Nudd

Hvað er nudd?

Nudd er aðferð sem beitt er til að hafa áhrif á mjúka vefi líkamans, ýmist með höndum, fingurgómum eða hnúum. Nudd getur verið mjög mismunandi og beitt við það mismiklum þrýstingi og mismunandi snertingu. Nudd getur verið grunnt og áherslan á hörundinu eða djúpt og áhersla lögð á vöðvana.  

Rannsóknir hafa sýnt að nudd getur gert fólki með krabbamein gott. Það hefur til dæmis reynst koma að gagni við:

  • Kvíða,

  • verkjum,

  • þreytu.

  • Það getur einnig styrkt ónæmiskerfið.

Við hverju má búast í nuddtíma

Hér fer stutt lýsing á því við hverju má yfirleitt búast í nuddtíma:

  • Þegar þú mætir spyr nuddarinn hvort þú eigir við einhver meiðsli að stríða eða sjúkdóma. Segðu nuddaranum frá krabbameinsmeðferðinni. Það hjálpar honum að ákveða hvers konar nudd muni henta þér best og hvaða svæði hann á að forðast að nudda.

  • Það fer eftir umhverfinu hvort þú átt þess kost að leggjast á nuddbekk eða sitja í stól á meðan þú færð nuddið.

    • Veljir þú að láta nudda þig á nuddbekk, er farið með þig afsíðis og þú beðin um að fara úr flestum eða öllum fötum og yfir þig er breitt lak og teppi. 

    • Veljir þú að láta nudda þig í stól er líklegast að ekki sé farið með þig afsíðis og þú þarft ekki að afklæðast.

  • Flestar tegundir nudds eru þannig að þú ert látin leggjast á bólstraðan bekk - nuddbekk. Stundum setur nuddarinn púða hér og þar til að veita líkamanum stuðning þar sem þess þarf með.

  • Nuddarinn notar hugsanlega olíur eða krem sem hann ber á húð þína. Sértu með ofnæmi fyrir efnum sem er algengt að finnist í nuddolíum eða kremum, skaltu láta nuddarann vita af því.

  • Hikaðu ekki við að segja nuddaranum frá því ef þér finnst hann nudda of fast. Finnir þú til óþæginda skaltu biðja hann að nota léttari strokur. 

  • Dæmigerður nuddtími stendur í um það bil klukkustund en getur varað frá hálfum og upp í einn og hálfan klukkutíma.

  • Eftir nuddið fer nuddarinn út úr herberginu og leyfir þér að slaka á í einrúmi nokkrar mínútur áður en þú klæðist aftur.

Kröfur til starfandi heilsunuddara

*Heilsunuddari sem starfar sjálfstætt þarf að hafa til þess leyfi frá heilbrigðisyfirvöldum í sínu sveitarfélagi. Kröfur um menntun og starfsþjálfun eru skilgreindar af samtökum heilsunuddara F.Í.H.N. Mikilvægt er fyrir þig að finna nuddara sem hefur reynslu af því að meðhöndla sjúklinga með brjóstakrabbamein. Kynntu þér bakgrunn nuddarans, nám og reynslu.

*Nuddarar á heilsustofnunum hafa tilskilin réttindi og uppfylla kröfur sem þar eru gerðar. Þú skalt ræða við krabbameinslækni þinn og biðja hann að mæla með eða vísa þér til nuddara á vegum sjúkrahússins ef svo ber undir.

Rannsóknir á áhrifum nudds á fólk með brjóstakrabbamein eða aðrar tegundir krabbameins

Rannsóknir sýna að nudd virðist hafa góð áhrif á konur með brjóstakrabbamein, bæði líkamlega og andlega.

Árið 2003 var gerð rannsókn við háskólann í Minnesota þar sem borin voru saman áhrif heilunarnudds (þá eru hendur heilarans rétt fyrir ofan líkamann eða snerta hann aðeins mjög laust) og áhrif umsjár læknis og hjúkrunarfræðings (án snertimeðferðar). Rannsóknin náði til 230 krabbameinssjúklinga. Rannsakendur komust að því að bæði heilun og nudd drógu úr kvíða og verkjum og nuddið dró einnig úr þörf fyrir verkjastillandi lyf.

Árið 2003 var gerð fimm vikna rannsókn háskólann í Miami á áhrifum nuddmeðferðar annars vegar og vöðvaslökunar (PMR) hins vegar. Rannsóknin náði til 58 kvenna með brjóstakrabbamein á stigum I og II. Konurnar í báðum hópunum sögðust finna fyrir minni kvíða og konurnar í nuddmeðferðinni sögðust finna fyrir minni depurð. Konurnar í nuddhópnum reyndust einnig hafa meira af efni sem verður til í heilanum og kallast dópamín, en það framkallar vellíðunartilfinningu. Auk þess mældist hjá sömu konum aukinn fjöldi hvítra blóðkorna sem stuðla að því að styrkja ónæmiskerfið (s.k. drápsfrumur) frá mælingunni sem gerð var fyrsta dag rannsóknarinnar.  

Engar sannanir eru fyrir því að nudd kunni að stuðla að því að krabbamein dreifi sér.

Mikilvæg atriði sem rétt er að hafa í huga áður en farið er í nudd

Sértu með brjóstakrabbamein og hefur áhuga á að finna heilsunuddara, skaltu biðja krabbameinslækni þinn að mæla með einhverjum. Mikilvægt er að segja nuddaranum frá greiningunni, meðferð og þeim einkennum sem þú kannt að finna fyrir. Mikið gagn getur verið að nuddi, en það getur líka gert ógagn. Hafðu eftirfarandi atriði í huga: 

  • Sértu nýkomin úr skurðmeðferð skaltu liggja á bakinu á meðan nuddað er þar til læknir ákveður að þér sé óhætt að liggja á maganum.

  • Djúpt nudd eða aðrar tegundir nudds sem fela í sér mikinn þrýsting er EKKI æskilegt, sértu í meðferð með krabbameinslyfjum eða í geislameðferð. Fólk sem er í meðferð með krabbameinslyfjum kann að vera með lágt hlutfall rauðra og hvítra blóðkorna og þá er aukin hætta á mari. Þar sem djúpt nudd getur reynt á kerfi sem þegar er undir miklu álagi og viðkvæmt vegna lyfja eða geislunar, er ekki mælt með því fyrir fólk í þess konar meðferðum. Þess í stað er óhætt að fara í létt nudd. *Höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð er að mínu mati mjög mild og áhrifarík meðferð þegar kerfið er undir miklu álagi vegna krabbameinsmeðferðar.

  • Sértu í miðri geislameðferð skyldi nuddarinn forðast að snerta húðina á svæðinu sem er geislað því hún er mjög viðkvæm.  Nudd og nuddolíur geta haft mjög slæm áhrif á húð sem þegar sýnir merki um ertingu. Nuddarinn skyldi forðast að snerta við merkingum sem afmarka geislunarsvæðið. Sé engin merki um ertingu að sjá á geislunarsvæðinu, getur verið óhætt að nudda það mjög laust og varlega í gegnum mjúkan klút eða þunnt handklæði.

  • Hafi einhverjir eitlar verið fjarlægðir skyldi nuddarinn aðeins beita mjög léttri snertingu á handlegginn og svæðið umhverfis holhöndina. 

  • Sértu með sogæðabólgu, skyldi nuddarinn forðast með öllu að snerta við handleggnum og holhöndinni. Hefðbundið heilsunudd getur aukið á sogæðabólguna. Nuddari sem hefur reynslu af að vinna með sjúklingum með brjóstakrabbamein kann að vita þetta, en það er mikilvægt að brýna þetta fyrir honum og vera viss um að hann skilji hvað er í húfi.

  • Sértu með sogæðabólgu í handleggnum, þarf að meðhöndla handlegg og holhandarsvæðið með annars konar nuddi, þ.e. sogæðanuddi. Við þessar aðstæður þarftu að finna heilsunuddara sem hefur réttindi og þjálfun í að veita sogæðanudd til að meðhöndla þig. Talaðu við krabbameinslækninn þinn. *Á endurhæfingu LSH hefur verið hægt að komast í sogæðanudd.

*Með því að slá inn leitarorðunum nudd, heilsunudd og sogæðanudd í leitarvél má finna nöfn ýmissa aðila sem bjóða svona meðferðir. Nauðsynlegt er að fá staðgóðar upplýsingar um nám og reynslu viðkomandi. Best er að byrja á að tala við krabbameinslækninn og ráðgast við hann.

 

*Málsgreinar merktar stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB