Arfgengi - erfðaþættir

Talið er að um 5% til 10% brjóstakrabbameina séu ættgeng og því valdi stökkbreyttur erfðavísir (gen) sem erfist frá foreldri til barns.

Erfðavísar (gen) eru þráðlaga eindir sem liggja í spíral og eru gerðar úr kjarnsýrum (DNA - deoxyribounucleic acid = deoxýribósakjarnsýra)). DNA inniheldur fyrirmæli um að búa til prótín sem stjórna innri gerð og starfsemi allra frumna í líkamanum.

Hægt er að hugsa sér erfðavísa (gen) sem einskonar handbók um það hvernig frumur eiga að starfa og vaxa. Afbrigðileiki í DNA er þá eins og prentvilla sem getur valdið því að leiðbeiningarnar verða rangar. Það getur svo aftur leitt til þess að fruma vex ekki rétt og starfar ekki rétt. Komi upp villa, endurtekur hún sig sig í öllum frumum sem eru með sama gen (erfðavísi). Þetta er eins og í handbók þar sem prentvillan er sú sama í öllum framleiddum eintökum.

BRCA1 og BRCA2 gen (erfðavísar)

Flest tilfelli ættgengs brjóstakrabbameins tengjast tveimur stökkbreyttum genum: BRCA1 (BReast CAncer gene one) og BRCA2 (BReast CAncer gene two).

Allir eru með BRCA1 og BRCA2 gen. Hlutverk BRCA genanna (erfðavísanna) er að gera við frumuskemmdir og sjá til þess að brjóstafrumur vaxi eðlilega. Þegar þessi gen eru óeðlileg eða stökkbreytt og þau erfast frá einni kynslóð til annarrar, starfa þau ekki heldur eðlilega og líkur á brjóstakrabbameini aukast. Stökkbreytt BRCA1 og BRCA2 gen eru orsök um 10% tilfella brjóstakrabbameins eða í 1 af hverjum 10. *Hér á landi er þessi tala á bilinu 5-7% skv. yfirlesara.

Að vera með breytt BRCA1 eða BRCA2 gen (erfðavísa) táknar ekki að þú munir óhjákvæmilega greinast með brjóstakrabbamein. Rannsakendur hafa komist að því að aðrar stökkbreytingar í hluta litninga — skammstafaðar SNP (Single Nucleotide Polymorphisms) – kunni að tengjast aukinni hættu á brjóstakrabbameini hjá konum með breytt BRCA1 gen, svo og hjá konum sem ekki hafa þetta ættgenga brjóstakrabbameinsgen.

Konur sem greinast með brjóstakrabbamein og eru með breytt BRCA1 eða BRCA2 gen, eiga oft fjölskyldusögu um brjóstakrabbamein, krabbamein í eggjastokkum og aðrar tegundir krabbameins. Samt er það svo að meirihluti þeirra sem greinast með brjóstakrabbamein (*í Bandaríkjunum) er ekki með breytt brjóstakrabbameinsgen og heldur enga fjölskyldusögu um sjúkdóminn.

Líkur á að þú sért með breytt brjóstakrabbameinsgen verða meiri en minni ef:

  • konur náskyldar þér (ömmur, móðir, systir/ur eða móður- eða föðursystur) greindust með brjóstakrabbamein fyrir fimmtugt,

  • bæði brjóstakrabbamein og krabbamein í eggjastokkum hefur greinst hjá nánum ættingja, einkum hjá sama einstaklingi,

  • hjá skyldmennum hafa greinst aðrar tegundir krabbameins sem tengjast innkirtlastarfsemi, svo sem í briskirtli, ristli eða skjaldkirtli,

  • konur í fjölskyldunni hafa fengið krabbamein í bæði brjóstin,

  • þú ert komin af Ashkenazy-ætt (gyðingaætt upprunninni í Austur-Evrópu),

  • ert af afró-amerískum ættum og greinist með brjóstakrabbamein 35 ára eða yngri.

  • karlmaður í fjölskyldunni hefur fengið brjóstakrabbamein.

Þótt einn meðlimur fjölskyldunnar sé með breyttan brjóstakrabbameinsgen þarf það ekki að þýða að aðrir í fjölskyldunni séu einnig með það.

Líkur venjulegrar konu á að greinast með brjóstakrabbamein einhvern tíma á ævinni eru 1 á móti 8 sem þýðir 12-13% *(bandarískar tölur). Konur með breytt BRCA1 eða BRCA2 gen (eða hvort tveggja) geta haft allt að 80% líkur á að greinast með brjóstakrabbamein einhvern tíma á ævinni. Brjóstakrabbamein sem tengjast breyttum BRCA1 eða BRCA2 genum, greinast oftar hjá ungum konum og oftar í báðum brjóstum en hjá konum sem ekki eru með breytt BRCA1 eða BRCA2 gen.

Meiri líkur eru á að konur með breytt BRCA1 eða BRCA2 gen fái krabbamein í eggjastokka, ristil, bris og skjaldkirtil, svo og húðkrabbamein, en þær konur sem ekki hafa þau.

Meiri líkur eru á að karlar með breytt BRCA2 gen fái brjóstakrabbamein en þeir sem ekki hafa það – um það bil 8% þegar áttræðisaldri er náð. Það er 80 sinnum meiri líkur en gerist og gengur.

Líkur á krabbameini í blöðruhálskirtli eru örlitlu meiri hjá körlum með breytt BRCA1 gen en hjá öðrum körlum. Karlar með breytt BRCA2 gen eru 7 sinnum líklegri til að fá krabbamein í blöðruhálskirtil en aðrir karlar. Líkur á öðrum tegundum krabbameins kunna einnig að vera örlítið meiri hjá körlum með breytt BRCA1 eða BRCA2 gen.

Aðrir erfðavísar (gen)

Breytingar í öðrum erfðavísum (genum) eru einnig taldar tengjast brjóstakrabbameini. Eftirtalin breytt gen eru mun sjaldgæfari og virðast ekki auka líkur á krabbameini í sama mæli og breytt BRCA1 og BRCA2 gen. Þar sem eftirtaldar breytingar eru sjaldgæfar hafa þær ekki verið rannsakaðar jafn ítarlega og BRCA genin.

  • ATM: ATM genið (erfðavísirinn) hjálpar til við að lagfæra skemmdar kjarnsýrur, DNA. Erfðaefnin, DNA, (kjarnsýrurnar) varðveita upplýsingarnar sem hver fruma býr yfir. Tvö óeðlilegt eintök af þessu geni veldur sjúkdómi sem kallast ataxia-telangiectasia (Louis-Bar heilkenni – „syndrome”) sjaldgæfum sjúkdómi sem hefur áhrif á þroska heilans. Erfist eitt óeðlilegt ATM gen er það talið tengjast auknum líkum á brjóstakrabbameini í sumum fjölskyldum þar sem hið breytta gen kemur í veg fyrir að frumur geti lagfært skaddað erfðaefni (DNA).

  • p53 (einnig nefnt TP53): Erfðavísirinn (genið) p53 sér um að gefa líkamanum fyrirmæli um hvernig búa skuli til prótín sem kemur í veg fyrir æxlisvöxt. Arfgengt, breytt p53 gen veldur sjúkdómi sem nefnist Li-Fraumeni, en hann birtist í því að fólk þróar með sér krabbamein í mjúkum vefjum líkamans á ungum aldri. Líkur fólks með þennan sjaldgæfa sjúkdóm á að fá brjóstakrabbamein og fleiri tegundir krabbameins, eru yfir meðaltali, þar með talið hvítblæði, heilaæxli og sarkmein (stoðvefsæxli)

  • CHEK2: Erfðavísinn (genið) CHEK2 gefur einnig líkamanum forrit að því hvernig búa skuli til prótin sem stöðvar æxlisvöxt. Li-Fraumeni heilkennið getur einnig orsakast af breyttum, arfgengum CHEK2 erfðavísi. Þótt óeðlilegt CHEK2 gen valdi ekki Li-Fraumeni heilkenni, getur það tvöfaldað líkur á brjóstakrabbameini.

  • PTEN: Erfðavísirinn (genið) PTEN hjálpar til við að stjórna frumuvecti. Breytt PTEN gen veldur Cowden heilkenni, sjaldgæfum sjúkdómi sem hefur í för með sér auknar líkur á bæði góðkynja og illkynja æxlum í brjósti, svo og óeðlilegum frumuvexti í meltingarvegi, skjaldkirtli, legi og eggjastokkum.

  • CDH1: Erfðavísirinn (genið) CDH1 býr til prótín sem hjálpar frumum að tengjast hver við aðra og mynda vef. Breytt CDH1 gen veldur sjaldgæfri tegund magakrabbameins hjá ungu fólki. Líkur kvenna á að fá ífarandi krabbamein í mjólkurkirtla aukast með breyttu CDH geni.

Erfðarannsóknir

Tiltækar eru erfðarannsóknir sem geta skorið úr um hvort manneskja er með breytta BRCA1 eða BRCA2 erfðavís (gen). Erfðaráðgjafi kynni einnig að biðja um leit að óeðlilegum ATM, p53, CHEK2, PTEN, eða CDH1 genum ef saga sjúklings eða fjölskyldusagan gefur tilefni til að ætla að þess sé þörf.

Til að fá meira að vita skaltu fara inn á síðurnar á brjostakrabbamein.is sem fjalla um Erfðarannsóknir.

Skref sem unnt er að stíga

Vitir þú að þú ert með breyttan erfðavísi (gen) sem tengist brjóstakrabbameini, er ýmislegt í lifnaðarháttum sem unnt er að halda sig við í því skyni að draga sem mest úr líkum á að fá það:

  • Að vera hæfilega þung/ur,

  • hreyfa sig reglulega,

  • halda áfengisneyslu í lágmarki,

  • neyta næringarríkrar fæðu,

  • byrja aldrei að reykja (eða hætta strax)

Þetta eru aðeins örfá skref sem unnt er að taka í rétta átt. Hér til hliðar eru tenglar þar sem lesa má um fleiri möguleika.

Taka inn móthormónalyf: Sýnt hefur verið fram á að SERM-lyf (Selective Estrogen-Receptor Modulators) draga úr hættunni á að mynda hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein hjá konum með miklar líkur á slíku meini. Þau vinna þannig að þau koma í veg fyrir að estrógen geti athafnað sig í brjóstum og ýmsum öðrum vefjum líkamans með því að setjast á estrógenviðtaka á frumunum. Tamoxifen® og Evista® (raloxifene) eru þau tvö SERM-lyf sem notuð eru í þessum tilgangi.

  • Sýnt hefur verið fram á að Tamoxifen® minnkar líkur á að hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein greinist í fyrsta sinn hjá konum sem eru í mikilli hættu, hvort heldur er fyrir eða eftir tíðahvörf. Viss lyf geta truflað verndunareiginleika Tamoxifen®. Farðu á síðuna um Tamoxifen® til að fá að vita meira.

  • Sýnt hefur verið fram á að Evista® minnkar líkur á að hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein greinist í fyrsta sinn hjá konum sem komnar eru úr barneign. Farðu á síðuna um Evista® til að fá að vita meira.

Móthormónalyf minnka ekki líkur á hormóna-viðtaka-neikvæðu brjóstakrabbameini.

Fara oftar í krabbameinsleit: Séu líkur þínar miklar vegna þess að mörg tilfelli brjóstakrabbameins hafa greinst hjá nánum ættingjum (sterk fjölskyldusaga), er rétt að þið læknir þinn semjið leitaráætlun sem sniðin er að þínum sérstöku þörfum. Mælt er með eftirfarandi:

  • Að skoða brjóstin sjálf í hverjum mánuði (sjálfskoðun brjósta),

  • að fara einu sinni á ári í brjóstaskoðun hjá heimilislæknii,

  • að fara einu sinni á ári í brjóstamyndatöku og byrja um þrítugt eða fyrr

  • að fara í MRI (segulmyndatöku) einu sinni ár ári.

Konur með breytt brjóstakrabbameinsgen þurfa að fara í leit með myndgreiningartækni tvisvar á ári því að líkur þeirra á að þróa með sér krabbamein á einu ári eru miklu meiri en hjá öðrum konum. Memorial Sloan-Kettering Cancer Center í New York (í toppsæti yfir sjúkrahús sem meðhöndla krabbameinssjúklinga í Bandaríkjunum) mælir með að konur með breytt BRCA1 eða BRCA2 gen fari bæði í stafræna brjóstamyndatöku og segulómun á hverju ári og láti líða hálft ár á milli (fari t.d. í brjóstamyndatöku í janúar og segulómun í júní).

Ómskoðun á brjósti er einnig öflugt verkfæri sem getur nýst til að greina krabbamein hjá konum með breytt brjóstakrabbameinsgen. Þannig skoðun kemur þó ekki í stað stafrænnar brjóstamyndatöku og segulómunar.

Ræddu við lækni þinn, geislafræðing og erfðaráðgjafa um hvernig unnt sé að semja áætlun sem tryggir að greina megi krabbamein snemma, tekur mið af áhættu þinni eins og hún lítur út, mætir persónulegum þörfum þínum og tryggir þér sálarró.

Fara í fyrirbyggjandi skurðaðgerð: Að fjarlægja heilbrigt brjóst, annað eða bæði, svo og eggjastokka, flokkast undir fyrirbyggjandi skurðaðgerðir. Þetta er mjög ágeng og óafturkræf leið til að minnka líkurnar, leið sem sumar konur með breytt BRCA1 eða BRCA2 gen velja.

Með fyrirbyggjandi skurðaðgerð er unnt að minnka líkur á að fá brjóstakrabbamein um heil 97%. Með aðgerðinni er nánast allur brjóstvefur fjarlægður þannig að fáar brjóstafrumur verða eftir sem gætu þróast yfir í krabbamein.

Konur með breytt BRCA1 eða BRCA2 gen geta minnkað líkurnar á að fá brjóstakrabbamein um helming (50%) með því að láta fjarlægja eggjastokkana á meðan þær eru enn í barneign. Með því að fjarlægja eggjastokka minnka líkur á brjóstakrabbameini vegna þess að í eggjastokkum verður til mest af estrógeni í líkama konu sem ekki er komin úr barneign. Að fjarlægja eggjastokka minnkar ekki líkur á brjóstakrabbameini hjá konum sem komnar eru yfir tíðahvörf vegna þess að hjá þeim eru það fita og vöðvavefur sem framleiða mest af estrógeni. Að fjarlægja bæði eggjastokka og eggjaleiðara minnkar líkur á krabbameini í eggjastokkum hjá konum á öllum aldri, hvort heldur er fyrir eða eftir tíðahvörf.

Rannsóknir hafa einnig sýnt að konur með breytta BRCA1 og BRCA2 gen sem láta fjarlægja eggjastokkana, lifa lengur ef þær greinast á einhverjum tíma eftir það með brjóstakrabbamein eða krabbamein í eggjastokkum.

Ávinningur af fyrirbyggjandi skurðaðgerðum er yfirleitt metinn í árum. Þess vegna er hugsanlegur ávinningur því meiri þeim mun yngri sem viðkomandi er við aðgerðina. Að sama skapi minnkar ávinningurinn eftir því sem aldurinn hækkar. Þar kemur einnig inn í myndina sú staðreynd að því eldri sem viðkomandi er þeim mun meiri líkur er á öðrum sjúkdómum sem geta haft áhrif á ævilengd, t.d. sykursýki eða hjartasjúkdómum.

Að sjálfsögðu eru aðstæður hverrar konu einstakar og gilda aðeins fyrir hana. Ræddu við lækni þinn um áhættuþætti þína og hvernig best sé að takast á við þá.

Mikilvægt er að hafa í huga að engar aðgerðir – jafnvel það að fjarlægja tvö heilbrigð brjóst og eggjastokka á unga aldri – geta algjörlega útilokað hættu á krabbameini. Eftir sem áður er lítilsháttar hætta á að krabbamein geti þróast á svæðinu þar sem brjóstin voru. Gott eftirlit er nauðsynlegt, jafnvel eftir fyrirbyggjandi skurðaðgerð.

Til að unnt sé að taka ákvörðun um fyrirbyggjandi skurðaðgerð er þörf á rækilegri umhugsun, þolinmæði og viðtölum við lækna, erfðaráðgjafa og fjölskyldumeðlimi og gefa sér til þess góðan tíma – og til þess þarf ekki síst gífurlegt hugrekki. Taktu þér allan þann tíma sem þú þarft til að íhuga kostina og taka ákvörðun sem þú ert sátt við. Frekari upplýsingar er að finna inni á brjostakrabbamein.is undir Fyrirbyggjandi skurðaðgerð og Fyrirbyggjandi brottnám eggjastokka.

ÞB