk með brjóstakrabbamein og aðrar tegundir krabbameins

Ekki liggja fyrir neinar sérstakar rannsóknir sem sýni áhrif dáleiðslu á brjóstakrabbamein sem slíkt. Hins vegar virðist með dáleiðslu unnt að draga úr ýmsum einkennum krabbameins og fylgikvillum meðferða, svo sem verkjum, ógleði, uppköstum, streitu og kvíða. Unnið er að rannsóknum á því hvort með dáleiðslu megi draga úr hitakófum kvenna sem hafa greinst með brjóstakrabbamein.

Í ítalskri rannsókn sem birt var í tímaritinu Oncology árið 2000 var fylgst með 16 fullorðnum krabbameinssjúklingum sem fundu fyrir ógleði eða uppköstum áður en þeir áttu að fara næst í lyfjagjöf. Það er þekkt fyrirbæri að sumum verður illt við tilhugsunina eina um að fá lyfin. Eftir dáleiðsluna losnuðu sjúklingarnir við óþægindin. 

Í Stanford háskóla var gerð rannsókn sem var gefin út árið 1983. Fylgst var með 54 konum með dreift brjóstakrabbamein í eitt ár. Sumar fóru í hópmeðferð í hverri viku og hluti þeirra fékk kennslu í sjálfsdáleiðslu í því skyni að minnka krabbameinsverki. Dáleiðsluaðferðin fólst í að leyfa sársaukanum að vera þar sem hann var en ímynda sér samtímis aðrar tilfinningar á verkjasvæðinu, t.d. ískulda eða hlýjan fiðring. Sjúklingunum var kennt að einbeita huganum að þessum ímynduðu tilfinningum í stað verkjanna. Sjúklingar sem tóku bæði þátt í hópmeðferð og sjálfsdáleiðslu sögðust finna fyrir minni verkjum en þeir sem aðeins fóru í hópmeðferðina eða gerðu hvorugt.

Mikilvæg atriði sem þarf að huga að áður en dáleiðsla verður fyrir valinu

Dáleiðsla hefur gagnast krabbameinssjúklingum, á því leikur enginn vafi. Hins vegar eru þess dæmi að dáleiðsla geti vakið upp djúpar og mjög erfiðar tilfinningar. Láttu ekki bregðast að tala við lækni þinn áður en þú ákveður að fara í dáleiðslumeðferð. Það á sérstaklega við hafir þú einhvern tíma þurft að glíma við geðrænan sjúkdóm.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB