Fyrirbyggjandi skurðaðgerðir

Því meiri sem líkur á brjóstakrabbameini eru, þeim mun meiri líkur eru á að fyrirbyggjandi skurðaðgerð geti gert gagn. Séu líkur konu á að fá brjóstakrabbamein um það bil 80%, er hægt að minnka þær niður í 8% með brjóstnámi. Teljist líkur hennar á krabbameini í eggjastokkum vera um 40%, er einnig hægt að minnka þær niður í 8% með því að fjarlægja eggjastokkana. Kona sem enn er í barneign og lætur nema brott eggjastokka (án þess að brjóstin séu tekin) getur minnkað hættu á brjóstakrabbameini um helming (úr 80% í 40%).

Þegar þú hefur gengið með börnin sem þig langar til að ala, gætirðu valið þá leið að láta fjarlægja eggjastokka og eggjaleiðara og láta síðan lækni fylgjast vel með þér. Þú getur dregið það að láta fjarlægja brjóstin eða ákveðið að gera það alls ekki.

Þessar skurðaðgerðir —að fjarlægja brjóst og eggjastokka – eru kallaðar „fyrirbyggjandi”. Látir þú verða af þessu mun það draga verulega úr líkum á krabbameini í framtíðinni (þótt engin trygging sé fyrir því að þú fáir aldrei krabbamein). Þessar aðgerðir eru óafturkræfar.

Fyrirbyggjandi brjóstnám og brottnám eggjastokka

Nærri lætur að fyrirbyggjandi brjóstnám geti dregið úr líkum kvenna á brjóstakrabbameini um 90% (grein á ensku). Aðgerðin felur í sér að nánast allur brjóstvefur er fjarlægður þannig að mjög fáar frumur eru skildar eftir sem gætu þróast í að verða krabbameinsfrumur. Með fyrirbyggjandi brottnámi eggjastokka eru eggjaleiðarar einnig fjarlægðir til að tryggja að allur vefur sem líkist eggjastokkavef hafi verið fjarlægður. (Grein á ensku). Þessi aðgerð getur dregið úr hættu á krabbameini í eggjastokkum um 80%.

Kannski veltir þú fyrir þér hvernig það geti haft áhrif á líkur á brjóstakrabbameini að láta fjarlægja eggjastokkana. Aðalástæðan er sú að við aðgerðina dregur úr estrógenframleiðslu líkamans sem gæti valdið brjóstakrabbameini með hormónaviðtökum (hormónaviðtaka-jákvæðu brjóstakrabbameini).

Þar sem brottnám brjósta verndar gegn brjóstakrabbameini og brottnám eggjastokka verndar bæði gegn brjóstakrabbameini og krabbameini í eggjastokkum er nærtækt að spyrja: Veitir það konu í barneign meiri vernd að gera hvort tvegga, láta taka af sér brjóstin og fjarlægja eggjastokkana í stað þess að fara aðeins í aðra hvora aðgerðina? Sé markmiðið að minnka einungis hættu á brjóstakrabbameini má segja að það sé mikil aðgangsharka að fara í báðar aðgerðirnar. Þegar brjóstin hafa á annað borð verið fjarlægð og líkur á brjóstakrabbameini eru farnar úr 80% í 8%, þarftu að svara því hvort vert sé fyrir þig að láta einnig fjarlægja eggjastokka til þess að koma þessum 8% eitthvað neðar. Svarið ræðst alfarið af aðstæðum þínum. Sumar konur kynnu að svara því játandi: „JÁ! Ég er tilbúin að gera hvað sem er til að draga úr hættu á krabbameini.” Aðrar kynnu að segja sem svo: „Ég læt ekki fjarlægja eggjastokkana nema líkur á að ég fái í þá krabbamein hafi aukist. Ég læt heldur ekki fjarlægja þá fyrr en ég fer að nálgast tíðahvörf þegar það hefur minni áhrif á lífsgæði mín. Þangað til gæti ég þess bara að láta fylgjast vel með mér.”

Sértu með afbrigðlilegan BRCA1 eða BRCA2 arfbera krabbameins og tilbúin að ganga mjög langt í að vernda sjálfa þig, skaltu tala við lækni um hvaða máli það gæti skipt fyrir þig að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir í því skyni að minnka líkur á að þú fáir brjóstakrabbamein eða krabbamein í eggjastokka.

Afar mikilvægt er að hafa hugfast að þessar aðgerðir eru engin endanleg trygging – árangurinn er aðeins um 90% minnkun á líkum. Þú gætir fengið brjóstakrabbamein þrátt fyrir þessar aðgerðir vegna þess að ekki er hægt að fjarlægja allar frumur sem geta mögulega verið krabbameinsfrumur. (Umhverfis brjóstið er vefur – húð að framan, vöðvar að aftan og útilokað að fjarlægja hverja einustu brjóstafrumu úr hörundi og vöðvum.) Í stað þess að fara í fyrirbyggjandi brjóstnám gætirðu viljað hugleiða að minnka líkur á brjóstakrabbameini með því að fara í móthormónameðferð eða með því að láta fjarlægja eggjastokkana þótt þú sért enn í barneign. Hvaða leið sem þú kannt að fara í því skyni að draga úr líkum, skiptir afar miklu máli að þú látir fylgjast mjög náið með þér og farir reglulega í skoðun.

Að setja saman fyrirbyggjandi aðgerðir

Sumt af því sem hægt er að gera til að minnka líkur má gera ásamt öðru, sumt má gera seinna. Þú gætir til dæmis valið þann kost að láta fjarlægja eggjastokka og eggjaleiðara núna og láta síðan fylgjast vel með þér. Þú gætir frestað því að láta taka brjóstin eða ákveðið að gera það ekki og þess í stað valið að láta fylgjast náið með þér. Síðar meir gætir þú gripið til þess að taka inn móthormónalyfið tamoxifen til að draga úr líkunum. Í þeim löndum þar sem verið er að þróa ný lyf til að fyrirbyggja sjúkdóminn eiga konur þess einnig kost að taka þátt í klínískum tilraunum.

Vega þarf og meta þessar aðgerðir: Á annarri vogarskálinni eru aukaverkanir sem fylgja aðgerðunum, á hinni er það gagn sem þær gera með því að auka verndina. Ekki er aðeins um að ræða þá hættu sem ávallt fylgir skurðaðgerðum, heldur getur það einnig skert sjálfsmynd þína að láta fjarlægja brjóstin, næmni og kynörvun minnkar og það gæti dregið úr lífgæðum þínum. Að láta fjarlægja eggjastokka getur einnig haft áhrif á sjálfsmynd og kynlíf og mun hafa í för með sér tíðahvörf, þ.e. þú hættir að hafa á klæðum og ferð úr barneign. Tíðahvörf geta svo aftur á móti haft áhrif á beinheilsu.

Áður en svona ákvarðanir eru teknar þarf að hugsa þær í þaula, sýna þolinmæði, ræða málin við lækna, erfðaráðgjafa, fjölskylduna – en fyrst og fremst þarf ómælt hugrekki. Gefðu þér allan þann tíma sem þú þarft til að hugleiða þá kosti sem eru fyrir hendi og taktu ákvörðun sem þú ert sjálf sátt við þegar þú ert tilbúin. Það liggur ekkert á.

ÞB