Eitlanám: Við hverju má búast
Tímalengd aðgerðar
Aðgerðin tekur um það bil klukkustund. Innritun og undirbúningur fyrir aðgerð tekur mislangan tíma. Tími á vöknun er mislangur og einstaklingsbundið hve konur þurfa langan tíma til að vakna og jafna sig nægilega til að fara heim.
Skurðurinn
Flestir skurðlæknar gera fimm til sjö sentímetra skurð í húðsekkinn í handarkrikanum.
Það sem gerist
Notuð er venjuleg svæfing. Algengast er að taka holhandareitla á tveimur fyrstu hæðunum af þremur. Fyrir kemur að skurðlæknir taki einn til tvo eitla af efstu hæð til öryggis. Farir þú í breytt róttækt brjóstnám eru eitlarnir yfirleitt teknir um leið og brjóstið. Farir þú í fleygskurð, eru eitlarnir hugsanlega teknir á sama tíma og fleygskurðurinn er gerður eða þeir eru teknir síðar í sérstakri aðgerð. Þegar skurðlæknir hefur fjarlægt eitla eru þeir sendir meinafræðingi til rannsóknar og leitar hann að ummerkjum um krabbamein. Nokkrir dagar geta liðið áður en meinafræðiskýrsla liggur fyrir.
Áhættuþættir
-
Tilfinning tapast eða minnkar í innanverðum upphandlegg eða í holhönd. Stundum er skorið á taug sem veitir tilfinningu í upphandlegginn innanverðan og í holhöndina, teygt er á henni eða hún skaddast við aðgerðina. Tilfinningaleysið getur verið tímabundið en hjá sumum konum verður það varanlegt.
-
Fiðringur, doði, stirðleiki, aflleysi eða sogæðabólga (bjúrgur í handlegg). Mikilvægt er að láta handlegginn ekki missa mátt eða stirðna vegna óþæginda eða hreyfingarleysis eftir aðgerðina. Með sjúkraþjálfun og æfingum má vinna upp hreyfigetu og styrk í handleggnum.
-
Bólga í æðum upphandleggs þar sem þær liggja í gegnum holhöndina. Svona bólga getur komið nokkrum dögum eftir aðgerðina og yfirleitt hægt að vinna bug á henni með kuldabökstrum og aspiríni á nokkrum dögum. Fyrir kemur að blóðtappi myndast í æð.
-
Útstandandi herðablað. Þetta er afar sjaldgæfur fylgikvilli sem verður þegar hreyfitaugarnar sem halda herðablaðinu niðri skemmast. Þá stendur herðablaðið út þegar handleggnum er haldið útréttum. Það skal ítrekað að þetta gerist afar sjaldan og truflar yfirleitt ekki daglegar athafnir.
-
Hætta á sýkingu á skurðsvæðinu. Yfirleitt uppgötvast sýking snemma og auðvelt að vinna bug á henni með lyfjum.
-
ÞB