Áfengisneysla

Hver rannsóknin á fætur annarri sýnir að áfengisneysla - hvort sem það er bjór, vín eða líkjör sem neytt er – eykur líkur kvenna á að fá hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein. Áfengi eykur magn estrógens og annarra hormóna sem tengjast þróun hormóna-viðtaka-jákvæðs brjóstakrabbameins. Áfengi kann einnig að auka líkur á brjóstakrabbameini með því að skemma erfðaefni (DNA) í frumum.

Séu líkurnar bornar saman við líkur kvenna sem ekki neyta áfengis, kemur í ljós að einum áfengum drykk á dag fylgir lítilsháttar aukning á líkum. Hjá konum sem fá sér tvo til 5 drykki á dag aukast líkurnar á brjóstakrabbameini um 50% samanborið við konur sem ekki neyta áfengis.

Ekki hafa verið gerðar margar á rannsóknir á því hvaða áhrif það hefur á líkur á endurkomu brjóstakrabbameins að neyta áfengis. Þær fáu rannsóknir sem fyrir liggja benda til þess að það að fá sér þrisvar til fjórum sinnum eða oftar í glas í viku hverri, kunni að auka hættu á að brjóstakrabbamein taki sig upp aftur, einkum hjá konum sem komnar eru úr barneign eða eru of þungar.

Skref sem unnt er að taka

Viljir þú gera allt sem í þínu valdi stendur til að draga úr hættunni á brjóstakrabbameini, er skynsamlegt að takmarka neyslu áfengis. Þú kannt að velja að snerta ekki framar áfengi, en ef þú nýtur þess að fá þér í glas og ætlar þér að halda því áfram, reyndu þá að hafa drykkina ekki fleiri en fimm í viku hverri.

 ÞB