Meðferð við krabbameini í eggjastokkum

Meðferð við krabbameini í eggjastokkum fer fram undir leiðsögn kvensjúkdómalæknis sem hefur sérhæft sig í að greina krabbamein í eggjastokkum, eggjaleiðurum, legi og ytri kynfærum kvenna. Hafir þú leitað til kvensjúkdómalæknis og eitthvað grunsamlegt fundist við þreifingu er oft hægt að ómskoða kviðarholið á sömu stofu. Séu ekki tæki á staðnum til ómskoðunar, má búast við að þér verði vísað beint á kvennadeild LSH (Landspítala-Háskólasjúkrahúss) þar sem hægt er að skoða þig betur.

*Finnist eitthvað grunsamlegt við reglulega skoðun á Leitarstöð krabbameinsfélagsins (með þreifingu og strokusýni), munu aðstæður ráða því hvort þú ferð í ómskoðun þar (ómskoðanir eru gerðar þar einu sinni í viku) eða þér verður vísað á kvennadeild LSH. Krabbameinsfrumur í eggjastokkum finnast ekki með strokusýni úr legi. Leiði skoðun í ljós að um krabbamein geti verið að ræða, verður þér vísað beint á LSH. Hafir þú einhvern tíma áður greinst með krabbamein og farið í meðferð, byrjarðu á að tala við krabbameinslækni þinn.

Ýmsar aðferðir eru notaðar til að ganga úr skugga um hvað er á ferðinni. Meðal þess eru tölvusneiðmyndir, ómskoðanir, grindarholsspeglun, ristilspeglun og kviðarholsspeglun.

Rannsóknirnar gera læknum kleift að ákvarða hvort krabbamein er fyrir hendi og sé svo, hver útbreiðsla þess er og hve mikið þarf að nema brott.

Fyrsta aðgerð og stiggreining krabbameins í eggjastokkum er afar mikilvæg þegar að því kemur að ákveða hvaða meðferð er vænlegust til árangurs og getur hún skipt sköpum fyrir lífslíkur sjúklings.

Á sama hátt og brjóstakrabbamein er flokkað í stig er krabbamein í eggjastokkum einnig greint í mismunandi stig. Eftir því sem talan hækkar frá I upp í II, III og IV, er útbreiðsla sjúkdómsins meiri og ástandið alvarlegra. Meðferðarleiðir ráðast af því á hvaða stigi krabbameinið er.

Stig I: Krabbamein finnst í öðrum eða báðum eggjastokkum.

Stig II: Krabbamein finnst í öðrum eða báðum eggjastokkum og hefur dreift sér til annarra hluta grindarholsins.

Stig III: Krabbamein finnst í öðrum eða báðum eggjastokkum og hefur sáð sér í nærliggjandi eitla eða til einhverra líffæra í kviðarholi annarra en lifrar.

Stig IV: Krabbamein finnst í öðrum eða báðum eggjastokkum og hefur sáð sér til lifrar eða svæða utan kviðarhols.

Markmiðið með skurðaðgerð er fjarlægja eins mikið af meininu og kostur er. Skurðaðgerð við krabbameini í eggjastokkum á stigi II, III og IV felur yfirleitt í sér að báðir eggjastokkar eru fjarlægðir, legið, eggjaleiðarar og þarmanetjan (bandvefsfellingar sem ganga út frá lífhimnunni, klæða þarmanna og safna í sig fitu). Sé krabbameinið á stigi I, er annar eða báðir eggjastokkar fjarlægðir en ekki snert við öðrum líffærum. Finnist krabbamein aðeins í öðrum eggjastokknum, eru þess dæmi að hann sé fjarlægður en hinn skilinn eftir.

Skurðaðgerð er yfirleitt fylgt eftir með krabbameinslyfjameðferð. Sum þeirra lyfja sem notuð eru við brjóstkrabbameini má einnig nota við krabbameini í eggjastokkum. Yfirleitt er þó samsetning lyfjanna og tímasetning önnur við meðferð á krabbameini í eggjastokkum en brjóstakrabbameini. Meðan á meðferð stendur og eftir að henni lýkur fylgjast læknar með framvindunni með grindarholsskoðun og blóðsýnatökum. Þá er leitað að CA-125 (æxlisvísum). Þótt þessi rannsókn sé ekki mjög áreiðanleg getur hún þó hugsnlega leitt í ljós hvort sjúkdómurinn hefur tekið sig upp hjá konum sem þegar hafa farið í meðferð við krabbameini í eggjastokkum.

*Málsgreinar merktar stjörnu eru staðfærsla þýðanda.

ÞB