Hvers vegna eru eitlar mikilvægir?
Eitt aðal eitlasvæði (handarkrikinn/holhöndin) og tvö minni eitlasvæði (eitlar í brjóstinu innanverðu og fyrir ofan viðbeinið) sía sogæðavökva frá brjóstasvæðinu.
Þar sem það er hlutverk eitla að sía frá allt sem skaðvænt getur talist, eins og krabbameinsfrumur, er eðlilegt að leita í þeim að brjóstakrabbameinsfrumum sem kunna að hafa borist úr frumæxlinu og leitast við að dreifa sér í aðra hluta líkamans. Krabbameinsfrumur geta einnig borist með blóðrás úr brjóstinu og komist þannig fram hjá eitlunum. Hvort krabbameinsfrumur er að finna í eitlum (jákvæðir eitlar) eða ekki (neikvæðir eitlar) er hins vegar eitt af lykilatriðunum í því að ákveða hvaða meðferð komi sér best. Því eru eitlar teknir og sendir í rannsókn.
Annað hlutverk eitlanáms er að fjarlægja krabbameinsfrumur sem kunna að finnast í þeim. Það er gert til þess að krabbameinsfrumur geti ekki haldið áfram að sá sér inn í eitlasvæðið og einnig til að koma í veg fyrir að þær dreifi sér eitthvað lengra.
Áður fyrr töldu læknar að það að taka eins marga eitla og unnt var, drægi úr hættu á að krabbamein dreifði sér til annarra hluta líkamans og var það gert í þeirri von að takast mætti að ná öllum krabbameinsfrumum sem hugsanlega væru í eitlum, hreinsa holhöndina og brjóstið af öllu krabbameini og lækna þannig aðra hluta líkamans. Að fjarlægja eitla vinnur hins vegar ekki á krabbameini sem þegar hefur dreift sér annað. Því er nú gripið til meðferðar sem hefur áhrif á allan líkamann, kerfismeðferðar — í því skyni að drepa allar frumur sem kunna að hafa sloppið frá frumæxlinu í brjóstinu eða úr aðliggjandi eitlum.
Þar til nýlega kusu læknar taka eins marga eitla og hægt var til að ganga úr skugga um af mestu mögulegu nákvæmni í hve marga eitla krabbameinið hefði dreift sér. Fjöldi slíkra eitla gefur sterklega til kynna eðli krabbameinsins og hvers konar meðferð er nauðsynleg til að berjast gegn því.
ÞB