Skurðmeðferð - Við hverju má búast?
Sjúkrasaga þín
Heilsufarssaga þín skiptir miklu máli þegar kemur að því að tryggja öryggi þitt í skurðaðgerð. Nú er ekki rétti tíminn til að liggja á upplýsingum, jafnvel þótt þér finnist þær skipta litlu máli eða skammist þín fyrir þær. Segðu lækni þínum og starfsfólki spítalsans frá ÖLLU. Það skiptir ekki máli í hvers konar aðgerð þú ferð, þú verður að láta lækni þinn vita af 1) öllum slæmum viðbrögðum við lyfjum (þar á meðal ofnæmi) eða aðgerðum og 2) öllum lyfjum sem þú tekur nú eða hefur nýhætt að taka (lyfseðilskyld lyfjum, lyfjum án lyfseðils og náttúrulyf (úr heilsubúðum)) áður en þú ferð í skurðaðgerð. Læknirinn mun jafnvel biðja þig að hætta að taka aspirín og steralaus bólgueyðandi lyf (eins og ibufen) fáeinum vikum fyrir skurðaðgerð.
Öll lyf sem þú tekur, hvaða nafni sem þau nefnast, geta haft alvarleg áhrif á hæfileika líkamans til að takast á við áfallið sem hann verður fyrir við að vera skorinn og getu hans til að gróa. Því er mikilvægt að allar upplýsingar hafi komið fram fyrir aðgerðina.
Tímasetning og tíðahringur
Ekki hefur verið úr því skorið hvort einhverju máli skiptir hvar kona er stödd í tíðahringnum þegar skurðaðgerð fer fram. Þú gætir viljað ræða þetta atriði við lækni þinn.
Matur og drykkur
Þér verður sagt að vera neyta ekki fastarar fæðu eftir miðnætti kvöldið fyrir uppskurð og svæfingu. Varðandi fljótandi fæðu færðu frekari upplýsingar hjá hjúkrunarfræðingi eða svæfingarlækni sem undibýr þig fyrir aðgerðina. Þetta er gert til að minnka hættu á að þú kastir upp mat eða magasýrum sem geta farið í lungun meðan á uppskurði stendur og þú ert sofandi. Þetta gerist sjaldan en getur engu að síður verið mjög alvarlegt, gerist það meðan sjúklingur er sofandi. Því er mikilvægt að fara eftir þeim leiðbeiningum sem þér eru gefnar.
Gott er að hafa hjá sér vin eða vinkonu
Eigir þú að fara heim samdægurs er ætlast til að einhver sé með þér sem getur fylgt þér heim. Jafnvel þótt þú sért sterk og sjálfstæð, skaltu finna einhvern sem getur verið hjá þér. Það er gott að hafa einhvern sér við hlið hvort sem aðgerð er stór eða lítil. Bara það að láta innrita sig á sjúkrahús getur reynt á þolrifin. Að fara heim sama dag tekur líka sinn toll. Mikið af lyfjunum sem notuð voru meðan þú lást á skurðarborðinu eru enn í líkamanum og gera þér erfitt að athafna þig eðlilega.
Dveljir þú á sjúkrahúsinu yfir nótt og vilt fá að hafa vin eða ættingja hjá þér á stofunni eftir aðgerðina, þarftu að tala um það við lækninn eða hjúkrunarfólkið.
Svæfing
Að öllum líkindum hittir þú svæfingarlækninn einhvern tíma fyrir skurðaðgerðin til að fara yfir heilsufarssögu þína, ofnæmi sem þú kannt að vera með, og hvernig verður staðið að svæfingu meðan á uppskurði stendur. Þó að aðgerðir vegna brjóstakrabbameins fari fram utan við helstu líffærakerfi líkamans má í langflestum tilfellum reikna með hefðbundinni svæfingu.
Eigirðu að fara í venjulega svæfingu gengur það yfirleitt svona fyrir sig:
-
Hjúkrunarfræðingur setur upp nál sem er tengd við langa slöngu — oftast í handlegginn — og festir hana með plástri. Þetta er leiðslan sem skurðteymið mun nota til að gefa þér vökva og lyf svo að ekki þurfi að stinga í þig í hvert skipti sem gefa þarf lyf.
-
Hjúkrunarfræðingur eða svæfingarlæknir mun gefa þér lyf um nálina til að svæfa þig. Flestum finnst það þægileg tilfinning. Um það leyti sem þú ert komin á skurðstofuna muntu vera róleg og afslöppuð (ef ekki hreinlega sofnuð) — jafnvel þótt það sé lyfjum að þakka!
-
Þegar þú ert sofnuð setur svæfingalæknirinn grímu yfir vit þín (nef og munn) og gefur þér svæfingarloft eins og glaðloft / hláturgas eða lyfið ethrane (enflurane). Glaðloftið heldur þér sofandi á meðan þú ert skorin og þú finnur ekkert til. Svæfingalæknirinn sem fylgist með þér allan tímann sem aðgerðin stendur yfir heldur áfram að gefa þér lyf á meðan þess gerist þörf.
-
Allt skurðteymið, einkum þó svæfingarlæknirinn, fylgist með lífmörkum þínum (púls, blóðþrýstingi og öndun) meðan á uppskurði stendur til að ganga úr skugga um að líkaminn starfi eðlilega.
ÞB