Snerting við efni til garðyrkju

Hugsanlegt er að vegna vinnu eða búsetu komist þú daglega í snertingu við tilbúin eða náttúruleg efni sem notuð eru í görðum og á grasfleti. Kemísk efni eru notuð til að drepa skordýr, halda grasflötum grænum og fá skrautjurtir til að blómstra.

Rannsóknir benda sterklega til að þegar vissu marki er náð kunni sum þeirra kemísku efna sem er að finna í þessum varningi að valda krabbameini í fólki. Hins vegar eru garðyrkjuvörur af þessu tagi samsettar úr svo margvíslegum kemískum efnum að erfitt er að sýna fram á beint samband orsakar og afleiðingar af einhverju einu ákveðnu efni.

Staðreynd er það engu að síður að talið er að mörg þessara kemísku efna séu hormónaraskandi. Hormónaraskandi efni geta haft áhrif á hvernig estrógen og aðrir hormónar haga sér í líkamanum, ýmist með því að loka fyrir þá eða líkja eftir þeim. Hvort tveggja raskar hormónajafnvægi líkamans. Þar sem estrógen getur framkallað hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein, kjósa margar konur að forðast eftir megni að komast í snertingu við efni sem geta líkt eftir estrógeni.  

Skref sem unnt er að taka

Til að halda flötinni heilbrigðri án þess að grípa til kemískra efna, gætirðu prófað eftirfarandi:

  • Sláðu blettinn sjaldnar og hafðu þá sláttuvélina í hæstu stillingu. Hávaxið gras kæfir illgresi og ræturnar vaxa dýpra. Auk þess þarf þá bletturinn minni vökvun og þolir betur skordýr og sjúkdóma.

  • Ekki setja slegið gras í poka — leyfðu því að dreifast um flötina svo að næringarefnin nái að endurnýtast. Sópaðu því sem fer út á gangstétt og heimtröð aftur út á blettinn. 

  • Veldu garðáburð sem inniheldur lítinn eða engan fosfór. Það á að vera hægt að lesa fosfórmagn áburðar með því að skoða tölurnar þrjár sem tengdar eru með bandstirki á flestum áburðarpokum. Talan í miðjunni er fosfórmagnið; fyrsta talan er köfnunarefni og þriðja talan er kalíum. Sjáirðu poka sem á stendur 18-0-18 þá eru 18% köfnunarefni, 0% fosfór og 18% kalíum af þyngd innihaldsins.

  • Berðu á flötina á haustin — ekki að vori — en þú mátt ekki bera á ef jörð er frosin eða gegnsósa af vatni (jarðvegurinn tekur þá ekki áburðinn til sín sem rennur hugsanlega eitthvert annað).

  • Ekki giska á hversu mikinn áburð þarf á flötina. Mældu jarðveginn svo að þú vitir hvers konar áburðar er þörf og hve mikið af honum. Áhöld til þess arna má fá í stóru garðvörubúðunum eða fá garðyrkjumann til að mæla.

  • Ekki vökva flötina á nóttinni og gegnvættu hana ekki. Með því að leyfa grasstráum að vera þurrum minnka líkurnar á óværu. 

  • Það er í lagi að flötin verði brún. Á þurrkatíma leggst grasið í dvala en vaknar til lífsins þegar það hefur fengið næga vökvun.

  • Veldu grastegund sem hentar staðsetningu og notkun. Ef flötin er skuggsæl og þar er spilaður fótbolti eða aðrir boltaleikir, þarf öðruvísi gras en í garð þar sem sólin skín allan daginn og engir fætur troða á því. Spyrðu um ráð hjá garðyrkjumanni eða í garðyrkjuverlun.

  • Hreinsaðu illgresi með höndunum eða notaðu gasbrennara eða sjóðandi vatn til að drepa illgresið í stað þess að nota eiturefni. Upplýsingar um illgresisbrennara má fá í verslunum sem selja garðyrkjuvörur.

ÞB