Hreyfingarleysi

Rannsóknir sýna að samband er milli reglulegrar hreyfingar með hæfilegri eða mikilli áreynslu í 4 til 7 klukkustundir á viku og þess að dregur úr líkum á brjóstakrabbameini. Við hreyfingu og bruna jafnast blóðsykurmagnið og þar með helst vaxtarþáttur insúlíns í blóðsykrinum í skefjum, en vaxtarþáttur insúlíns er hormón sem getur haft áhrif á hvernig brjóstakrabbameinsfrumur vaxa og hegða sér. Fólk sem hreyfir sig reglulega er yfirleitt hraustara og líklegra til að halda sér í hóflegri líkamsþyngd og hafa litla eða enga aukafitu utan á sér, samanborið við fólk sem ekki stundar reglulega hreyfingu.

Fitufrumur framleiða estrógen og umfram fitufrumur framleiða umframmagn estrógens. Þegar brjóstafrumur komast til langframa í snertingu við of mikið estrógen, eykst hættan á brjóstakrabbameini.

Hreyfing er nú orðið talin afar mikilvægur þáttur í daglegu lífi fólks. Ameríska krabbameinsfélagið (The American Cancer Society) mælir með því að konur sem hafa greinst með brjóstakrabbamein hreyfi sig reglulega (í um það bil 4 til 5 klukkustundir á viku) í því skyni að auka lífsgæði sín og styrkja sig líkamlega auk þess að draga úr líkum á að fá krabbamein á ný. Með rannsókn hefur verið sýnt fram á, að konur sem ganga í 3 til 5 stundir á viku á meðalgönguhraða eftir að hafa greinst með brjóstakrabbamein, auka batahorfur og lífslíkur sínar.

Byrjaðu rólega: Fyrst er að byrja á að tala við lækninn og hugsanlega löggiltan sjúkraþjálfara um örugga og skynsamlega áætlun sem væri sérstaklega sniðin að þér og þínum þörfum og líkamlegri getu. Einnig er vel til fundið að ræða við lækninn um hvað telst hæfilegt þyngd fyrir manneskju á þínum aldri, miðað við hæð, líkamsgerð og þá hreyfingu sem þú færð nú þegar.

Kannski hentar þér að byrja rólega með því að ganga í stundarfjórðung á dag og bæta síðan rólega við tímann sem þú hreyfir þig og auka áreynsluna hverju sinni. Hugsanlega tekur það þig nokkra mánuði að komast upp í 5 klukkustunda hreyfingu á viku, en það er í góðu lagi.

Sértu ekki viss um hvernig þú átt að byrja á að hreyfa þig reglulega, er mælt með því að fara á líkamsræktarstöð og fá viðtal hjá einkaþjálfara til að fá að vita hvaða möguleikar á hreyfingu er fyrir hendi.

*Í svona tilfelli mæli ég hiklaust með því að hafa samband við Ljósið,, sem hefur bæði sjúkra- og iðjuþjálfa  á sínum snærum, sem meta getu viðkomandi, auk þess sem gestir Ljóssins fara saman í gönguferðir, boðið er upp á létta jógatíma o.fl. o.fl.

Svo eru þeir sem kjósa heldur að gera líkamsæfingar heima hjá sér með aðstoð myndbanda eða mynddiska. Aðrir fá mikla gleði út úr garðvinnu, smíðum eða öðru álíka í staðinn fyrir skipulagða hreyfingu með öðru fólki. Svo eru enn aðrir sem hafa mesta ánægju af því að vera í hópi eða liði og leika knattspyrnu eða körfubolta. Að ganga eða skokka með vini eða vinkonu er frábær leið til að blanda geði við annað fólk um leið og hreyfingin gerir því gott. Að dansa við skemmtilega tónlist er frábær hreyfing.

Það eru til svo margar leiðir til að hreyfa sig að það er óhjákvæmilegt annað en að þú finnir eitthvað sem hentar þér, persónuleika þínum og stundaskránni að öðru leyti. Takist þér að finna eina eða fleiri tegund hreyfingar sem þér finnst skemmtileg en ekki leiðinleg, aukast líkurnar til muna á að þú munir halda þig við efnið.

 

*Hérlendis er Lýðheilsustöð  faglegur ráðgjafi stjórnvalda og birtir ráðleggingar um hreyfingu þar sem tekið er mið af ráðleggingum erlendra og innlendra fagstofnana.

*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda.

 ÞB