Notkun hormónalyfja við tíðahvarfaeinkennum

Meiri líkur eru á að konur sem nota eða hafa til skamms tíma notað hormónalyf við tíðahvarfaeinkennum (skammstafað HRT Hormonal Replacement Therapy), greinist með brjóstakrabbamein en þær sem ekki nota slík lyf. Áður en samband hormónalyfja og brjóstakrabbameins var staðfest, tók fjöldi kvenna inn þess konar lyf árum saman til að vinna bug á einkennum sem fylgdu breytingaaldrinum (hitakófi, þreytu), og til að vinna gegn beinþynningu. Frá því árið 2002 þegar rannsóknir staðfestu að um samband væri að ræða milli HRT og hættu á krabbameini, hefur þeim konum fækkað mjög mikið sem nota lyfin. Samt eru margar konur sem halda áfram að nota hormónalyf til að ráða við erfið einkenni breytingaskeiðsins.

Aðaltegundir HRT eru tvær:

  • lyf sem innihalda bæði estrógen og prógesterón hormóna

  • lyf sem innihalda aðeins estrógen.

Tegundirnar tvær virðast hafa mismunandi áhrif á líkur á brjóstakrabbameini..

Samsett hormónalyf (HRT), þ.e. þau sem innihalda bæði estrógen og prógesterón, auka hættu á brjóstakrabbameini um 75%, jafnvel þótt þau séu aðeins tekin í stuttan tíma. Samsett hormónalyf auka einnig líkurnar á að krabbamein greinist fyrst þegar það er langt gengið og eykur einnig líkurnar á að kona sem greinist með brjóstakrabbamein látist af völdum sjúkdómsins. Hættan á brjóstakrabbameini vex mest fyrstu 2 til 3 árin sem samsett hormónalyf eru tekin. Samsett sterk HRT auka líkurnar meira en þau sem veikari eru. Hættan er því í réttu hlutfalli við styrkleikann (magn hormóna í hverri töflu). Líkur á brjóstakrabbameini fara niður í meðaltalslíkur um það bil tveimur árum eftir að inntöku slíkra lyfja er hætt.

Hormónalyf (HRT) sem einungis innihalda estrógen auka líkurnar á brjóstakrabbameini, en því aðeins að þau séu tekin inn lengur en í 10 ár. Hormónalyf sem einungis innihalda estrógen geta einnig aukið líkur á krabbameini í eggjastokkum.

Aukning á líkum á brjóstakrabbameini af völdum hormónalyfja við tíðahvarfaeinkennum er sú sama, hvort sem hormónarnir eru „náttúrulegir” (bioidentical”) eða búnir til af mönnum. „Bioidentical” merkir að hormónarnir í viðkomandi framleiðsluvöru eru eins og þeir sem líkaminn framleiðir og talað um að slíkir hormónar séu „náttúrulegir” – því þá er að finna í plöntum. Gervihormónar eru búnir til á efnafræðistofum og eru líka nákvæmlega eins og þeir sem líkaminn framleiðir. Mikilvægt er að átta sig á að margs konar jurtalyf með náttúrulegum hormónum eru hvorki undir sama stranga eftirliti né prófuð á sama hátt og þau sem verða til hjá lyfjaframleiðendum.

Skref sem unnt er að taka

Hliðarverkanir tíðahvarfa (breytingaskeiðs kvenna) geta haft mikil og margvísleg áhrif á lífsgæði sumra kvenna. Þær konur verða að vega og meta gagnsemi hormónalyfja (HRT) á móti áhættuni sem þeim fylgir. Finnir þú fyrir miklum hitakófum eða öðrum einkennum tíðahvarfa, skaltu ræða við lækni þinn um ALLA möguleika sem eru fyrir hendi. Fáðu að vita hvað þú getur gert til að draga úr hættu á brjóstakrabbameini OG minnka óþægindinn í leiðinni. Vertu viss um að þið ræðið kosta og galla mismunandi tegunda hormónalyfja. Rannsóknir benda eindregið til þess að hormónalyf sem eingöngu innihalda estrógen auki í mun minni mæli líkur á brjóstakrabbameini en samsett hormónalyf (bæði estrógen og prógesterón). Ákveðir þú að taka inn hormónalyf, athugaðu þá hvort hægt sé að taka inn vægari eða minni skammt af lyfinu og ræddu við lækni þinn um að taka lyfið í eins stuttan tíma og mögulegt er.

Hafir þú greinst með brjóstakrabbamein eða komið í ljós að þú ert með gallaðan arfbera brjóstakrabbameins (BRCA1 eða BRCA2) og líkurnar þar af leiðandi miklar (meiri en gengur og gerist), ættir þú ekki að taka inn hormónalyf við tíðahvarfaeinkennum. Hormónarnir sem lyfin innihalda geta valdið hormóna-viðtaka-jákvæðu brjóstakrabbameini, komið því af stað og ýtt undir vöxt þess.

Þótt aðeins örfáar rannsóknir hafi verið gerðar á notkun hormónalyfja með litlum hópum kvenna sem einhvern tíma hafa greinst með brjóstakrabbamein, þá gerir sú staðreynd að notkun þeirrar eykur líkur á brjóstakrabbameini hjá konum almennt það að verkum að nánast allir læknar ráða konum frá því að taka inn hormónalyf, eigi þær sér einhverja krabbameinsögu. Á fylgiseðlum með hormónalyfjum við tíðahvarfaeinkennum er tekið skýrt fram að mælt sé gegn því að konur sem hafa greinst með brjóstakrabbamein noti lyfin. Að geta ekki tekið inn hormónalyf getur reynst mörgum konum erfitt. Séu hitakóf mikil og tíð eða önnur einkenni tíðahvarfa og þú greinst með brjóstakrabbameins, ræddu þá við lækni þinn um leiðir sem ekki fela í sér inntöku hormóna, svo sem breytingar á mataræði, hreyfingu, þyngdarstjórnun, nálastungur eða hugleiðslu. Fleiri upplýsingar um hitakóf og hvernig má ráða við þau er að finna inni á brjostakrabbamein.is undir Allt um hitakóf.

Hvort sem þú tekur inn hormónalyf við tíðahvarfaeinkennum eða ekki eru ýmsar breytingar á lifnaðarháttum sem þú getur gert til þess að halda líkum á brjóstakrabbameini í mögulegu lágmarki.

  • Að vera/verða hæfilega þung,

  • hreyfa sig reglulega,

  • halda áfengisneyslu í lágmarki,

  • neyta næringarríkrar fæðu,

  • byrja aldrei að reykja (eða hætta strax)

Þetta eru fáein skref sem unnt er að taka í rétta átt. 

 ÞB