Fitusnautt fæði kann að draga úr líkum á að brjóstakrabbamein taki sig upp

R.T. Chlebowski o.fl., ársfundur American Society of Clinical Oncology, maí 2005. Úrdráttur nr. 10.

Er þetta fyrir mig? Sértu komin yfir tíðahvörf, hefur fengið brjóstakrabbamein og fýsir að vita hvernig mataræði getur haft áhrif á líkur á að fá það aftur, gætirðu haft gagn af að lesa þessa grein.

Bakgrunnur og mikilvægi rannsóknarinnar: Rannsakendur hefur lengi grunað að það kunni að draga úr líkum á að brjóstakrabbamein taki sig upp að minnka fitumagn í fæðu. Fyrri rannsóknir hafa hins vegar ekki leitt í ljós óyggjandi sannanir fyrir því.

Að rannsaka samband mataræðis og brjóstakrabbameins er flókið mál. Ástæðan er sú að kona sem heldur sig við fitusnautt mataræði er einnig líkleg til að velja fleira sem getur stuðlað að bættri heilsu. Hér eru tvö dæmi:

  • Fólk sem leitast við að neyta minni fitu, borðar venjulega meira af ávöxtum og grænmeti en aðrir. Í ávöxtum og grænmeti eru ákveðin plöntuefni (phytochemicals) sem geta dregið úr hættu á brjóstakrabbameini. Leiði því rannsókn í ljós að fitusnautt fæði dragi úr líkum á að sjúkdómurinn taki sig upp, er ástæðan þá sú að minni fitu var neytt, meiri plöntuefna, eða hvort tveggja?

  • Sé kona á fitusnauðu fæði er líklegt að hún léttist vegna þess að fitusnautt mataræði er einnig snauðara af hitaeininum. (Að neyta minni fitu ÁN ÞESS að fækka hitaeiningum framkallar lítið eða ekkert þyngdartap.) Aðrar rannsóknir hafa sýnt að það getur aukið líkur á að fá aftur krabbamein umtalsvert að vera of þungur. Af þessum sökum telja margir rannsakendur líklegt að það að léttast dragi úr hættu á að veikjast aftur. Þessi möguleiki hefur hins vegar ekki enn verið kannaður. Sýni þess háttar rannsókn að fitusnautt fæði dragi úr hættu á að krabbamein taki sig upp, er það þá vegna þess að minni fitu var neytt eða af því að líkamsþyngdin fór niður á við eða hvort tveggja?

Rannsóknin sem hér er verið að segja frá er kölluð á ensku Women's Intervention Nutrition Study (um fæðuval kvenna) og er fjármögnuð af Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna (National Cancer Institute) og Rannsóknastofnun í krabbameinsfræðum (The Breast Cancer Research Foundation). Rannsakendur vildu komast að því hvort það að neyta að jafnaði fitulítillar fæðu minnkaði líkur á að krabbamein tæki sig upp aftur hjá konum sem komnar voru yfir tíðahvörf og áttu krabbameinssögu að baki. Í fitusnauða fæðinu var fituneyslan um það bil 25% af þeim hitaeiningum sem neytt var daglega. Til samanburðar er reiknað með að í venjulegu mataræði fáist um 30% til 50% hitaeininga úr fitu.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin fór fram á 37 stöðum í Bandaríkjunum og náði til 2.437 kvenna sem komnar voru yfir tíðahvörf en með brjóstakrabbamein á fyrstu stigum (ekki meinvarpskrabbamein). Allar höfðu konurnar farið í skurðaðgerð – ýmist í brjóstnám eða fleygskurð auk þess að fara í geislameðferð. Konurnar voru á aldrinum 48 til 79 ára.

Eftir skurðaðgerðina fengu:

  • Konur með brjóstakrabbamein með estrógenviðtökum meðferð með tamoxifeni og gátu valið hvort þær vildu geislameðferð.

  • Konur með brjóstakrabbamein án estrógenviðtaka meðferð með krabbameinslyfjum.

Rannsakendur skiptu konunum í tvo hópa:

  • Um það bil 40% (975 konur) fengu það hlutverk að neyta fitusnauðrar fæðu. Konurnar fengu mikla og góða ráðgjöf – átta einkaviðtöl tvisvar í mánuði hjá næringarfræðingi í upphafi breytinga á mataræði og síðun var þeim fylgt eftir á þriggja mánaða fresti – til að hjálpa þeim að skera niður fitu og fylgjast með því hvað þær borðuðu.

  • Um 60% (1.462 konur) voru beðnar um að halda sig við óbreytt mataræði. Þessar konur fengu enga ráðgjöf í fæðuvali.

Konunum var skipt af handahófi í tvo hópa en áttu það þó sameiginlegt að vera

  • með krabbamein á sama stigi,

  • á svipuðum aldri,

  • með þætti sem vitað er að hafa áhrif á líkur á að sjúkdómurinn taki sig upp.

Rannsakendur fylgdust með konunum í um það bil fimm ár til að kanna hve margar þeirra voru lausar við krabbamein og hve margar höfðu fengið krabbamein á ný að þeim tíma liðnum.

Niðurstöður: Eftir fimm ár var niðurstaðan sú að konur á fitusnauðu fæði neyttu að jafnaði 33 gramma af fitu á dag, en konurnar í hinum hópnum neytu að meðaltali 51 gramms af fitu á dag.

Krabbamein tók sig upp hjá 9,8% kvenna í hópnum sem neytti fitusnauðrar fæðu en hjá 12,4% kvenna sem voru á venjulegu fæði. Það þýðir að fitusnauða fæðið tengdist 2,6% “altækri minnkun á líkum”, þ.e. 12,4% mínus 9,8%. “Hlutfallsleg minnkun á líkum” var 24% (vegna þess að 2,6% altæk minnkun á líkum er um það bil einn fjórði af 9,8% niðurstöðunni).
Konur með brjóstakrabbamein ÁN estrógenviðtaka – um það bil ein af hverjum fimm í rannsókninni – virtust hafa mest gagn af að breyta mataræðinu. Líkur á að þær konur fengju aftur krabbamein voru 42% minni, héldu þær sig við fitusnautt fæði. Konur með brjóstakrabbamein MEÐ estrógenviðtökum á fitusnauðu fæði sýndu ekki marktækan árangur, sem þýðir að sú minnkun sem varð á líkum gat verið tilviljun ein. Gagnsemi fitusnauðrar fæðu virðist því samkvæmt þessari rannsókn einskorðast við konur með brjóstakrabbamein án estrógenviðtaka.

Ályktun: Rannsakendur drógu þá ályktun að fitusnautt fæði gæti dregið úr líkum á að kona komin úr barneign fái brjóstakrabbamein á ný.

Lærdómur sem draga má: Þetta er mikilvæg rannsókn sem kannaði hvað sérhver kona getur gert – daglega – til að stuðla hugsanlega að því að draga úr líkum á að hún fái krabbamein á ný. Með fitusnauðu mataræði (um það bil 25% af daglegum hitaeiningum úr fitu) mátti sjá minnkandi líkur á að krabbamein tæki sig upp hjá konum sem höfðu einhvern tíma fengið brjóstakrabbamein án estrógenviðtaka. Þegar hér er komið sögu í rannsókninni er hins vegar ekki að sjá neina marktæka minnkun á líkum á að krabbamein taki sig aftur upp hjá konum sem hafa fengið brjóstakrabbamain með estrógenviðtökum.

Allt sem rekja má til mataræðis og leiðir til þess að draga úr líkum á að krabbamein taki sig upp, er afar áhugavert. Hugsanlegt er að með því að vera á fitusnauðu fæði velji konur jafnframt ýmislegt annað sem getur minnkað líkurnar. Þetta “annað” getur tengst lifnaðarháttum þeirra og öðrum breytingum á mataræði og gæti meðal annars falist í því að borða meira af grænmeti og ávöxtum - og léttast. Ef til vill má hugsa sér að með því að neyta minna af feitu, rauðu kjöti eða mjólkurafurðum hafi konurnar á fitusnauða fæðinu einnig tekið inn minna magn af hormónum og sýklalyfjum eða skordýraeitri. Margir telja ekki óhætt að borða rautt kjöt og mjólkurafurðir vegna þess að í þeim kunni að vera mikið af hormónum eða skordýraeitri úr fæðu kvikfénaðar og það geti aukið hættu á að fá krabbamein. Fróðlegt væri einnig að vita hvort minni líkur voru á að konurnar á fitusnauðu fæði reyktu eða neyttu áfengis og hvort meiri líkur voru á að þær stunduðu reglulega hreyfingu en hinar. Þessir þættir gætu einnig haft sitt að segja.

Við vitum allar hversu erfitt er að halda sig við fitusnautt fæði mánuðum og árum saman. Konurnar sem tóku þátt í þessari rannsókn þurftu áreiðanlega að beita sig hörðu til að halda sig við áætlunina. Sem betur fer þurftu þær samt ekki að gera það einar og óstuddar. Stór þáttur í því að taka þátt í rannsókninni var að fá með reglulegu millibili markvissa einkakennslu hjá fæðuráðgjafa og hvatningu frá næringarfræðingum. Þar sem vitað er hversu mikill máttur stuðningshópa getur verið er því hugsanlegt að það að fá þennan stuðning hafi út af fyrir sig haft þau jákvæðu áhrif að draga úr hættu á að krabbameinið tæki sig upp.

Með annarri klínískri rannsókn á heilsusamlegu mataræði kvenna og lífsgæðum þeirra (Women's Healthy Eating and Living Well Study) er nú kannað hvort fitusnautt grænmetisfæði geti minnkað líkur á að brjóstakrabbamein taki sig upp hjá konum með brjóstakrabbamein á stigum I, II og IIIA. Með því að skoða mataræði kvennanna í heild vonast rannsakendur til að geta aflað meiri vitneskju um hvernig samsetning fæðu getur haft áhrif á líkur þess að krabbamein taki sig upp. Þegar niðurstöður liggja fyrir verða þær birtar á brjostakrabbamein.is.

Talaðu við lækni þinn fýsi þig að minnka magn fitu í daglegri fæðu. Kynntu þér efni sem er að finna inni á Mataræði og næring í hlutanum um Bata og endurnýjun. Einnig geturðu tekið þann kost að panta tíma hjá viðurkenndum næringarráðgjafa, helst einhverjum sem hefur reynslu af að vinna með krabbameinssjúkum.

Haltu endilega áfram að fylgjast með brjostakrabbamein.is til að fá frekari fréttir af næringu og brjóstakrabbameini, þar á meðal ákveðnari niðurstöður úr þessari umræddu rannsókn. Hugsanlegt er að niðurstöður breytist síðar meir þegar fylgst hefur verið lengur með konunum.

*Smám saman mun bætast við á brjostakrabbamein.is meira um næringu t.d. sem lið í óhefðbundnum lækningum. Forvitnilegar upplýsingar sem ekki eru hluti af http://www.breastcancer.org finnurðu með því að smella hér.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB