Andleg iðkun og bænir

Hvað er andleg iðkun?

Andlegu viðhorfi eða iðkun er lýst sem vitund um að til sé eitthvað meira og stærra en sjálf einstaklingins. Þessu viðhorfi er iðulega veittur farvegur í gegnum trúarbrögð og bænir þótt unnt sé að tjá og leita andlegra gilda á margvíslegan annan hátt.

Með rannsóknum hefur verið sýnt fram á að andleg viðleitni, trú og bænir geta skipt miklu máli fyrir lífsgæði sumra sem greinst hafa með krabbamein. Rannsóknirnar sýna ekki að andleg iðkun og bænir geti læknað krabbamein eða aðra sjúkdóma en hún tilheyrir þeim víddum í andlegu viðhorfi sem skipta máli fyrir hvern og einn þegar tekist er á við erfiðan sjúkdóm og læknismeðferð.

Meðal þess sem bænir geta áorkað er að:

  • Minnka streitu og kvíða

  • ýta undir bjartsýni og jákvætt viðhorf og styrkja lífsviljann.

Hvers má vænta af bænagjörð

Bænir má fara með í hljóði eða upphátt, í einrúmi eða með fleira fólki (eins og gerist í kirkjum, musterum eða moskum). Að sækja guðsþjónustu reglulega, hver sem trúarbrögðin eru, fylgir bænagjörð sem snýst um þig eða aðra. Stundum er allur söfnuðuinn beðinn um að biðja fyrir veikri manneskju eða fjölskyldu einhvers. *Sérstakar fyrirbænaguðsþjónustur eru haldnar og hægt að leggja in beiðnir um bænarefni - þá eru einnig haldnar sérstakar bænastundir þar sem beðið er fyrir sjúkum.

Í sumum trúarbrögðum eru sérstakar stundir dagsins eða vikunnar helgaðar bænagjörð. Sumar bænir eru fastir liðir, þær eru lærðar utanað og endurteknar í einrúmi eða með öðrum.

Bænir geta einnig verið persónulegar, beðnar í einrúmi eða í hópi án þess að það sé gert undir merkjum einhverrar ákveðinnar trúar eða trúfélags og á hvaða tíma sem vera skal. Með bænum er æðri máttur oft ákallaður og beðið um hjálp, skilning, visku eða styrk til að takast á við vandamál lífsins.

Bænir: Sé þér ekki tamt að biðjast fyrir en finnur hjá þér þörf til að biðja án þess að vita hvar byrja skal, eru til bækur sem hægt er að leita í. Víða eru einnig starfræktir bænahringir og í mörgum kirkjum eru sérstakar fyrirbænastundir. Á LSH (Landspítala-Háskólasjúkrahúsi) eru einnig starfandi prestar og djáknar.

Andleg ástundun og bænir geta tekið á sig margvíslegar myndir. Hugleiðsla , 12-spora kerfið (eins og unnið er með það hjá AA-samtökum eða svipuðum hópum) og leit að tilgangi lífsins felur allt í sér andlega iðkun. Einföld iðkun sem felst í kyrrlátri íhugun, hlustun eða þakklæti geta orðið þáttur í ástundun daglegs, andlegs lífs. Sumir kjósa að veita andlegri þörf sinni í þann farveg að verja tíma úti í náttúrunni, skapa eitthvað eða þjóna öðrum.

Rannsóknir á gildi bæna fyrir fólk með krabbamein

Áhugi og viðurkenning á því að andleg iðkun geti hjálpað fólki að takast á við alvarleg veikindi, þar á meðal krabbamein, hefur farið vaxandi. Flestar rannsóknir á þessu sviði eru litlar umfangs. Niðurstöður slíkra rannsókna sýna að andleg ástundun kann að vera sú leið sem er opin hverjum og einum og reynist árangursríkust þegar kemur að því að glíma við alvarlega sjúkdóma. Hugsanlega má tengja sterka trú á andlegan þátt tilverunnar minni ótta við dauðann. 

Í Bandaríkjunum er stofnun sem heitir U.S. Office of Technology Assessment sem kynnti sér niðurstöðu frásagna sem birst höfðu í tímaritinu Journal of Family Practice á tíu ára tímabili, en það er tímarit heimilislækna. Könnun leiddi í ljós að í 83% þeirra rannsókna sem gerðar höfðu verið á andlegri iðkun skilaði hún jákvæðum áhrifum á líkamslega heilsu. Í annarri rannsókn voru skoðaðar skýrslur sem náðu yfir 12 ára tímabil í tveimur sálfræðitímaritum. Í þeim rannsóknum sem snerust um andlega iðkun kom í ljós að 92% höfðu bætt andlega heilsu sína, 4% sýndu engar breytingar, hvorki til hins betra né verra, en 4% höfðu haft slæmt af henni. Andleg iðkun var skilgreind sem þátttaka í guðsþjónustum og helgihaldi, félagslegum stuðningi, bænahaldi og trú á æðri mátt. 

Greining á 43 könnunum meðal fólks með dreift krabbamein sýndi að fólki sem sagðist líða vel andlega gekk betur að ráða við sjúkdóminn og finna tlgang í lífsreynslu sinni.

Í rannsókn sem beindist sérstaklega að konum með brjóstakrabbamein fannst bein tenging milli andlegrar iðkunar og minni depurðar og meiri tilfinningar um vellíðan en hjá öðrum. 

Í einni ákveðinni rannsókn var stuðst við spurningalistann Santa Clara Strength of Religious Faith Questionnaire og hann notaður til að mæla "trúrækni" 115 kvenna með brjóstakrabbamein. Þunglyndi eða depurð var mæld á kvarða sem gefinn er út af stofnun um faraldursfræði og nefnist Center for Epidemiologic Studies Depression Scale. Mikil trúrækni reyndist marktækt tengjast minni depurð. 

Enn önnur rannsókn náði til 84 kvenna í Texas sem höfðu greinst með brjóstakrabbamein. Konurnar svöruðu spurningum um andlega iðkun og sálræn viðbrögð sín við brjóstakrabbameini. Niðurstaðan sýndi að tengja mátti bænir við betri andlega líðan.

Í rannsókn sem gerð var með þáttöku 112 kvenna með dreift brjóstakrabbamein voru könnuð tengsl andlegrar iðkunar og ónæmiskerfis. Konur sem sögðu að andleg iðkun skipti þær miklu máli mældust með fleiri hvít blóðkorn og eitilfrumur en hinar. Hátt hlutfall slíkra frumna bendir til að ónæmiskerfið sé heilbrigt. Rannsókninni var hins vegar ekki fylgt eftir þannig að ekki er vitað hvort þessi niðurstaða hafði einhver áhrif á bata kvennanna.

Mikilvæg atriði sem rétt er að íhuga áður en þú reynir þessa leið

Skipti andlegt líf og bænir máli fyrir þig, skaltu segja lækni þínum frá því viðhorfi þínu og hvaða hlutverki það gegnir í lífi þínu. Sé honum kunnugt um hvað þér er mikilvægt kann það að hjálpa honum í viðleitni hans til að gera það sem þér er fyrir bestu, Margir trúa því að andleg iðkun skipti miklu máli þegar fólk er að glíma við alvarlegan sjúkdóm. Að finna tilgang í lífinu getur haft mikil áhrif þegar glímt er við krabbamein þótt það geti ekki læknað sjúkdóminn.  

ÞB