Dagbókarskrif

Að halda dagbók

Að halda dagbók gerist með því skrifa hjá sér helstu atburði og líðan hvers dags. Þetta má gera með því að færa inn í sérstaka bók eða skrá í tölvu. Síðan er það á valdi hvers og eins hversu nákvæm svona dagbók er. Sumum finnst þeir ekki geta lokið deginum án þess að skrifa í dagbókina sína. *Þetta hef ég gert frá því að ég greindist með brjóstakrabbamein og fundist mikil hjálp í því. Ég nýt þess að velja bækur til að skrifa í og nota ekki tölvuna, en skrifa hins vegar mismikið.

Rannsóknir sýna að það að halda dagbók getur:

  • Hjálpað fólki til að upplifa meiri tilfinningalega vellíðan.

  • Hjálpað fólki að líða betur líkamlega.

Við hverju má búast

Fólk heldur dagbækur á marga mismunandi vegu. Hafir þú áhuga á að prófa þetta skaltu ekki setja þér neinar sérstakar reglur — tjáðu þig á hvern þann hátt sem þér hentar.

  • Sumir nota dagbók til að skrifa um tilfinningar sínar á erfiðum tímum svo sem í veikindum, við skilnað eða andlát ástvinar.

  • Sumir skrifa í dagbókina til að losa sig við litlu streituvaldana sem fylgja daglegu lífi.

  • Dagbók má einnig nota til að setja sér markmið og hvetja sjálfan sig í átt að því.

  • Að halda dagbók þarf ekki alltaf að fela í sér að skrifað sé í hana. Sumir nota hana til að rissa eða teikna og tjá þannig tilfinningar sínar.

Að halda dagbók getur einnig hjálpað fólki til að hafa yfirsýn og sjá samhengi. Með þessu móti er unnt að bera saman líðanina fyrir fáeinum mánuðum og hvernig hún er núna. *Mér hefur dagbækurnar gera mér kleift að sjá hvernig dagar, vikur og mánuðir sem í fljótu bragði gætu virst hver öðrum líkir, t.d. meðan á erfiðri meðferð stendur, hafa sinn lit og líf en renna ekki bara saman í einhverja grámósku.

Kröfur

Kröfur eru auðvitað engar því þetta er þín eigin persónulega og sérstaka tjáning og yfirleitt ekki þörf fyrir aðstoð utanaðkomandi. Sums staðar er samt boðið upp á leiðsögn í dagbókarskrifum. Það á þó ekki við hér á landi þótt finna megi námskeið í skapandi skrifum á vegum tómstundaskóla og endurmenntunar. *Aðalmálið er að byrja og leyfa þessu svo að þróast, það er mín reynsla.

Rannsóknir á dagbókarskrifum kvenna með brjóstakrabbamein

Ekki hafa verið gerðar margar rannsóknir á áhrifum þess á fólk með krabbamein að halda dagbók.

Lítil rannsókn var birt árið 2002 sem gerð var við Kansasháskóla með þátttöku 60 kvenna með brjóstakrabbamein á fyrstu stigum sem nýlega höfðu lokið meðferð. Konunum var skipt í þrjá hópa sem allir áttu halda dagbók:

  • Konurnar í einum hópnum voru beðnar um að skrifa um innstu tilfinningar sínar og hugsanir um brjóstakrabbameinið, þar á meðal um vonir sínar um bata og óttann við að deyja.

  • Annar hópur var beðinn um að beina athyglinni að því sem þær fundu jákvætt við að hafa greinst með brjóstakrabbamein og farið í meðferð við honum.

  • Þriðji hópurinn var beðinn um að skrifa eingöngu um staðreyndir viðvíkjandi meðferðinni.

Að þremur mánuðum liðnum kom í ljós að konurnar í fyrstu tveimur hópunum sem skrifuðu um tilfinningar sínar færri einkenni svo nam 1/3 en konurnar í þriðja hópnum og þurftu að vitja læknis að sama skapi sjaldnar en þær sem bara skráðu hjá sér einkennin. Niðurstöður rannsóknarinnar reyndust háðar því hvernig konunum leið áður en þær byrjuðu að skrifa:

  • Konurnar sem helst vildu komast hjá því að hugsa um að þær væru með brjóstakrabbamein:

    • höfðu gott af því að skrifa um jákvæðar hugsanir og tilfinningar sem höfðu vaknað á meðan þær fóru í gegnum þessa lífsreynslu.

    • Þurftu marktækt sjaldnar að leita læknis í sambandi við eitthvað sem tengdist krabbameininu.

  • Konurnar sem gátu tjáð sig til fulls um hugsanir sínar og tilfinningar í sambandi við að vera með brjóstakrabbamein:

    • sýndu marktækt færri neikvæð líkamleg einkenni.

    • leituðu marktækt sjaldnar læknis í tengslum við krabbameinið.

Þótt þessi rannsókn gefi uppörvandi niðurstöður þarf að gera fleiri kannanir til að ganga úr skugga um hvers konar sjúklingar hafa mest gagn af því að skrifa um tilfinningar sínar í dagbók. 

Mikilvæg atriði sem rétt er að íhuga áður en þú ákveður að halda dagbók

Yfirleitt er talið algjörlega hættulaust að halda dagbók. Það hentar þó alls ekki öllum.

  • Fólk sem ekki hefur gaman af að skrifa hefur hugsanlega lítið gagn af því að halda dagbók. Ef það verður að einhvers konar skyldu er trúlega best að finna aðra leið til að draga úr streitu.

  • Fyrir fólk sem hefur áhyggjur af skriftinni, stafsetningu eða stíl, kann að vera erfitt að losa um hömlurnar og einbeita sér að hugsunum og tilfinningum. Eiga það við um þig, hefur þú hugsanlega betra af að finna eitthvað sem getur losað um spennuna og byggist á öðru eins og t.d. jóga eða tai chi.

  • Rannsóknir sýna að það að skrá aðeins neikvæðar tilfinningar án þess að minnast á hugsanir eða markmið geti þegar upp er staðið aukið streitu. 

 

*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda.

ÞB