Brjóstnám: Við hverju má búast?

Tímalengd aðgerðar

Brjóstnámsaðgerð ásamt eitlanámi tekur 1 og 1/2 til 2 klukkustundir. Tíminn sem innritun og undirbúningur fyrir aðgerðina tekur er mismikill. Tími á vöknun er mislangur og einstaklingsbundið hve konur þurfa langan tíma til að vakna og jafna sig nægilega til að fara heim.

Skurðurinn

Oftast er gerður ávalur skurður umhverfis geirvörtuna sem nær yfir þvert brjóstið.

Það sem gerist

Brjóstvefurinn er skilinn frá hörundinu og bringuvöðvanum undir brjóstinu. Allur brjóstvefur — sem liggur frá viðbeini að rifjum, frá síðunni að bringubeini í miðju — er fjarlægður. Farir þú í breytt róttækt brjóstnám eða róttækt brjóstnám er hugsanlega einnig fjarlægður hluti af bringuvöðva. Skurðlæknirinn athugar blæðingu, kemur fyrir kerum, saumar sárið saman og býr um það með sáraumbúðum. 

Áhættuþættir

  • Doði í húðinni meðfram skurðinum og væg eða miðlungsmikil eymsli í aðliggjandi svæði (vegna tauga sem voru skornar í sundur). Þetta er mjög algengt.

  • Ofurnæmi fyrir snertingu á skurðsvæðinu. Þetta stafar einnig af sködduðum taugaendum. Yfirleitt lagast þetta þegar taugar taka að vaxa.

  • Vökvasöfnun undir örinu. Uppsafnaður vökvi gæti verið  margúll, uppsafnað blóð í sárinu eða sermigúll, uppsafnað blóðvatn. Yfirleitt er auðvelt að bæta úr þessu, oftast með því að læknirinn sogar út vökvann með nál.

  • Sárið grær hægt. Þegar brjóstið er allt tekið eru skornar sundur æðar sem flytja blóð til brjóstvefjar. Stundum getur það valdið vandamálum þegar líkaminn leitast við að græða sárið. Streymi ekki nægilegt blóð til skurðbrúnanna kunna litlir húðflekkir að visna og mynda hrúður sem skurðlæknir þarf að fjarlægja. Þetta er sjaldgæft og yfirleitt ekki alvarlegt.  

  • Hætta á sýkingu í sárinu. Yfirleitt uppgötvast sýking snemma og hana má lækna með réttri meðferð. 

Spítaladvöl

Fyrir fimmtán til tuttugu árum síðar hefðir þú mátt búast við að dvelja á sjúkrahúsi í hálfan mánuð eftir brjóstnám. Nú til dags dvelja konur að meðaltali í þrjá sólarhringa eða skemur á sjúkrahúsi. Sé búið til nýtt brjóst í sömu aðgerð og brjóstið er tekið má búast við örlítið lengri dvöl á sjúkrahúsi.

 ÞB