Brjóstagjöf

Að hafa barn á brjósti getur dregið úr líkum á brjóstakrabbameini, sérstaklega ef konan getur mylkt barninu lengur en eitt ár. Ávinningurinn er minni hjá konum sem gefa brjóst skemur en eitt ár og það er sá veruleiki sem margar konur í hinum vestræna heimi búa við.

Ýmsar ástæður valda því að brjóstgjöf verndar brjóstaheilsu:

  • Þegar brjóstið framleiðir mjólk allan sólarhringinn eiga brjóstafrumur minni möguleika á að haga sér óeðlilega.

  • Flestar konur hafa færri tíðahringi en ella á meðan þær hafa barn á brjósti (sem er þá viðbót við þær 9 blæðingar sem ekki var fyrir að fara á meðgöngunni), og með því móti minnkar estrógenmagnið í líkamanum.

  • Margar konur hneigast til að borða næringarríkari fæðu og lifa heilbrigðara lífi en ella (stilla reykingum og áfengisneyslu í hóf) á meðan þær hafa barn á brjósti.

Skref sem unnt er að taka

Að gefa barni brjóst er afar persónuleg ákvörðun og ræðst af þínum sérstöku aðstæðum.

Eigir þú þess kost að hafa barn á brjósti er það eitthvað sem þú kannt að vilja íhuga. Auk þess að draga úr þínum eigin líkum á brjóstakrabbameini, fær barnið mótefni með móðurmjólkinni sem geta varið það fyrir bakteríu- og vírussýkingum. Engu að síður eru þetta mjög svo einstaklingsbundnar ákvarðanir sem margt getur haft áhrif á fleira en að draga með því úr líkum á brjóstakrabbameini eða ræðst af því hvort þú ert fær um að hafa barn á brjósti eða ekki.

Að gefa brjóst getur reynst erfitt eftir greiningu á brjóstakrabbameini, og hafi bæði brjóst verið tekin blasir við sú sorglega staðreynd að það er ekki hægt.  Eftir fleygskurð (hluti af brjóstinu tekinn) og geislameðferð, er hætt við að meðhöndlaða brjóstið framleiði litla eða enga mjólk. Mjólk úr einu brjósti gæti reynst næg eða bæta þarf við hana og gefa þurrmjólk af pela. 

Hvort sem brjóstgjöf er möguleg eða ekki, er ýmislegt annað hægt að gera til að halda líkum á brjóstakrabbameini í mögulegu lágmarki:

  • Að vera/verða hæfilega þung,

  • hreyfa sig reglulega,

  • halda áfengisneyslu í lágmarki,

  • neyta næringarríkrar fæðu,

  • byrja aldrei að reykja (eða hætta strax)

Þetta eru fáein skref sem unnt er að taka í rétta átt. 

ÞB