Japanskt nudd (shiatsu)

Hvað er japanskt nudd (shiatsu)?

Shiatsu (er japanska og þýðir "fingraþrýstingur"). Þessi tegund nudds er eins konar punktanudd því hún byggist á því að þrýsta á ákveðna punkta, þá sömu og í kínverskum nálastungum.  Nuddgjafinn beitir mismunandi taktföstum þrýstingi með fingrunum á ákveðna staði líkamans. Markmiðið er að auka getu líkamans til að lækna sig sjálfur og stuðla að bættu heilsufari. 

Þótt shiatsu virðist að sumu leyti líkt hefðbundnu nuddi byggist það á austurlenskum hugmyndum um orkuflæði líkamans. Orka þessi kallast "qi" eða kí. Eins og lýst er í kínverskum lækningum er gert ráð fyrir að kí streymi um 20 mismunandi brautir (meridians) í líkamanum og þeim tengist ákveðir punktar (þrýstipunktar). Sé orkuflæðið stíflað einhvers staðar nær líkaminn ekki að starfa eins vel og ella. Með fingranuddinu eru þrýstipunktar og -brautir örvaðar til að auka orkuflæði um líkamann og koma á jafnvægi. Sumir líta á shiatsu-meðferð sem eins konar "nálastungumeðferð" án nála.  

Engar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum japansks fingranudds á konur með brjóstakrabbamein. Fólk sem farið hefur í fingranudd fullyrðir að það hafi hjálpað því að minnka eða losna við:

  • verki í hálsi, öxlum og baki,

  • stirðleika,

  • vöðvaspennu,

  • höfuðverk.

Við hverju er að búast í shiatsu-tíma?

Nuddgjafinn notar fingur, þumla eða lófa til að ýta á þrýstipunkta og orkubrautir líkamans. Með þrýstingi á lykilstaði er stefnt að því að teygja á og opna leiðir fyrir flæði lífsorkunnar (qi). Til eru ýmsar aðferðir til að gefa punktanudd, stundum er einnig bætt við teygjum, sérstakri öndun eða hugleiðslu.   

Shiatsu er hægt að gefa á þykkri dýnu á gólfinu eða á lágu nuddborði. Ekki er notuð olía eða áburður og bæði nuddgjafi og nuddþegi klæðast víðum þægilegum fatnaði. 

Kröfur um menntun og þjálfun shiatsu-nuddara

Engar kröfur eru gerðar af hálfu opinberra aðila hérlendis um menntun og þjálfun þeirra sem veita japanaskt nudd, þannig að eina leiðin er að spyrjast fyrir og reyna að fá meðmæli með þeim sem bjóða meðferð af þessu tagi. Með því að slá inn shiatsu sem leitarorði á góðri leitarvél og biðja um íslenska leit koma þegar upp nokkur nöfn. Menntun og þjálfun er mismikil og fer eftir skólum sem gera mismiklar kröfur um námslengd og gæði. Gott ráð er að skoða útskriftarskjal nuddarans - yfirleitt er það látið hanga uppi við - afla upplýsinga um viðkomandi skóla og biðja um nöfn á einhverjum sem hefur verið í meðferð hjá viðkomandi til að geta spurst fyrir og fengið meðmæli. Mikilvægt er að viðkomandi hafi einhverja reynslu af að vinna með konum með brjóstakrabbamein. Einnig er mikilvægt að segja nuddaranum frá sjúkdómsgreiningunni og þeim meðferðum sem þú ert í eða einkennum sem þú kannt að finna fyrir af völdum sjúkdómsins eða meðferðar við honum.

Rannsóknir á áhrifum shiatsu á konur með brjóstakrabbamein

Engar sérstakar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum shiatsu á konur sem greinst hafa með brjóstakrabbamein.

Margar konur sem farið hafa í svona nudd segja að þeim finnist það hafa slakandi áhrif, þær eigi auðveldara með að hreyfa sig og verkir hafi minnkað. Vísindalegar rannsóknir á hvaða jákvæðum áhrifum shiatsu kann að skila eru hins vegar af skornum skammti.

Konum með brjóstakrabbamein kann sumum að finnast þessi tegund nudds geta um stundar sakir minnkað streitu, mýkt stífa vöðva og dregið úr ákveðnum einkennum brjóstakrabbameinsins eða aukaverkana af lyfjum, en það er einstaklingsbundið. Engar vísindalegar sannanir eru fyrir því að unnt sé að meðhöndla krabbamein eða aðra sjúkdóma með japanska nuddinu shiatsu.

Mikilvæg atriði sem þarf að huga að áður en farið er í japanskt nudd

Sértu með brjóstakrabbamein og hafir áhuga á að finna nuddara sem kann japanskt nudd, skaltu athuga hvort skurðlæknir þinn, krabbameinslæknir eða hjúkrunarfræðingur geti mælt með einhverjum sérstökum. Mikilvægt er að lækningateymið þitt viti að þú ert að hugsa um að fara í svona meðferð. Einnig er mikilvægt að sá sem farið er til viti um greininginguna, meðferðir og öll einkenni sem þú kannt að finna fyrir.

Hafir þú greinst með brjóstakrabbamein, þarftu einnig að hafa í huga að:

  • Á meðan þú ert í meðferð með krabbameinslyfjum er rétt að þiggja ekki japanskt nudd. Á meðan á henni stendur fækkar oft rauðum og hvítum blóðkornum. Í japönsku nuddi er ýtt fast á líkamann og viss hætta á blæðingu (mari) fyrir hendi. Sumar tegundir krabbameinslyfja veikja beinin og mikill þrýstingur í japönsku nuddi getur brákað bein.

  • Á meðan þú ert í geislameðferð skaltu ekki fara í japanskt nudd. Hörundið á meðferðarsvæðinu kann að vera viðkvæmt og þolir ekki ertingu. Með japönsku nuddi getur það ástand versnað.

  • Sértu með sogæðabólgu  er líkast til rétt að þiggja ekki japanskt nudd því að sogæðabólga getur versnað við það. Talaðu við lækni þinn til að ganga úr skugga um þetta atriði. Í staðinn fyrir að fara í japanskt nudd gæti það hjálpað þér að fara í sjúkranudd eða sérstakt sogæðanudd. Talaðu við lækni þinn. Á endurhæfingu eftir greiningu krabbameins á göngudeild B1  er fólk sem kann á þetta og telji læknir þinn rétt að þú fáir sérhæft nudd, sendir hann beiðni þangað.

ÞB