Músíkþerapía

Hvað er músíkþerapía?

Músíkþerapía felst í að nota lifandi tónlist eða hljóðritaða til að beina huganum frá einkennum og aukaverkunum og ýta undir slökun. Tónlist í heilunarskyni getur einnig auðveldað samskipti fólks sem á ekki alltaf gott með að tjá tilfinningar sínar.

Rannsóknir sýna að músíkþerapía getur stuðlað að því að:

 • Auka vellíðan,

 • minnka kvíða,

 • draga úr líkamlegum einkennum svo sem verkjum og ógleði.

Það sem búast má við í dæmigerðum músíkþerapíutíma

Tíma í músíkþerapíu má setja upp við ýmsar aðstæður, hvort sem það er á sjúkrahúsi, heilsustofnun, krabbameinsmiðstöð eða heima fyrir. Engrar tónlistarkunnáttu er þörf til að njóta ábatans.

Leiðbeinandi í músíkþerapíu (músíkþerapisti) spyr spurninga um aðstæður þínar og sníður þerapíuna að tilfinningalegum og líkamlegum þörfum þínum. Tíminn gæti til dæmis falist í að:

 • Leika tónlist,

 • hlusta á tónlist,

 • hreyfa sig eftir tónlist,

 • semja lög,

 • ræða innihald texta eða ljóða laga.

Kröfur sem gerðar eru til músíkþerapista

Í Bandaríkjunum eru músíkþerapistar með BA-gráðu í músíkþerapíu frá skóla á háskólastigi sem býður upp á nám er uppfyllir kröfur samtaka músíkþerapísta American Music Therapy Association.

Þegar músíkþerapisti hefur lokið fyrrihlutaprófi sínu (BA-náminu) getur hann gengist undir sérstakt próf sem færir honum starfsréttindi. Það próf er á vegum dómnefndar, Certification Board for Music Therapists. Þegar músíkþerapisti nær prófinu fær hann prófskírteini upp á það ("MT-BC" = Music Therapist — Board Certified).

Unnt er að menntast frekar og bæta við sig gráðum í músíkþerapíu:

 • Registered Music Therapist (RMT),

 • Certified Music Therapist (CMT),

 • Advanced Certified Music Therapist (ACMT)

*(Innskot): Hérlendis er staðan svona: Til er félag músíkþerapista á Íslandi, FÍSMÚS. Félagið hefur sótt um að fá löggildingu starfsheitis síns, en ekki fengið enn sem komið er. Aðild að félaginu er heimil þeim sem lokið hafa námi í músíkþerapíu á háskólastigi frá viðurkenndri stofnun, þ.e. stofnun er mætir kröfum félags músíkþerapista í viðkomandi landi til starfsréttinda. Nöfn félagsmanna má m.a. finna hér.(Innskot endar)*

Rannsóknir á músíkþerapíu fyrir fólk með krabbamein

Gerðar hafa verið rannsóknir sem sýna að músíkþerapía getur hjálpað fólki sem greinst hefur með krabbamein og dregið úr kvíða þess, hjálpað því að slaka á og draga úr verkjum.

Í könnun sem gerð var í Bretlandi árið 2001 á áhrifum músíkþerapíu með þáttöku 29 krabbameinssjúklinga kom í ljós að í einum músíkþerapíutíma upplifðu þeir meiri vellíðan og minni spennu. Rannsakendur mældu framför í ónæmisstarfsemi og minna magn streituhormónsins kortísól.

Árið 2001 var fylgst með 20 sjúklingum sem biðu þess að fara í skurðsýnistöku úr brjóstinu. Sumir sjúklingarnir fengu 20 mínútna músíkþerapíu á meðan þeir biðu þess að fara inn á skurðstofuna. Í ljós kom að kvíðaeinkenni voru minni og öndun rólegri en hjá þeim sjúklingum sem ekki fengu músíkþerapíu.

Í lítilli könnun sem gerð var í Utah árið 1991 fengu 15 krabbameinssjúklingar sem voru á verkjalyfjum það verkefni að fara í mismunandi tegundir músíkþerapíu í sex daga til að komast að því hvort tónlist gæti stuðlað að því að lina verki þeirra enn frekar. Niðurstöðurnar sýndu minni verki hjá 47% sjúklinganna.

Mikilvægt að hafa í huga áður en farið er í músíkþerapíu

Talið er að músíkþerapía sé yfirleitt öruggt meðferðarform. Hins vegar getur músíkþerapía sem veitt er af óþjálfaðri manneskju verið áhrifalaus í besta falli og jafnvel aukið streitu og kvíða. Langi þig til að prófa músíkþerapíu skaltu ganga úr skugga um að músíkþerapistinn:

 • Hafi tilskylda menntun og réttindi,

 • hafi reynslu af að vinna með fólki með krabbamein

ÞB