Kynþroski og tíðahvörf

Konur sem höfðu í fyrsta skipti á klæðum yngri en 12 ára, eru líklegri til að fá brjóstakrabbamein síðar á ævinni en þær sem eru eldri þegar þær verða kynþroska. Hið sama gildir um konur sem fara úr barneign eftir 55 ára aldur (hætta að hafa blæðingur). Á umliðnum einum og hálfum áratug hefur kynþroski stúlkna hafist sífellt fyrr. Brjóst hafa byrjað að vaxa jafnvel áður en blæðingar byrja. Þessi óvænta breyting er m.a. talin stafa af offitu sem nálgast það að vera faraldur, svo og því að óæskileg, hormónaraskandi efni finnast orðið mjög víða í umhverfinu, en aukið hormónamagn hrindir af stað vexti brjóstafrumna og kynþroska. Sá aldur sem konur fara í gegnum tíðahvörf (og úr barneign), er aftur á móti að mestu óbreyttur

Því fyrr sem brjóstin byrja að vaxa, þeim mun fyrr taka þau að bregðast við hormónum bæði í og utan líkamans svo og ýmsum efnum í varningi sem valda hormónaröskunum. Þegar árunum sem áhrif hormóna og hormónaraskandi efna fjölgar, getur það aukið líkur á brjóstakrabbameini.

Þegar stúlkur fá fyrstu tíðir mjög ungar líður yfirleitt lengri tími frá því að brjóstin byrja að þroskast fram að fyrstu meðgöngu en gerist þegar blæðingar hefjast síðar. Á þessu skeiði er brjóstavefurinn óþroskaður, ofvirkur og sérlega viðkvæmur fyrir áhrifum hormóna.

Því lengur sem konan hefur blæðingar um ævina, þeim mun lengur hafa hormónarnir estrógen og prógesterón áhrif. Allt er þetta talið tengjast auknum líkum á brjóstakrabbameini síðar á ævinni.

Skref sem unnt er að taka

Þótt þú getir ekki stjórnað því hvenær þú byrjar eða hættir að hafa blæðingar, er ýmislegt hægt að gera til að halda líkum á brjóstakrabbameini í mögulegu lágmarki:

  • Að vera/verða hæfilega þung

  • hreyfa sig reglulega

  • halda áfengisneyslu í lágmarki

  • neyta næringarríkrar fæðu

  • byrja aldrei að reykja (eða hætta strax).

Þetta eru fáein skref sem unnt er að taka í rétta átt. Stúlkur sem halda sér í hæfilegri þyngd og hreyfa sig reglulega geta hugsanlega komið í veg fyrir ótímabæran kynþroska. 

ÞB