Minnisatriði og spurningar

Fleira sem þú vilt fá að vita

  • Þetta er tiltölulega ný tegund skurðaðgerðar og skyldi eingöngu framkvæmd af reyndu teymi. Leiðandi skurðlæknir mælir með að leitað sé til læknis sem hefur framkvæmt að minnsta kosti tuttugu varðeitlagreiningar.

  • Jafnvel þótt teymið hafi mikla reynslu gerist það þó í um 5% tilfella að enginn sérstakur varðeitill tekur til sín litarefni eða sporefni í aðgerðinni. Tæknin er því ekki óskeikul.

  • Aðferðin verður um 10–15% áreiðanlegri ef bæði er notað litarefni og geislavirkt sporefni í stað þess að nota aðeins annað hvort.

  • Þegar skurðlæknir setur lit eða sporefni í sjálft æxlið (ekki aðeins undir húðina) sogast það betur inn í viðkomandi holhandareitil. Skurðlæknirinn gæti einnig gripið til þess að nudda brjóstsvæðið eftir að lit eða sporefni hefur verið sprautað í það. Nuddið eykur líkur á að vefir taki í sig litarefnin og skoli þeim almennilega út með sogæðakerfinu.

  • Að fara í varðeitlagreiningu tryggir EKKI að þú finnir ekki fyrir einhverjum aukaverkunum af aðgerðinni, svo sem sársauka, doða eða sogæðabólgu.

  • Blái liturinn sem notaður er við þessa aðgerð er áfram í líkamanum í töluverðan tíma — jafnvel frá nokkrum mánuðum upp í heilt ár. Þú sérð að hann líkist bletti undir húðinni. Sumar konur verða varar við að þvagið verður blátt fyrst eftir skurðaðgerð. Það þýðir EKKI að eitthvað hafi farið úrskeiðis.

Í Bandaríkjunum er í gangi rannsókn, The National Surgical Adjuvant Breast Project, sem kostuð er af Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna. Markmið hennar er að finna bestu aðferðina við að meta ástand eitla í krabbameinssjúklingum.

Spurningar sem þú getur lagt fyrir skurðlækninn

1. Hentar mér að fara í varðeitlagreiningu?

  • Ef svarið er já, hvers vegna?

  • Ef svarið er nei, hvers vegna?

2. Hvað hefur þú framkvæmt margar varðeitlagreiningar?

3. Ætlarðu að nota bæði lit OG geislavirkt sporefni? Verður þessum efnum sprautað undir húðina eða í æxlissvæðið?

4. Hvað muntu fjarlægja marga eitla — aðeins varðeitilinn eða klasann sem verður blár og tekur við mestu sporefni?

5. Hvers konar meðferðir á ég um að velja ef það finnast krabbameinsfrumur í eitlinum?

ÞB