Altækar líkur gegnt hlutfallslegum líkum: Hvað merkja prósentutölurnar í raun?

Mikilvægt er fyrir þig að vita að það að takmarka áfengisneyslu og stunda hreyfingu reglulega getur minnkað líkurnar á að fá brjóstakrabbamein. En trúlega viltu gjarnan vita hve miklu það breytir í þá átt að minnka líkurnar að stíga þessi skref, þ.e. að takmarka neyslu áfengis og hreyfa þig reglulega.

Hið sama á við ef þú hefur greinst og læknirinn segir þér að ákveðin meðferð geti minnkað líkurnar á að sjúkdómurinn taki sig upp um 40%, þá viltu sjálfsagt vita hvað það þýðir í rauninni fyrir þig.

Að skilja hugtökin hlutfallsegar líkur og altækar líkur og muninn á þeim getur hjálpað þér að átta þig á hverjar eru þínar eigin líkur á brjóstakrabbameini.

Hlutfallslegar líkur er sú tala sem segir hve mikið eitthvað sem þú gerir, eins og til dæmis að halda þér í kjörþyngd, getur breytt líkum þínum samanborið við að vera of þung. Hlutfallslegar líkur má tákna með minnkun í prósentum eða aukningu í prósentum. Ef eitthvað sem þú gerir eða tekur inn breytir líkunum ekki neitt, þá er hlutfallslega minnkunin 0% (enginn munur). Ef eitthvað sem þú gerir eða tekur inn minnkar líkurnar um 30% miðað við einhvern sem ekki gerir hið sama, þá minnkar þessi verknaður líkurnar um 30%. Ef eitthvað sem þú gerir þrefaldar líkur þínar, þá er hlutfallsleg aukning á líkum 300%.

Altækar líkur eru þínar eigin líkur. Minnkun á þínum eigin altæku líkum er sá fjöldi prósentustiga sem líkur þínar minnka um þegar þú gerir eitthvað ákveðið til að vernda þig, eins og til dæmis að hætta að neyta áfengis. Útkoman (prósentutalan) sem fæst eftir minnkun, fer eftir því hverjar þínar eigin altæku líkur voru til að byrja með.

Áhættuhlutfall. Stundum nota læknar þetta hugtak þegar líkurnar eru ræddar. Áhættuhlutfallið gerir ráð fyrir að altækar líkur þínar séu 1 ef eitthvað sem þú gerir eða tekur inn breytir líkunum ekki neitt. Ef eitthvað sem þú gerir eða tekur inn minnkar líkurnar um 30% samanborið við einhvern sem ekki gerir hið sama, þá breytir sá verknaður áhættuhlutfallinu í 0,70 af því sem það var án þessa tiltekna verknaðar, (þ.e.a.s. líkurnar eru 30% minni). Ef þú gerir eitthvað sem þrefaldar líkurnar verður áhættuhlutfallið 3,0 (líkurnar eru 3 sinnum meiri en þær voru áður en þú gerðir það sem jók líkurnar).

ÞB