Gagnsemi fyrirbyggjandi skurðaðgerða
Því yngri sem þú ferð í fyrirbyggjandi skurðaðgerð, þeim mun meira gagn getur hún gert. Brjóstakrabbamein sem tengist óeðlilegum eða stökkbreyttum krabbameinsarfberum stingur yfirleitt fyrr upp kollinum en það krabbamein sem algengara er og tengist hækkandi aldri. Krabbamein í eggjastokkum finnst jafnt hjá ungum konum og þeim sem eldri eru og líkur eru mjög svipaðar hjá báðum hópunum. Því fyrr sem þú lætur fjarlægja brjóst, eggjastokka eða hvort tveggja, þeim mun líklegra er að þú komist hjá því að fá þá tegund krabbameins sem algengast er að greinist hjá ungum konum.
Þú þarft auðvitað að vega og meta hugsanlega kosti þess að fara í fyrirbyggjandi skurðaðgerð með tilliti til hliðarverkana. Til dæmis getur afstaða þín til barneigna skipt miklu máli, hvort þú hefur þegar eignast börn eða langar til að eignast börn síðar meir. Talaðu við lækni þinn og erfðaráðgjafa um hættur og gagnsemi þess að bíða með að fara í fyrirbyggjandi skurðaðgerð/ir þar til þú hefur alið barn eða börn.
Hafðu einnig í huga að engin aðgerð – ekki einu sinni skurðaðgerð – getur fullkomlega komið í veg fyrir hættu á krabbameini. Jafnvel þótt fjarlægð hafi verið bæði brjóst og eggjastokkar, getur myndast krabbamein á svæðinu. Brýnt er að allar konur láti fylgjast vel með sér, ekkert síður þær sem farið hafa í fyrirbyggjandi skurðaðgerðir en aðrar.
Getur fyrirbyggjandi skurðaðgerð gagnast miðaldra konum og eldri sem mikil hætta er á að fái brjóstakrabbamein?
Hjá þeim sem mikil hætta er á að fái brjóstakrabbamein minnkar hugsanleg gagnsemi af fyrirbyggjandi skurðaðgerð eftir því sem aldurinn færist yfir. Fyrir þessu eru margar ástæður:
-
Líkur aukast á annars konar sjúkdómum sem geta haft áhrif á lífslengd svo sem sykursýki, hjartasjúkdómum og sjúkdómum af völdum reykinga.
-
Líkur á að fá brjóstakrabbamein í tengslum við afbrigðilega arfbera hafa tilhneigingu til að minnka með aldrinum.
-
Annað atriði, óskylt heilsufari, er sú staðreynd að eftir því sem árunum fjölgar minnka lífslíkurnar. Því minnkar þörfin fyrir að verjast krabbameini með langtímaaðgerðum.
Að þessu sögðu verður þó að benda á að þetta eru aðeins almenn atriði og sumt, jafnvel allt, á hugsanlega alls ekki við. Nefna má sem dæmi konu sem er 65 ára að aldri og á náinn ættingja sem nýlega hefur uppgötvast að er með BRCA1 ættgengan arfbera brjóstakrabbameins. Segjum að þessi kona sért þú og í ljós komi við rannsókn að þú ert með þennan sama arfbera og læknir þinn mæli með því að eggjastokkar sé fjarlægðir til að minnka líkur á að þú fáir krabbamein í eggjastokkana. Þótt þú sért tekin að reskjast eru líkur á krabbameini í eggjastokkum töluverðar og erfitt að greina það snemma. Læknir þinn kann einnig að mæla með að þú farir í móthormónameðferð til að draga úr líkum á brjóstakrabbameini í stað þess að fara í brjóstnám. Að sjálfsögðu skiptir einnig máli að náið sé fylgst með þér á hvaða aldri sem þú kannt að vera.
Getur fyrirbyggjandi skurðaðgerð gagnast konu sem þegar hefur farið í meðferð við brjóstakrabbameini?
Hafir þú einhvern tíma greinst með brjóstakrabbamein, er eðlilegt að þú veltir fyrir þér hvort þú getir haft eitthvert gagn af fyrirbyggjandi skurðaðgerð. Gildi slíkrar aðgerðar er að miklu leyti háð því á hvaða aldri þú ert, almennu heilsufari þínu og hvort þú gengur með einhverja aðra sjúkdóma, svo og hvers eðlis og á hvaða stigi brjóstakrabbameinið var sem þú greindist með.
Sé kona ekki með afbrigðilegan arfbera brjóstakrabbameins en hefur farið í meðferð við brjóstkrabbameini á fyrstu stigum, eru líkur á að krabbameinið taki sig upp litlar og lífslíkur hennar miklar. Hafi konan hins vegar greinst með brjóstakrabbamein og er einnig með arfgengt krabbameinsgen eða mörg dæmi um brjóstakrabbamein í nánustu fjölskyldu þótt ekki hafi fundist þekktur krabbameinsarfberi, eru meiri líkur á að hún fái nýtt, óskylt krabbamein einhvern tíma á þeim árum sem framundan eru. Líkurnar eru um 2-5% á ári eftir því hvers konar afbrigði arfbera er um að ræða í ættinni, að viðbættum öðrum þáttum sem kunna að hafa áhrif á hvernig afbrigðið hegðar sér. Á tíu ára tímabili verður þetta að líkum á bilinu 20% til 50%. Í dæmi sem þessu gæti fyrirbyggjandi skurðaðgerð skipt máli.
Þótt dæmi um brjóstakrabbamein kunni að vera fá í fjölskyldu þinni og ekki vitað um afbrigðilegan arfbera, eru líkur á að þú fáir óskylt krabbamein síðar á ævinni meiri en ella hafir þú á annað borð einhvern tíma greinst með brjóstakrabbamein. Líkurnar eru samt minni en hjá konu með afbrigðilegan arfbera brjóstakrabbameins. Líkur þínar eru um það bil 1% á ári. Á tíu árum gerir það 10%. Vegna þess að líkurnar eru minni er gagn að fyrirbyggjandi skurðaðgerðar einnig minna.
Hafir þú farið í meðferð við meðalstóru eða langt gengnu brjóstakrabbameini eru aftur á móti líkur á að krabbameinið taki sig upp aftur í sama brjósti meiri en líkur á að nýtt og óskylt brjóstakrabbamein myndist. Við þær aðstæður kann fyrirbyggjandi skurðaðgerð að vera gagnslítil eða gagnslaus. Til þess að geta tekið rétta ákvörðun þarftu að þekkja till allra þátta í þínu sérstaka tilfelli.
Sértu til dæmis orðin sjötug og hefur greinst með brjóstakrabbamein á þriðja stigi (stórt æxli og margir eitlar sýktir eða íferð í húð), er meginmarkmiðið að lækna þig af því krabbameini. Hættan af raunverulegu þriðja stigs krabbameini er miklu meiri en fræðileg hætta á að þú fáir nýtt, óskylt krabbamein. Þegar þú hefur lokið meðferð við krabbameininu gæti læknir þinn hugsanlega haft eitthvað að segja um hvernig draga má úr líkum á að krabbameinið taki sig upp eða þú fáir ef til vill nýtt krabbamein seinna meir.
Hafir þú áhuga á að kynna þér betur hlutverk fyrirbyggjandi skurðaðgerða eftir meðferð við brjóstakrabbameini, skaltu ræða við lækni þinn og erfðaráðgjafa um kosti þess og ókosti fyrir þig og þá með hliðsjón af sérstöðu þinni og aðstæðum.
Gagnsemi þess að láta fjarlægja eggjastokka í fyrirbyggjandi skyni
Erfiðara er að greina krabbamein á fyrstu stigum í eggjastokkum en brjóstakrabbamein á fyrstu stigum. Auk þess eru færri ráð sem hægt er grípa til í því skyni að draga úr hættu á krabbameini í eggjastokkum. Séu miklar líkur á að þú fáir krabbamein í eggjastokka, gætir þú því valið þann kost að láta fjarlægja þá í fyrirbyggjandi skyni.
Á krabbameinsmiðstöðinni Memorial Sloan-Kettering Cancer Center er mælt með því við konur með þekkta BRCA1 og BRCA2 arfbera brjóstakrabbameins (í mikilli hættu á að fá sjúkdóminn) að þær fari í eggjastokkanám um leið og þær komast úr barneign eða þegar þær ná 45 ára aldri, hvort heldur kemur á undan. Á þessari sömu krabbameinsmiðstöð er hins vegar sjaldgæft að mælt sé með fyrirbyggjandi brjóstnámi vegna þess að til eru áhrifarík lyf sem geta dregið úr hættu á brjóstakrabbameini, auk þess sem einnig er beðið með óþreyju nýrra væntanlegra lyfja. Einnig er mælt með örari krabbameinsleit: Tvisvar á ári með mismunandi aðferðum, til dæmis með því að fara í brjóstamyndatöku í janúar og segulómskoðun í júlí.
Þú átt ýmissa kosta völ
Fylgjast þarf oft og vel með konum sem eru með arfgengan krabbameinsarfbera. Að því sögðu er óhætt að fullyrða að engin ein leið er til sem hentar öllum konum með afbrigðilega BRCA1 og BRCA2 arfbera. Það fer algjörlega eftir aðstæðum hvaða kostir þér kunna að finnast fýsilegir í stöðunni, hvert þessara úrræða, eitt eða fleiri, samtímis eða á mismunandi tíma, verður fyrir valinu:
-
Tíð og nákvæm krabbameinsleit,
-
lyf, með eða án skurðaðgerðar,
-
fyrirbyggjandi brottnám brjósta eða
-
fyrirbyggjandi brottnám eggjastokka (og eggjaleiðara).
Þegar þú gerir upp á milli þessara kosta þarftu að hafa í huga allar þær upplýsingar sem eiga við um þig og ráðgast við erfðaráðgjafa, lækna, sálfræðinga eða aðra úr heilbrigðisgeiranum eftir því sem þörf er á, að ógleymdum ástvinum þínum.