Varðeitlagreining

Ein umtalaðasta nýja skurðtæknin við meðhöndlun brjóstakrabbameins er greining varðeitla. Þetta er aðferð sem þjónar sama tilgangi og venjulegt brottnám holhandareitla og margar konur telja að geti hlíft þeim við umfangsmiklu inngripi og aukaverkunum. Hins vegar gefst ekki öllum konum kostur á að nýta sér hana. Nýlegar rannsóknir (grein á ensku) sýna að eftir varðeitlagreiningu þarf hugsanlega að grípa til frekari skurðaðgerðar. Varðeitlagreiningu fylgja vissar takmarkanir og gallar og hana geta aðeins framkvæmt þeir skurðlæknar sem hafa töluverða reynslu af því að beita henni.

Varðeitill er, líkt og varðmaður (eða varðengill), sá eitill sem gætir brjóstsins og „stendur vörð" um það. Við varðeitlagreiningu leitar skurðlæknirinn að þeim eitli sem fyrstur tekur við og síar sogæðavökva úr brjóstasvæðinu þar sem æxlið fannst. Hafi krabbameinsfrumur brotið sér leið úr æxlinu og dreift sér út fyrir brjóstið um sogæðakerfið er varðeitillinn líklegastur allra eitla til að innihalda krabbameinsfrumur.

Hugmyndin að baki varðeitlagreiningar er sú að í stað þess að fjarlægja tíu eða fleiri eitla og greina þá alla í leit að krabbameini sé nóg að fjarlægja þann sem líklegastur er til að innihalda krabbameinsfrumur og greina hann. Sé þessi eitill hreinn, eru mestar líkur á að aðrir eitlar séu það einnig. Í rauninni fjarlægir skurðlæknirinn yfirleitt klasa með tveimur eða þremur eitlum — varðeitilinn og þá eitla sem næstir honum eru. 

Vel ígrundað brottnám eins eða fáeinna lykileitla í holhöndinni getur gefið nákvæma hugmynd um almennt ástand eitla hjá konum með tiltölulega lítil brjóstakrabbameinsæxli (minni en tveir sentímetrar) og með eitla sem þreifast eðlilegir fyrir skurðaðgerð. Rannsóknir hafa sýnt að eftir fimm ár eru konur sem aðeins fóru í varðeitlagreiningu fullt eins líklegar til að vera lifandi og lausar við krabbamein og konur sem fóru í víðtækara eitlanám. Með því að fylgjast áfram með konunum verður unnt að skilja betur hverjir eru kostir og hverjir gallar varðeitlagreiningar.  

ÞB