Að vera kona

Það eitt að vera kona er stærsti áhættuþáttur brjóstakrabbameins. Um það bil 190 þúsund ný tilfelli ífarandi brjóstakrabbameins greinast á ári hverju í Bandaríkjunum og 60 þúsund staðbundin mein. Af þessum fjölda er um 1% karlar. Gert er ráð fyrir að um það bil 2 þúsund ný tilfelli brjóstakrabbameins karla muni greinast á þessu ári í Bandaríkjunum.

*Í Krabbameinsskrá K.Í. er greint frá fjölda nýrra tilfella krabbameina sem greinast hér á landi (nýgengi). Á árunum 2004-2008 greindust að meðaltali 186 ný tilfelli brjóstakrabbameins á ári eða þrjú tilfelli í viku hverju og rúmlega það. Vitað er að tilfellum fer fjölgandi þó tölurnar liggi ekki fyrir í krabbameinsskránni. Ekki er gerður greinarmunur á konum og körlum í birtum tölum.

Meginástæðurnar fyrir muninum á körlum og konum þegar brjóstakrabbamein á í hlut eru þessar:

  • Konubrjóst þroskast á þremur til fjórum árum og eru yfirleitt fullmótuð við 14 ára aldur stúlkna. Brjóst karla þroskast yfirleitt ekki til fulls – megnið af því sem sést utan á körlum er fita en ekki myndað af brjóstkirtlum.

  • Þegar brjóstafrumur hafa mótast eru þær mjög óþroskaðar og afar virkar þar til konan hefur gengið með og alið sitt fyrsta barn. Á meðan þær hafa ekki náð fullum þroska eru brjóstafrumur kvenna mjög næmar fyrir estrógeni og öðrum hormónum, svo og fyrir hormónatruflunum frá umhverfinu.

  • Brjóstafrumur karla eru óvirkar og flestir karlmenn eru með mjög lítið af estrógeni. Því er örvun frá hormónum á næmar og viðkvæmar brjóstafrumur kvenna, einkum á því sérlega viðkvæma skeiði á meðan brjóstið er að þroskast, ástæða þess að brjóstakrabbamein er miklu algengara hjá konum en körlum.

Skref sem unnt er að stíga

Að fara í kynskiptaaðgerð til að draga úr líkum á brjóstakrabbameini er hvorki raunhæfur né skynsamlegur kostur. Hins vegar er unnt að gera ýmislegt til að draga úr estrógenmagni og minnka þannig þennan kyndbundna áhættuþátt:

  • Að vera hæfilega þung/ur,

  • hreyfa sig reglulega,

  • halda áfengisneyslu í lágmarki,

  • neyta næringarríkrar fæðu,

  • byrja aldrei að reykja (eða hætta strax)

Þetta eru aðeins örfá skref sem unnt er að taka í rétta átt. Hér til hliðar eru tenglar þar sem lesa má um fleiri möguleika.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

 ÞB