Krabbamein í eggjastokkum og brjóstakrabbamein
Ummæli einstaklings
„Ég var í fríi árið 1971 þegar ég fór að finna fyrir ógleði og uppþembu. Ég fann fyrir verkjum í maganum, bakinu og við lífbeinið og fór til læknis á staðnum sem sagðist finna fyrir einhverju þykkildi í kviðnum. Þegar ég koma heim fór ég strax til kvensjúkdómalæknis míns sem varð meira en lítið undrandi á að finna æxli á stærð við greipaldin við hægri eggjastokkinn. Það voru ekki liðnir nema sjö mánuðir frá því að ég fór síðast í skoðun og þá fannst ekkert. Hann gerði ráð fyrir að æxlið væri góðkynja og skar mig upp daginn eftir. Daginn eftir skurðaðgerðina var ég aftur send í aðgerð; æxlið hafði sprungið á meðan ég var á skurðarborðinu og það þurfti að geisla lífhimnuna og kviðarholið. Hefðu þessar aðgerðir ekki gengið svona vel, væri ég ekki hér. Greiningin sýndi að þetta var fyrsta stigs krabbamein í slímhimnu eggjastokkanna. Ég vissi vel að margir í fjölskyldu minni höfðu dáið úr krabbameini, en datt aldrei í hug að það skipti máli fyrir mig eða líkurnar á að ég fengi sjálf krabbamein. Ég vil gjarnan trúa því að sterkt ónæmiskerfi og heilsusamlegt mataræði hafi átt stóran þátt í að ég lifði þetta af en það fæ ég aldrei að vita með vissu. Hitt veit ég, að það skiptir öllu að krabbamein í eggjastokkum finnist sem fyrst. Ekkert einkenni er svo lítilfjörlegt að ekki beri að taka mark á því og það er brýnt að allir geri sér grein fyrir því og fái nauðsynlega fræðslu.”
—Mildred
Konum sem greinst hafa með brjóstakrabbamein eða eiga nána ættingja sem greinst hafa með sjúkdóminn er hættara við krabbameini í eggjastokkum en öðrum. (Þetta á einnig við hafir þú sjálf eða náinn ættingi greinst með krabbamein í eggjastokkum, ristli eða blöðruhálskirtli.)
Krabbamein í eggjastokkum er miklu sjaldgæfara en brjóstakrabbamein. Á Vesturlöndum má segja að ein af hverjum sjö konum greinist með brjóstakrabbamein einhvern tíma á ævinni, en krabbamein í eggjastokka fær ein kona af hverjum 68. Krabbamein í eggjastokkum er því mun sjaldgæfara en brjóstakrabbamein, en það er líka hættulegra og erfitt að greina það á fyrstu stigum þess. Krabbamein í eggjastokkum greinist yfirleitt á seinni stigum sjúkdómsins og meðferðarleiðir eru fáar.
Þegar krabbamein í eggjastokkum greinist á fyrstu stigum, áður en það hefur sáð sér út fyrir eggjastokkana, ná níu af hverjum tíu konum að lifa lengur en í fimm ár. Því miður greinist aðeins fjórðungur kvenna á því stigi. Heimilis- og heilsugæslulæknar leita yfirleitt ekki einkenna þessa sjúkdóms hjá ungum konum.
Erfitt er að greina krabbamein í eggjastokkum vegna þess hve einkennin er óljós og auðvelt að rugla þeim saman við einkenni annarra sjúkdóma. Ekki er heldur til nein ein áreiðanleg og þægileg aðferð til skimunar. Ólíkt því sem gerist með brjóstakrabbamein er engin leið til sjálfsskoðunar. Hins vegar eru allar konur hvattar til að læra að hlusta á líkama sinn og taka eftir merkjum um að eitthvað sé öðruvísi en eðlilegt er.
Flestar konur sem fá krabbamein í eggjastokka hafa enga þekkta áhættuþætti. Konur á öllum aldri eiga á hættu að fá sjúkdóminn, þær sem aldrei hafa alið börn og þær sem hafa tekið inn hormóna við tíðahvarfaeinkennum lengur en í fimm ár. Það eykur einnig hættuna að nota árum saman talkúm á kynfærin. Líkur aukast með aldri. Konum sem einhvern tíma hafa greinst með brjóstakrabbamein eða þeim sem eiga marga nána ættingja sem hafa fengið brjóstakrabbamein er hættara við að fá krabbamein í eggjastokka en öðrum. Konur sem greindust með brjóstakrabbamein fyrir fimmtugt eru tvisvar sinnum líklegri til að fá krabbamein í eggjastokka en aðrar (í stað einnar af hverjum 68 fer hlutfallið í tvær af hverjum 68).
Vitað er að bæði brjóstakrabbamein og krabbamein í eggjastokkum tengist stökkbreytingum í BRCA1 og BRCA2 arfberum. Um það bil eitt af hverjum 10 tilfellum krabbameins í eggjastokkum er arfgengt. Líkur á að konur með stökkbreyttan BRCA1 arfbera greinist með krabbamein í eggjastokkum fyrir 85 ára aldur eru á bilinu 40% til 60%. Rannsóknir benda til að hjá konum með stökkbreyttan BRCA2 arfbera séu líkurnar á bilinu 16% til 27% .
Hvaða konum er hættast við að fá krabbamein í eggjastokka?
Samkvæmt Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna (National Cancer Institute) eru líkur á krabbameini í eggjastokkum miklar eigir þú
-
tvo eða fleiri nána ættingja sem greinst hafa með brjóstakrabbamein eða krabbamein í eggjastokkum,
-
einn eða fleiri náinn ættingja sem hefur greinst með brjóstakrabbamein eða krabbamein í eggjastokkum og þú ert Ashkenazy gyðingur,
-
náinn ættingja (móður, föður, systur, bróður, dóttur, son, föður- eða móðurbróður, föður- eða móðursystur, afa eða ömmu) sem hefur farið í erfðarannsókn og reynst vera með BRCA1 eða BRCA2 stökkbreyttan arfbera.
Séu líkur þínar meiri en í meðallagi, er mikilvægt að þú þekkir sjúkdóminn og getir lagt viðeigandi spurningar fyrir lækni þinn. Að auki skaltu gera ráðstafanir til að fara
-
einu sinni á ári í CA-125 rannsókn (blóðsýni),
-
árlega í ómskoðun um leggöng,
-
tvisvar á ári í grindarhols- og ristilskoðun.
Mælt er með því að fara til erfðafræðings og ræða möguleika á að fara í erfðarannsókn og hugsanlega kosti þess að fara í fyrirbyggjandi aðgerð til að láta nema brott eggjastokka og eggjaleiðara.
Einkenni krabbameins í eggjastokkum
Þótt flestir virðist telja að krabbameini í eggjastokkum sé einkennalaust ERU ENGU AÐ SÍÐUR atriði sem hægt er að hafa í huga. Einkennin sem hér eru talin upp gætu hvert og eitt stafað af öðru, en komi þau mörg saman og hverfa ekki að einhverjum tíma liðnum er rétt að leita læknis. Meðal einkenna eru:
-
Viðvarandi og vaxandi verkur í kviði, þemba og óþægindi,
-
verkur við samfarir,
-
ógleði, meltingartruflanir og vindgangur,
-
tíð þvaglát, hægðateppa, niðurgangur,
-
óeðlilegar blæðingar í leggöngum,
-
óeðlileg þreyta,
-
óeðlilegt þyngdartap eða þyngdaraukning,
-
mæði.
ÞB