Áhrif barneigna

Meiri líkur eru á að kona sem aldrei hefur alið fullburða barn eða eignast sitt fyrsta barn eftir þrítug, fái brjóstakrabbamein samanborið við konur sem ólu barn/börn fyrir þrítugt.

Þegar brjóstafrumur mótast á kynþroskaskeiðinu eru þær mjög óþroskaðar og afar virkar allt þar til konan hefur gengið með og alið sitt fyrsta barn. Á meðan brjóstafrumurr hafa ekki náð fullum þroska eru þær mjög næmar fyrir estrógeni og öðrum hormónum, svo og fyrir hormónatruflunum frá umhverfinu. Fyrsta óslitna meðganga verður til þess að brjóstafrumurnar ná fullum þroska og taka að vaxa á reglulegri hátt en þær hafa gert fram að því. Það er meginástæða þess að í því felst vernd gegn brjóstakrabbameini að ala barn. Þungun veldur því líka að tíðahringjum fækkar sem svarar meðgöngutímanum og kann það að vera önnur skýring á því hversvegna barneignir virðast hafa verndandi áhrif.

Að ættleiða barn hefur engin áhrif á líkur á brjóstakrabbameini.

Skref sem unnt er að stíga

Að ákveða að eignast barni er afar persónuleg ákvörðun og flókin sem felur í sér mikla skuldbindingu og þörf fyrir stuðning. Að geta ekki eignast barn getur reynst afar sársaukafullt og tilhugsunin um að eignast barn án þess að hafa maka sér við hlið getur reynst sumum konum ofviða.

Sumar konur velja að eignast ekki börn. Aðrar kjósa að láta barneignir bíða þar til þær eru orðnar eldri. Margar konur sem langar til að verða ófrískar fá ekki óskir sínar uppfylltar vegna ófrjósemi. Eftir greiningu á brjóstakrabbameini kann möguleikinn á að eignast börn að dvína vegna langvarandi aukaverkana af krabbameinslyfjum (þ.á m. ófrjósemi) og langri andhormónameðferð í því skyni að koma í veg fyrir að krabbameinið taki sig upp aftur (ekki er óhætt að taka andhormónalyf á meðgöngu). Auk þess hefur ekki verið rannsakað sérstaklega hvaða áhrif meðgönguhormónar hafa á líkurnar á því að krabbamein taki sig upp hjá konum með hormóna-viðtaka-jákvætt brjóstakrabbamein.

Ef eitthvað af þessu á við þig og þig langar til að verða ófrísk, ræddu þá við lækni þinn og þið vegið og metið hugsanlega áhættu.

Eigir þú þess kost að eignast börn fyrr heldur en síðar, gætir þú hugsanlega gert einmitt það. Ákvörðunin er engu að síður afar einstaklingsbundin og margt sem getur haft áhrif á hana annað en líkur á brjóstakrabbameini.

Hvort sem þú velur að eignast börnin yngri en þú hefðir ella gert eður ei, er ýmistlegt annað sem unnt er að gera til að halda líkum á brjóstakrabbameini í mögulegu lágmarki:

  • Að vera/verða hæfilega þung,

  • hreyfa sig reglulega,

  • halda áfengisneyslu í lágmarki,

  • neyta næringarríkrar fæðu,

  • byrja aldrei að reykja (eða hætta strax)

Þetta eru fáein skref sem unnt er að taka í rétta átt. Hér til hliðar eru tenglar þar sem lesa má um fleiri möguleika.

ÞB