Fjölskyldusaga
Líkurnar á að fá brjóstakrabbamein eru meiri ef nánir ættingjar hafa greinst með brjóstakrabbamein.
Hafi náinn ættingi í fyrsta lið (systir, móðir, dóttir) greinst með brjóstakrabbamein, tvöfaldast líkurnar. Hafi tvö skyldmenni í fyrsta lið greinst, verða líkurnar um fimmfalt meiri en meðaltalið segir til um.
Hafi bróðir eða faðir greinst með brjóstakrabbamein, eykur það líkurnar, en rannsakendur hafa ekki komist að niðurstöðu um hve mikið.
Í sumum tilfellum tengist sterk fjölskyldusaga brjóstakrabbameins stökkbreyttum erfðavísi (geni) sem talinn er auka líkurnar á brjóstakrabbameini til muna en það eru t.d. erfðavísar sem kallast BRCA1 eða BRCA2. Í öðrum tilvikum kann breytt gen (erfðavísir) sem kallast CHEK2 að eiga einhvern þátt í myndun brjóstakrabbameins..
Skref sem unnt er að taka
Unnt er að gera ýmsar breytingar á lifnaðarháttum sem halda líkunum í því lágmarki sem mögulega er fyrir hendi.
-
Að vera hæfilega þung/ur,
-
hreyfa sig reglulega,
-
halda áfengisneyslu í lágmarki,
-
neyta næringarríkrar fæðu,
-
byrja aldrei að reykja (eða hætta strax)
Þetta eru fá skref af þeim sem unnt er að taka í rétta átt. Skoðaðu tenglana hér til vinstri þar sem lesa má um fleiri möguleika.
Ásamt breytingum á lifnaðarháttur eins og þeim er lýst hér að ofan, er um fleiri leiðir að velja til að minnka líkurnar fyrir konur með sterka fjölskyldusögu brjóstakrabbameins.
Að taka inn andhormónalyf: Sýnt hefur verið fram á að SERM-lyf (Selective Estrogen-Receptor Modulators) draga úr hættunni á að mynda hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein hjá konum með miklar líkur á slíku meini. Þau vinna þannig að þau koma í veg fyrir að estrógen geti athafnað sig í brjóstum og ýmsum öðrum vefjum líkamans með því að setjast á estrógenviðtaka á frumunum. Tamoxifen® og Evista® (raloxifene) eru þau tvö SERM-lyf sem notuð eru í þessum tilgangi.
-
Sýnt hefur verið fram á að Tamoxifen® minnkar líkur á að hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein greinist í fyrsta sinn hjá konum sem eru í mikilli hættu, hvort heldur er fyrir eða eftir tíðahvörf. Viss lyf geta truflað verndunareiginleika Tamoxifen®. Farðu á síðuna um Tamoxifen® til að fá að vita meira.
-
Sýnt hefur verið fram á að Evista® minnkar líkur á að hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein greinist í fyrsta sinn hjá konum sem komnar eru úr barneign. Farðu á síðuna um Evista® til að fá að vita meira.
Andhormónalyf minnka ekki líkur á hormóna-viðtaka-neikvæðu brjóstakrabbameini.
Saman getið þið læknir þinn ákveðið hvort lyf sé góður kostur fyrir þig í því skyni að minnka líkurnar.
Að fara oftar í krabbameinsleit: Séu líkur þínar miklar vegna þess að mörg tilfelli brjóstakrabbameins hafa greinst hjá nánum ættingjum (sterk fjölskyldusaga), er rétt að þið læknir þinn semjið leitaráætlun sem sniðin er að þínum sérstöku þörfum. Mælt er með eftirfarandi:
-
Að skoða brjóstin sjálf í hverjum mánuði (sjálfskoðun brjósta),
-
að fara einu sinni á ári í brjóstaskoðun hjá heimilislækni eða þjálfuðum hjúkrunarfræðingi,
-
að fara einu sinni á ári í brjóstamyndatöku eftir fertugt.
Þín sérsniðna leitaráætlun gæti einnig falið í sér eftirfarandi rannsóknir til að unnt sé að greina merki um krabbamein eins fljótt og mögulegt er:
-
MRI (segulómun) á brjósti,
-
ómskoðun.
Þú gætir farið í þessar rannsóknir oftar en kona með venjulegar líkur. Má hugsa sér að þú færir í krabbameinsleit - til dæmis brjóstamyndatöku - og síðan í annars konar myndatöku - segulómun (MRI) - hálfi ári seinna. Fyrir eða eftir hverja myndatöku gæti læknir þinn þreifað brjóstin. Þú gætir líka hugsanlega byrjað að láta rannsaka þig fyrir fertugt.
*Hérlendis eru ekki tekið við konum í brjóstamyndatöku eða segulómun fyrir fertugt nema rökstuddur grunur liggi fyrir um brjóstakrabbamein.
Fyrirbyggjandi skurðaðgerð: Að fjarlægja heilbrigt brjóst, annað eða bæði, svo og eggjastokka, flokkast undir fyrirbyggjandi skurðaðgerðir. Þetta er mjög ágeng og óafturkræf leið til að minnka líkurnar, leið sem sumar konur velja.
Með fyrirbyggjandi skurðaðgerð er unnt að minnka líkur á að fá brjóstakrabbamein um heil 97%. Með aðgerðinni er nánast allur brjóstvefur fjarlægður þannig að fáar brjóstafrumur verða eftir sem gætu þróast yfir í krabbamein.
Konur með afbrigðilegan BRCA1 eða BRCA2 arfbera geta minnkað líkurnar á að fá brjóstakrabbamein um helming (50%) með því að láta fjarlægja eggjastokkana á meðan þær eru enn í barneign. Með því að fjarlægja eggjastokka minnka líkur á brjóstakrabbameini vegna þess að í eggjastokkum verður til mest af estrógeni í líkama konu sem ekki er komin úr barneign. Að fjarlægja eggjastokka minnkar ekki líkur á brjóstakrabbameini hjá konum sem komnar eru yfir tíðahvörfin vegna þess að hjá þeim eru það fita og vöðvavefur sem framleiða mest af estrógeni. Að fjarlægja bæði eggjastokka og eggjaleiðara minnkar líkur á krabbameini í eggjastokkum hjá konum á öllum aldri, hvort heldur er fyrir eða eftir tíðahvörf.
Ávinningur af fyrirbyggjandi skurðaðgerðum er yfirleitt metinn í árum. Þess vegna er hugsanlegur ávinningur því meiri þeim mun yngri sem viðkomandi er þegar aðerðin er gerð. Að sama skapi minnkar ávinningurinn eftir því sem aldurinn hækkar. Þar kemur einnig inn í myndina sú staðreynd að því eldri sem viðkomandi er þeim mun meiri líkur er á öðrum sjúkdómum sem geta haft áhrif á ævilengd, t.d. sykursýki eða hjartasjúkdómum.
Að sjálfsögðu eru aðstæður hverrar konu einstakar og gilda aðeins fyrir hana. Ræddu við lækni þinn um áhættuþætti þína og hvernig best sé að takast á við þá.
Mikilvægt er að hafa í huga að engar aðgerðir – jafnvel það að fjarlægja tvö heilbrigð brjóst og eggjastokka á unga aldrei – geta algjörlega útilokað hættu á krabbameini. Eftir sem áður er lítilsháttar hætta á að krabbamein geti þróast á svæðinu þar sem brjóstin voru. Gott eftirlit er nauðsynlegt, jafnvel eftir fyrirbyggjandi skurðaðgerð.
Til að unnt sé að taka ákvörðun um fyrirbyggjandi skurðaðgerð er þörf á rækilegri umhugsun, þolinmæði og viðtölum við lækna, erfðaráðgjafa og fjölskyldumeðlimi og gefa sér til þess góðan tíma – og til þess þarf ekki síst gífurlegt hugrekki. Taktu þér allan þann tíma sem þú þarft til að íhuga kostina og taka ákvörðun sem þú ert sátt við. Frekari upplýsingar er að finna inni á brjostakrabbamein.is undir Fyrirbyggjandi skurðaðgerð og Fyrirbyggjandi brottnám eggjastokka.
*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB