Að hafa fengið brjóstakrabbamein
Hafir þú einhvern tíma greinst með brjóstakrabbamein, eru líkur á að fá krabbamein í hitt brjóstið eða á öðrum stað í sama brjósti 3 til 4 sinnum meiri en ella. Þessi áhætta er ólík hættunni á að upprunalegt krabbamein taki sig upp aftur (þetta er á fagmáli kallað líkur á endurkomu).
Skref sem unnt er að taka
Hafir þú greinst með brjóstakrabbamein er hugsanlegt að þú takir inn einhver lyf til að minnka líkurnar á nýju brjóstakrabbameini. Til viðbótar er unnt að gera ýmsar breytingar á lifnaðarháttum sem halda líkunum eins litlum og mögulegt er.
-
Að vera hæfilega þung/ur,
-
hreyfa sig reglulega,
-
halda áfengisneyslu í lágmarki,
-
neyta næringarríkrar fæðu,
-
byrja aldrei að reykja (eða hætta strax)
Þetta eru aðeins örfá skref sem unnt er að taka í rétta átt. Hér til hliðar eru tenglar þar sem lesa má um fleiri möguleika. Til viðbótar við þessar ráðstafanir er um fleiri kosti að ræða sem geta bæði dregið úr hættunni á að meinið takið sig upp aftur og minnka líkur á nýju brjóstakrabbameini.
Taka inn andhormónalyf eins og aromatase-hemil eða SERM-lyf (selective estrogen receptor modulators) sem geta stuðlað að því að minnka líkur á:
-
að hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein taki sig upp aftur,
-
að nýtt hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein nái að þróast.
Andhormónalyf virka á tvo vegu:
-
með því að minnka estrógenmagn í líkamanum,
-
með því að loka fyrir virkni estrógens á brjóstakrabbameinsfrumur.
Andhormónalyf (líka kölluð andhormónalyf) minnka ekki líkur á hormóna-viðtaka-neikvæðu brjóstakrabbameini.
Til að afla frekari upplýsinga skaltu fara inn á greinarnar sem fjalla um Andhormónameðferð á brjostakrabbamein.is.
Forðast vörur sem innihalda estrógen eða prógesterón. Hafir þú greinst með brjóstakrabbamein, skaltu ekki nota hormónalyf sem gefin eru við tíðahvarfaeinkennum (HRT=Hormone Replacement Therapy) eða getnaðarvarnir sem innihalda hormónana estrógen og/eða prógesterón. Þessir hormónar geta valdið því að hormóna-jákvætt brjóstakrabbamein nær að myndast og vaxa.
Ekki hafa verið gerðar nema fáeinar umfangslitlar rannsóknir á notkun hormónalyfja við tíðahvarfaeinkennum (HRT) þeirra kvenna sem hafa einhvern tíma greinst með brjóstakrabbamein. Aftur á móti hafa verið gerðar umfangsmiklar rannsóknir sem sýna að notkun HRT eykur líkur á brjóstakrabbameini hjá konum almennt. Því mæla læknar með því að konur sem hafa einhvern tíma greinst með brjóstakrabbamein forðist HRT (hormónalyf við tíðahvarfaeinkennum). Það getur verið erfitt að mega ekki nota þannig lyf því fylgikvillar tíðahvarfa geta stórlega dregið úr lífsgæðum sumra kvenna. Sértu með erfið einkenni tíðahvarfa og átt þér sögu um brjóstakrabbamein, ræddu þá við lækni þinn um hvað þú getir gert í stað þess að taka inn hormóna. Ýmsir möguleikar eru fyrir hendi, til dæmis nálastungur og hugleiðsla.
Sömuleiðis er almennt talið að varhugavert sé fyrir konur á barneignaaldri sem greinst hafa með brjóstakrabbamein að nota getnaðarvarnarpillur. Með „pillunni” verður til meira af hormónum í líkamanum en það magn sem hann framleiðir sjálfur (og þannig komið í veg fyrir að tíðahringurinn geri sig gildandi). Vegna þessa mæla flestir læknar með öðrum aðferðum til að koma í veg fyrir getnað, svo sem smokkum, hettunni eða lykkju (IUD=intrauterine device).
Fara oftar í krabbameinsleit: Hafir þú greinst með brjóstakrabbamein semjið þið læknir þinn eftirlitsáætlun sem sniðin er sérstaklega að þér og þínum aðstæðum. Til viðbótar við það sem mælt er með fyrir konur í meðaláhættu, gæti áætlun fyrir konu sem á sér brjóstakrabbameinssögu litið einhvern veginn svona út:
-
Skoða brjóstin sjálf í hverjum mánuði,
-
fara einu sinni á ári í brjóstaskoðun hjá lækni (láta þreifa brjóstin),
-
fara einu sinni á ári í brjóstamyndatöku og byrja 40 ára.
-
fara einu sinni á ári í MRI (segulómun).
Þú gætir farið í þessar rannsóknir oftar en kona með venjulegar líkur. Þú gætir farið í eina myndrannsókn - til dæmis brjóstamyndatöku - og síðan í annars konar rannsókn - segulómun (MRI) - hálfi ári seinna. Fyrir eða eftir hverja myndatöku gæti læknir þinn þreifað brjóstin.
Ómskoðun á brjósti er einnig öflugt verkfæri sem getur nýst til að greina krabbamein hjá konum sem hafa einhvern tíma greinst með brjóstakrabbamein Þannig skoðun kemur þó ekki í stað stafrænnar brjóstamyndatöku og segulómunar.
Ræddu við lækni þinn um hvernig unnt sé að semja áætlun sem tryggir að greina megi krabbamein snemma, áætlun sem tekur mið af áhættuþáttum þínum og þörfum og veitir þér þá hugarró sem þú þarfnast.
Fara í fyrirbyggjandi skurðaðgerð: Að nema brott hitt brjóstið sem er heilbrigt og láta taka eggjastokkana kallast fyrirbyggjandi skurðaðgerðir. Þetta er mjög ágeng og óafturkræf leið til að minnka líkur, leið sem sumar konur velja. Ávinningur af fyrirbyggjandi skurðaðgerðum eftir að hafa greinst með brjóstakrabbamein er háður aldri, almennri heilsu og á hvaða stigi eða af hvaða tegund brjóstakrabbameinið var.
Sértu ekki með breytt BRCA1 eða BRCA2 gen (flest tilfelli ættgengs brjóstakrabbameins tengjast öðrum eða báðum þessum genum, BRCA1 (BReast CAncer gene one) - og BRCA2 (BReast CAncer gene two), ekki með sterka fjölskyldusögu um brjóstakrabbamein og krabbameinið hjá þér greindist snemma (á fyrstu stigum), eru litlar líkur á að meinið taki sig upp aftur. Ekki er hægt að segja hvort einhver ávinningur væri af fyrirbyggjandi skurðaðgerðum fyrir þig eða ekki.
Hafir þú greinst með brjóstakrabbamein og ert með breytt BRCA1 eða BRCA2 gen eða mikla fjölskyldusögu um brjóstakrabbamein, aukast líkur á að fá nýtt, óskylt krabbamein. Við þannig aðstæður gæti fyrirbyggjandi skurðaðgerð haft gildi fyrir þig.
Hafir þú greinst með langt gengið brjóstakrabbamein (á seinni stigum), eru líkurnar á að krabbameinið taki sig upp í sama brjósti meiri en líkur á að þróa nýtt, óskylt brjóstakrabbamein. Við þær aðstæður er trúlega lítill ávinningur að fyrirbyggjandi skurðaðgerð (sem fælist í að taka hitt brjóstið). Mikilvægt er að hafa í huga að engar aðgerðir – ekki einu sinni skurðaðgerðir – geta algjörlega útilokað hættu á krabbameini. Jafnvel á þeim stað þar sem brjóst eða eggjastokkar voru fjarlægðir getur krabbamein þróast. Gott eftirlit er nauðsynlegt, jafnvel eftir fyrirbyggjandi skurðaðgerð.
Til að unnt sé að taka ákvörðun um fyrirbyggjandi skurðaðgerð er þörf á rækilegri umhugsun, þolinmæði og viðtölum við lækna, erfðaráðgjafa og fjölskyldumeðlimi – og ekki síst gífurlegt hugrekki. Taktu þér allan þann tíma sem þú þarft til að íhuga kostina og taka ákvörðun sem þú ert sátt við. Frekari upplýsingar er að finna inni á brjostakrabbamein.is undir Fyrirbyggjandi brjóstnám.
ÞB