Snerting við kemísk efni í snyrtivörum

Ekki er því að neita að ýmis efni í snyrtivörum verða til þess að okkur finnst við líta betur út, okkur líða betur og ilma betur en ella, en rannsóknir benda samt sterklega til þess að við ákveðin mörk kunni sum þessara kemísku efna að stuðla að því að fólk fær krabbamein. Þar sem alls kyns snyrtivörur innihalda margs konar kemísk efni í ótal samsetningum, er nær ómögulegt að benda á eina ákveðna orsök eða afleiðingu af notkun eins efnis fremur en annars.

Ljóst er þó að mörg þessara kemísku efna eru talin trufla hormónastarfsemi. Hormónaraskandi efni geta haft áhrif á hvernig estrógen og aðrir hormónar haga sér í líkamanum, ýmist með því að loka fyrir þá eða líkja eftir þeim. Þannig fer eðlileg hormónastarfsemi líkamans úr jafnvægi. Þar sem estrógen getur framkallað hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein velja margar konur að komast í eins litla snertingu og mögulegt er við kemísk efni sem kunna að haga sér eins og estrógen.

Skref sem unnt er að taka

Snyrti- og hreinlætisvörur fyrir líkamann eru búnar til úr alls kyns efnum, en það eru fyrst og fremst tveir flokkar kemískra efna sem verið er að rannsaka hvort bendla megi við myndun brjóstakrabbameins.

  • Paraben (algengustu efnin í þessum flokki eru methylparaben, propylparaben, ethylparaben og butylparaben) eru kemísk efni sem mjög eru notuð sem rotvarnarefni við framleiðslu snyrtivara, m.a. í meiki, rakakremi, hárvörum og rakkremi/geli (í algengustu tegundum svitaeyðandi krema og svitalyktareyðis eru ekki paraben). Paraben geta gengið inn í húðina og hegðað sér eins og veikt estrógen í líkamanum — og með því mögulega hrint af stað vexti hormóna-viðtaka-jákvæðs brjóstakrabbameins. Paraben hafa fundist í brjóstvef og í brjóstakrabbameinsæxlum, en það þarf ekki endilega að þýða neitt sérstakt. Paraben hafa fundist í margs konar öðrum vefjum vegna þess hve þau eru mikið notuð í alls kyns húðsnyrtivörum. 

  • Ortoísómeríð (phthalates) eru algeng og yfirleitt notuð til að festa lit og auka teygjanleika í naglalakki og hárlakki. Þessi efni er einnig að finna í ilmi af húðvörum, hreinsi- og snyrtivörum. Vitað er að ortoísómeríð (phthalates) trufla hormónastarfsemi. Þau hegða sér ekki á sama hátt og estrógen, en geta raskað starfsemi annarra hormóna sem standa í víxlverkun við estrógen, þar á meðal testósteróns.  

Til að draga úr eða forðast snertingu við ofangreind efni í snyrtivörum er konum bent á að fara inn á heimasíðurnar sem sagt er frá hér að neðan.

*Til hægðarauka fyrir íslenskar konur hefur fengist góðfúslegt leyfi til að nota samantekt af heimasíðunni www.graennapril.is sem birtist í 14. tbl. Vikunnar 2011. Greinina Hvað ætti að forðast í snyrtivörum má finna með því að smella hér.

  • Til að finna ákveðnar snyrtivörur er hægt að fara inn á heimasíðu Environmental Working Group's (EWG) Skin Deep og fletta þar upp á þeim snyrtivörum sem áhugi er á. Vörunum er gefin hættueinkunn af samtökunum sem byggist á því hvort og í hvaða mæli notkun þeirra er talin tengjast krabbameini, ofnæmi eða öðrum vanda. EWG eru samtök sem veita ráðgjöf í sambandi við umhverfis- og heilsuvernd og hafa aðsetur sitt í Bandaríkjunum.

  • The Campaign for Safe Cosmetics (EWG er aðili að þessu átaki) hefur látið útbúa samning sem framleiðendum er boðið að undirrita. Samningurinn kallast The Compact for Safe Cosmetics (þ.e. samningur um hættulausar snyrtivörur). Með því að skrifa undir samkomulagið fallast fyrirtækin á að hafa allar vörur sínar „án kemískra efna sem vitað er eða sterklega grunað að geti valdið krabbameini, stökkbreytingum í frumum eða fæðingargöllum".  Sé einhver vara á lista EWG yfir varhugaverðar vörur, vinnur fyrirtækið áætlun um að skipta út þeim efnum fyrir önnur sem öruggari eru talin innan þriggja ára og gefa opinbera skýrslu um framvinduna. Unnt er að leita á þessum vef að fyrirtækjum sem hafa skrifað undir samkomulagið og fá upplýsingar um framleiðsluvörur þeirra.

 

*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda.

ÞB