Að taka ákvörðun

Fyrir einhverjum áratugum síðan var konum rúllað inn á skurðstofuna og þær vissu ekki hvort brjóstið yrði horfið þegar þær vöknuðu eða ekki. Nú til dags er mikil áhersla lögð á að læknir og sjúklingur taki ákvörðun saman. Miklu ýtarlegri upplýsingar eru nú aðgengilegar. Þótt gott geti verið að hafa vald til að taka ákvörðun og búa yfir upplýsingum, getur því einnig fylgt mikið álag. Mörgum konum finnst að það væri — þótt það sé aðeins tímabundið — miklu auðveldara að læknir þeirra gæfi ákveðna og gamaldags skipun um hvað skuli að gera.

Til skemmri tíma litið getur virst erfitt að taka sjálf ákvörðun, en til lengri tíma litið eru minni líkur á að þú verðir kvíðin og þunglynd yfir því sem er að gerast með þig, hafir þú átt þátt í að taka ákvörðun með lækninum.  

Mikilvægast er að hafa í huga að þeir kostir sem til eru í stöðunni varðandi meðferð eru háðir hverju tilfelli: stærð og eðli æxlis og hvernig þú ferð sjálf yfirleitt að því að taka ákvarðanir. Segi læknar þér að í þínu tilfelli sé líklegt að fleygskurður og geislun sé jafn áhrifarík aðgerð og brjóstnám, er þér óhætt að velja aðra hvora leiðina. Þú stefnir ekki lífi þínu í hættu með því að halda brjóstinu.

Spyrðu sjálfa þig: „Langar mig til að reyna að halda brjóstinu?" Fyrstu viðbrögð margra kvenna eru þau að segja að þeim sé sama um brjóstin — „bjargið bara lífi mínu" er fyrsta viðbragðið. Þegar dregur úr áfallinu af greiningunni og þú hefur haft tíma til að hugsa málið, kemstu hugsanlega að því að það skiptir þig í raun og veru miklu máli að halda brjóstinu, einkum ef þú hefur sannfærst um að þú stefnir ekki lífi þínu í hættu með því.

ÞB