Kostir og gallar

Ókostir varðeitlagreiningar

„Helsti ókosturinn við varðeitlagreiningu er að grípa þarf til viðbótarmeðferðar (skurðaðgerðar, geislameðferðar eða hvors tveggja), finnist krabbameinsfrumur í varðeitli. Margir læknar kjósa fremur hefðbundið eitlanám til að ekki komi upp aðstæður þar sem nauðsynlegt reynist að grípa til fleiri aðgerða til að takast á við eitla sem kunna að hýsa krabbameinsfrumur og eru óhreyfðir á sínum stað. Þetta atriði gerir það brýnt að vanda sig og velja örugglega þá aðferð sem hentar best hverri einstakri konu. Séu talsverðar líkur á að krabbameinsfrumur finnist í eitlum — miðað við fyrstu upplýsingar um á hvaða stigi krabbameinið er og athugun skurðlæknis meðan á aðgerð stendur — kann besti kosturinn að vera sá að fara í hefðbundið eitlanám."

—Marisa Weiss, M.D.

Kostir varðeitlagreiningar 

Með varðeitlagreiningu getur skurðlæknir látið duga að fjarlæga einn eitil eða eitlaklasa með tveimur til þremur eitlum til að fá vitneskju um hvort brjóstakrabbamein hefur dreifst í eitla. Með því móti er unnt að láta aðra starfhæfa eitla óáreitta. Aðferðin gerir mögulegt að fá upplýsingar sem skipta öllu máli fyrir áframhaldandi meðferð með sem minnstu inngripi og álagi á konuna.


Margar gildar ástæður eru fyrir því að konur kjósa að láta taka sem allra fæsta eitla úr holhönd. Eitlanám getur valdið óþægilegum, tímabundnum aukaverkunum, svo sem bjúg í handarkrika. Aðrar aukaverkanir geta orðið viðvarandi, þar á meðal væg óþægindi og doði í handarkrika og upphandlegg, svo og bjúgur í handlegg sömu megin og brjóstið var skorið, svo kölluð sogæðabólga. Sogæðabólga getur náð til brjóstsvæðisins engu síður en handarkrikans. Síðast en ekki síst má gera ráð fyrir, að eftir því sem inngrip á brjósti eða í holhönd er meira, þeim mun meiri líkur séu á doða, ofurnæmi eða öðrum óþægindum.


Varðeitlagreining er mikilvægt skref í rétta átt fyrir þær konur sem hún hentar. Þetta er skynsamleg leið til að greina þann eitil eða þá eitla sem mest hætta er á að hýsi krabbameinsfrumur. Aðferðin er viðeigandi og gefst mörgum konum vel sem eru með sjúkdóminn á fyrstu stigum og tiltölulega litlar líkur á að hafi dreifst til eitla.


Með því að taka aðeins einn eitil eða örfáa rétt staðsetta eitla úr holhönd er unnt að meta nákvæmlega ástand eitla hjá konum með tiltölulega smávaxin krabbameinsæxli (tveggja sentímetra eða minni) og eitla sem virðast við þreifingu fyrir skurðaðgerð vera eðlilegir. Rannsóknir, þar sem konum hefur verið fylgt eftir í tæplega fimm ár, sýna að þeim sem fóru í varðeitlagreiningu vegnaði jafn vel og þeim sem voru teknir úr fleiri eitlar (þær lifa jafn lengi og án sjúkdómsins). Með því að fylgjast áfram með konunum mun fást meiri skilningur á kostum og göllum varðeitlagreiningar þegar til lengri tíma litið. 

ÞB