Hvað getur andhormónameðferð gert fyrir ÞIG?

Gerum ráð fyrir að þú hafir nýlokið meðferð við brjóstakrabbameini á fyrstu stigum. Þú fórst í skurðaðgerð, meðferð með krabbameinslyfjum og í geislameðferð. Hve mikið gagn gerir það þér að fara einnig í andhormónameðferð? Mun það að einhverju marki minnka líkur á að krabbameinið taki sig upp?

Hafðu hugfast að þú ert EKKI að byrja í 100% líkum. Gerum ráð fyrir að líkur á að meinið taki sig aftur upp séu um 20% og meðferðirnar sem þú fórst í hafa minnkað þær um helming. Þá eru þær komnar niður í 10%. Því meiri sem líkurnar eru á að meinið taki sig upp, þeim mun meira gagn hefurðu af andhormónameðferð. Sömuleiðis má segja að því minni sem líkurnar eru, þeim mun minna gagn hafirðu af andhormónameðferð. Þú þarft einnig að taka með í reikninginn og meta líkur á aukaverkunum andhormónalyfja. Þær kunna að ráðast af almennu heilsufari þínu.

Farðu yfir þessi atriði með lækni þínum og ræddu þau. Hvort niðurstaðan verði sú að andhormónameðferð geti gagnast ÞÉR ræðst af mörgum þáttum. Þú getur líka byrjað að taka inn andhormónalyf og síðan endurskoðað ákvörðun þína þegar fram líða stundir eftir því hvernig gengur. Fylgstu líka með á heimasíðu brjostakrabbamein.is eða á amerísku síðunni breasttcancer.org til að sjá hvort birst hafa fréttir af framförum í meðferð með andhormónum.

ÞB