Að takast á við óttann við skurðaðgerð

Þegar allt kemur til alls er fullkomlega eðlilegt að kvíða fyrir skurðaðgerð, sérstaklega ef í hlut á einhver sem aldrei hefur farið í slíka aðgerð áður eða þurft að liggja á spítala. Talaðu um ótta þinn við fólk sem veit hvernig þetta gengur fyrir sig - lækni þinn, hjúkrunarfræðing eða einhvern ráðgjafa sem læknir þinn mælir með.

*Á LSH fékk ég tækifæri til að tala við hjúkrunarfræðing, skurðlækni og svæfingalækni áður en kom að sjálfri aðgerðinni og fannst mikil hjálp í því.

Talaðu um ótta þinn

"Flestir óttast það sem þeir ekki skilja eða þekkja," útskýrir Dr. Anne Rosenberg, sem er brjóstaskurðlæknir í Philadelphia. "Því betur sem þér tekst að lýsa fyrir lækninum hvað það er sem þú óttast, þeim mun betur er hægt að útskýra hlutina þangað til þér verði rórra."

Eftir því sem Dr. Rosenberg segir gerir það lækninum auðveldara að hjálpa sjúklingnum í gegnum þessa lífsreynslu ef hann veit hvað það er sem hann óttast. Það getur til dæmis verið það að fá setta upp nál í handarbakið og ef svo er getur læknirinn sagt þér að þú getir fengið róandi lyf og staðdeyfingu á húðina eða jafnvel haft hjúkrunarfræðing hjá þér á meðan. "Getir þú sagt okkur hvað þú óttast," segir Dr. Rosenberg, "getum við yfirleitt fundið einhverja leið til að bæta úr því. Byrgir þú hins vegar óttann inni, má búast við að hann vaxi bara."

"Níutíu og fimm prósent af aðgerðunum sem ég framkvæmi eru fleygskurðir og brottskurðarsýnitökur," segir Dr. Rosenberg ennfremur. "Þannig aðgerðír eru framkvæmdar á minna en hálftíma. Bara það að vita að aðgerðin tekur ekki lengri tíma hjálpar mörgum að yfirvinna óttann."

Óhefðbundnar/heildrænar aðferðir til að minnka streitu

Ýmsar óhefðbundnar meðferðir hafa reynst til þess fallnar að draga úr ótta og streitu. Má þar nefna sjónsköpun, dáleiðslu, nudd og jóga sem sýnt hefur verið fram á að draga úr kvíða og streitu hjá sumum konum sem greinst hafa með brjóstakrabbamein. Farðu inn á Óhefðbundnar og heildrænar meðferðir á brjostakrabbamein.is og kynntu þeir leiðir til að sigrast á eða hafa stjórn á ótta.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB