Fleygskurður

Aðgerðir sem gera konum mögulegt að halda brjóstinu

Þær tegundir skurðaðgerðar sem miðast við að taka aðeins hluta af brjóstinu kallast fleygskurðir. Mörg mismunandi orð eru viðhöfð um þetta á ensku eftir því hve mikið er tekið af brjóstinu, jafnvel vefjarsýni sem fjarlægir allt mein telst skurðaðgerð. Mjög er misjafnt hve mikið er skilið eftir af brjóstinu eða skorið burt. Þú skalt fá eins miklar upplýsingar og þú getur hjá skurðlækninum um hvað hann hyggst fyrir svo að þú vitir hve mikið af brjóstinu kann að vera farið þegar þú vaknar upp eftir aðgerðina og hvers konar ör aðgerðin mun skilja eftir.

Fleygskurður

Nú á dögum er fleygskurður algengasta tegund skurðaðgerðar sem gripið er til gegn brjóstakrabbameini. Skurðlæknir fjarlægir aðeins þann hluta brjóstsins sem æxlið er í og svolítið af eðlilegum vef umhverfis það. Vefurinn sem fjarlægður er úr brjóstinu er rannsakaður nákvæmlega til að kanna hvort einhverjar brjóstakrabbameinsfrumur eru í skurðbrúnum — heilbrigða vefnum umhverfis æxlið.

Finnist krabbameinsfrumur í skurðbrúnum vefjarins sem var fjarlægður, verður skurðlæknir að grípa til viðbótar aðgerðar til að fjarlægja krabbameinið sem varð eftir.

Flestar konur fara í fimm til sjö vikna geislameðferð að loknum fleygskurði í því skyni að losna við allar krabbameinsfrumur sem kunna að leynast í brjóstvefnum sem eftir er. Þegar meðferð með krabbameinslyfjum er einnig hluti af ferlinu, er farið fyrst í hana og síðan í geislana.

Fleygskurður ásamt geislameðferð er sú leið sem farin er til að konur fái haldið brjóstinu.

lumpectomy_tcm-small

Stækka mynd

Kona á leið í fleygskurð

A Æxli (dökki díllinn)

B Vefur sem fjarlægður er við  fleygskurð (skærbleikur) 


Fleygskurður ásamt geislameðferð

Niðurstöður tveggja rannsókna sem birtust 17. október 2002 í ritinu New England Journal of Medicine  sýndu að konur með smávaxin brjóstakrabbameinsæxli (minni en 4 cm) sem farið höfðu í fleygskurð og geislameðferð, voru jafn líklegar til að vera á lífi og lausar við sjúkdóminn eftir 20 ár og konur sem fóru í brjóstnám. 

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að krabbamein getur tekið sig upp aftur þrátt fyrir fleygskurð og geislameðferð. Í rannsóknunum sem minnst var hér að ofan hafði krabbamein tekið sig upp aftur í sama brjósti hjá 14% kvennanna í annarri rannsókninni en 9% í hinni. Hins vegar er unnt að veita árangursríka meðferð við krabbameini sem tekur sig upp á sama stað eftir fleygskurð, og umræddar konar voru enn lausar við sjúkdóminn 20 árum eftir upprunalegan fleygskurð og meðferð við meini sem tók sig upp aftur.  

Er fleygskurður „góð" krabbameinsmeðferð?

Almenna reglan við meðferð krabbameins er sú að yfirleitt er „allt" brjóstið meðhöndlað við brjóstakrabbameini. Þetta má gera með því að:

  • fjarlægja allt brjóstið (brjóstnám)

  • taka sneið úr brjóstinu (fleygskurður) og veita jafnframt geislameðferð á það sem eftir er af brjóstinu.

Á liðnum árum hefur það verið rannsakað mjög ítarlega hvort „fleygskurður" geti talist „góður" kostur við meðferð gegn brjóstakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að fleygskurður ásamt geislameðferð sé í raun jafn áhrifarík meðferð og brjóstnám fyrir konur með  

  • æxli á einum stað í brjóstinu,

  • æxli sem er minna en fjórir sentímetrar að stærð og hefur verið fjarlægt með hreinum skurðbrúnum (engar krabbameinsfrumur í vef umhverfis æxlið). 

Nýlegar rannsóknir styðja þessa niðurstöðu. Ný rannsókn staðfestir ennfremur að þetta eigi einnig við um ungar konur í barneign (yngri en fimmtugar). Önnur rannsókn staðfestir að konum með mjög lítil æxli (sentímetra eða minna) gagnist að fara í fleygskurð og geislameðferð á eftir. 

Í sumum fylkjum Bandaríkjanna eru læknar gamaldags og ólíklegir til að bjóða konum að fara í fleygskurð og geislameðferð. Á það einkum við um eldri sjúklinga. Þannig læknar leggja kapp á að allt brjóstið sé tekið, jafnvel af þeim sem ættu tvímælalaust að geta valið. Nýleg rannsókn sýndi að konur 75 ára og eldri sem fara í geislameðferð eftir fleygskurð lifa lengur og án sjúkdómsins en konur sem ekki fara í geislameðferð. Sú rannsókn leggur áherslu á nauðsyn þess og mikilvægi að bjóða ÖLLUM konum sem fá brjóstakrabbamein sömu meðferð, án tillits til aldurs. Láttu ekki íhaldssemi eða tvískinnung koma í veg fyrir að þú fáir bestu mögulega meðferð. Finndu skurðlækni sem fylgist með tímanum og er ekki fastur í aðferðum sem tíðkuðust fyrir tuttugu eða þrjátíu árum síðan. 

Er fleygskurður og geislameðferð hið rétta fyrir þig?

Þótt fleygskurður með eftirfarandi geislameðferð sé fyrirtaks kostur fyrir margar konur sem greinast með brjóstakrabbamein, hentar þessi meðferð ekki öllum konum. Ýmislegt getur valdið því að þessi leið kemur ekki til greina. Það á við ef: 

 
  • Þú hefur áður farið í geislameðferð  á sama brjósti vegna krabbameins.

  • Krabbameinið er útbreitt í brjóstinu eða finnst á tveimur eða fleiri aðskildum svæðum í sama brjósti. 

  • Þú ert með lítið brjóst og stórt æxli þannig að brjóstið mundi aflagast mjög við að æxlið er fjarlægt. 

  • Fleiri en ein tilraun til að fjarlægja æxlið hafa ekki skilað þeim árangri að það náist með hreinum skurðbrúnum.

  • Þú ert með bandvefssjúkdóm, svo sem lúpus (helluroða) eða æðabólgu sem gerir þig viðkvæma fyrir aukaverkunum af geislun. 

  • Þú ert barnshafandi og ættir ekki að fara í geislameðferð af þeirri ástæðu. 

  • Þú ert ekki tilbúin að mæta daglega í geislameðferð eða getur það ekki sökum búsetu.

  • Þú telur að þér verði rórra með því að láta taka allt brjóstið. 

 ÞB