Brjóstnám eða fleygskurður?
Nú á tímum gefst mörgum konum með brjóstakræbbamein tækifæri til að velja á milli þess að láta taka allt brjóstið (brjóstnám) eða aðeins hluta af því (fleygskurður) og fara í geislameðferð á eftir.
Þar sem æxli fannst aðeins á einum stað í brjóstinu, það reyndist minna en fjórir sentímetrar og var fjarlægt með hreinum skurðbrúnum, eru allar líkur á að fleygskurður með eftirfarandi geislameðferð sé fullt eins árangursríkur og brjóstnám.
Það sem ræður úrslitum
Flestar konur sem eiga einhverra kosta völ, kjósa fleygskurð sem ekki er eins mikið inngrip og brjóstnám. Valið kann þó að ráðast af mörgum þáttum. Þar skipta m.a. eftirfarandi atriði máli og kunna að ráða úrslitum:
-
Langar þig til að halda brjóstinu? Skipti það þig miklu máli að halda brjóstinu, kann svo að fara að þú ákveðir að fara í fleygskurð og geislameðferð fremur en í brjóstnám.
-
Langar þig til að bæði brjóstin séu sem líkust að stærð? Hjá flestum konum er útkoman úr fleygskurði góð hvað útlitið varðar. Í sjaldgæfum tilfellum, þar sem nauðsynlegt reynist að fjarlægja mikinn vef, getur brjóstið minnkað og aflagast. Í báðum tilfellum er unnt að byggja upp brjóst; bæði eftir fleygskurð (ef afmyndun er veruleg) og brjóstnám. Þurfi að fjarlægja mikinn vef, og þér finnst mjög mikilvægt að bæði brjóstin séu af sömu stærð, þurfið þið læknir þinn að ræða hvers konar skurðmeðferð hentar best í þínu tilfelli.
-
Hversu miklar áhyggjur muntu hafa af því að krabbameinið taki sig upp aftur? Finnist þér að ótti við að krabbameinið taki sig aftur upp muni minnka við að láta taka allt brjóstið, er rétt að íhuga þann kost vel.
-
Búseta getur skipt máli þegar tekin er ákvörðun.
*Í eftirfarandi texta er gert ráð fyrir að konur velji sjálfar læknateymi sitt, þar á meðal skurðlækni.
Kannanir hafa sýnt að konur sem búa í Bandaríkjunum eru líklegri til að fara í brjóstnám en konur í öðrum löndum. Ástæðan er ekki þekkt en hefur trúlega eitthvað að gera með viðhorf kvennanna og lækna þeirra. Aðrar kannanir hafa sýnt að val á skurðlækni hefur áhrif á hvaða meðferðir eru í boði. Hafi konan ákveðnar skoðanir á öðrum kostinum umfram hinn, er rétt að spyrja skurðlækninn hve marga fleygskurði hann geri og hve mörg brjóstnám hann framkvæmi og hvers vegna. Þörf kann að vera fyrir álit annars læknis til að skilja til fulls og vega kostina sem um er að velja.
Fleygskurður: Kostir og gallar
Meginkosturinn við fleygskurð er sá að unnt er að halda miklu bæði af útliti og tilfinningunni í brjóstinu. Sú aðgerð er ekki eins mikið inngrip og brjóstnám og konur eru fljótari að ná sér eftir fleygskurð en eftir brjóstnám.
Ýmsir ókostir fylgja þó fleygskurði með eftirfarandi geislameðferð:
-
Eftir skurðaðgerðina er viðbúið að fara þurfi í fimm til sjö vikna geislameðferð, fimm daga vikunnar til að tryggja að allt krabbamein sé horfið.
-
Það eru svolítið meiri líkur á að krabbamein taki sig upp á sama stað en ef farið er í brjóstnám. Hinsvegar er með góðum árangri unnt að meðhöndla slíkt með brjóstnámi.
-
Ekki er óhætt að geisla brjóstið á ný ef krabbamein stngur sér niður í brjóstinu eftir fleygskurð. Það á við hvort heldur krabbamein tekur sig upp eða nýtt krabbamein myndast. Komi krabbamein aftur í sama brjóst, mun læknir yfirleitt mæla með að brjóstið verði tekið.
Brjóstnám: Kostir og gallar
Sumum konum verður rórra við það að láta taka brjóstið („Bara burt með þetta allt saman!"). Geislameðferð gæti eftir sem áður reynst nauðsynleg og fer það eftir niðurstöðum úr meinarannsókninni.
Brjóstnámi fylgja þrír aðalókostir:
-
Skurðaðgerðin tekur lengri tíma og nær yfir stærra svæði þannig að eftirköst hennar eru meiri og það tekur lengri tíma að jafna sig á henni en fleygskurði.
-
Aðgerðin þýðir að þú hefur misst brjóstið fyrir fullt og allt.
-
Kjósir þú að láta búa til nýtt brjóst, eins og á við um flestar konur sem hafa farið í brjóstnám, fylgja því fleiri skurðaðgerðir og fegrunaraðgerðir í nokkrum áföngum.
Að taka eigin ákvörðun
Hugsanlega eru brjóstin svo samofin sjálfsmynd þinni — tilfinningu þinni fyrir því hver þú ert — að þú ert tilbúin að ganga æði langt til að varðveita þau. Það er viðhorf sem er fyllilega hægt að fallast á, hvaða aldri sem kona kann að vera á eða hvernig sem hún er í vextinum — SVO FRAMARLEGA SEM það stofnar ekki heilsu hennar í hættu og möguleikum á að ná sér til fulls af kraabbameininu.
ÞB