Kerar, saumar og hefti

Í flestum tilfellum — en þó ekki alltaf — er búið um sár eftir brjóstnám með sárabindum og tveimur kerum ("drenum") sem taka við vökva frá skurðsvæðinu. Annar kerinn er yfirleitt fjarlægður á öðrum eða þriðja degi eftir aðgerð en hinn iðulega skilinn eftir þannig að þú ert með hann þegar þú ferð heim. Óhætt er að hafa hann í viku eða tvær ef á þarf að halda. Þegar ekki berst lengur vökvi úr sárinu í kerann er kominn tími til að fjarlægja hann eða ef hætta er á sýkingu.

Ummæli sjúklings

"Ég vildi óska að ég hefði vitað að ég yrði með kera. Mér fannst þeir það versta við aðgerðina. Ég fann meira til undan þeim heldur en í sárinu og ég átti erfitt með að sofa með þá. Það var meiri háttar framför að losna við þá eftir þrjár vikur og fyrst þá sem mér fannst mér fara að batna." —Nancy

Hafirðu farið í fleygskurð er hugsanlega komið fyrir kera í handarkrikanum. Yfirleitt er hann tekinn áður en farið er heim af spítalanum, en einnig er til í dæminu að hann sé hafður þar og ekki tekinn fyrr en í fyrstu vitjun.

Flestir læknar nota sauma sem leysast upp með tímanum þannig að ekki þarf að fjarlægja þá. Fyrir kemur þó að sjá má enda á saum stingast út úr skurði eins og veiðihár. Gerist það, getur skurðlæknirinn auðveldlega fjarlægt hann. Hefti — sem er önnur aðferð við að loka skurðsári — eru fjarlægð í fyrstu vitjun eða heimsókn á stofu. 

Þér er óhætt að fara í sturtu þegar saumar eða hefti hafa verið fjarlægð. Farðu ekki í kerlaug (bað) fyrr en sárið er gróið nema búið sé um það með vatnsþéttum umbúðum. Þvottur með svampi getur hresst þig þar til þér er óhætt að fara í sturtu eða bað að mati læknisins.

ÞB