Hreyfing eftir meðferð kann að auka lífslíkur
Hreyfing eftir meðferð við brjóstakrabbameini kann að auka lífslíkur og draga úr hættu á að meinið taki sig upp
M.D.Holmes o.fl. Journal of the American Medical Association, 25. maí 2005
Er þetta fyrir mig? Þú gætir haft áhuga á að lesa þessa grein til að komast að því hvernig reglulega hreyfing eða líkamsæfingar geta hjálpað þér að lokinni meðferð við brjóstakrabbameini.
Bakgrunnur og mikilvægi könnunarinnar: Rannsóknir hafa sýnt að fjögurra klukkustunda hreyfing á viku getur dregið úr líkum á að fá brjóstakrabbamein. Ekki er ljóst hvers vegna hreyfing hefur þessi áhrif, en ein ástæðan kann að vera sú að hreyfing minnkar magn estrógens í líkamanum. Estrógen - hormón (lífrænt efnasamband sem myndast í innkirtlum og hefur áhrif á ákveðinn þátt líkamsstarfseminnar) - getur örvað vöxt sumra tegunda brjóstakrabbameins. Því ekki fráleitt að álykta sem svo að það geti dregið úr hættu á brjóstakrabbameini að vera með minna estrógen en meira.
Aðrar rannsóknir á sambandi hreyfingar og brjóstakrabbameins sýndu að hreyfing styrkir ónæmiskerfið, stuðlar að því að draga úr þyngdaraukningu af völdum krabbameinslyfja og dregur úr aukaverkunum lyfjameðferðar við brjóstakrabbameini. Enn aðrar rannsóknir hafa leitt í ljós að hreyfing eykur sjálfstraust og getur dregið úr þunglyndi, kvíða og þreytu.
Of þungar konur eiga það fremur á hættu en þær sem grennri eru að fá brjóstakrabbamein eftir tíðahvörf. Líklega stafar það af því að umfram fitufrumur framleiða ýmsa hormóna, þar á meðal estrógen. Aðrar rannsóknir sýna að það að vera of þung getur aukið hættu á að brjóstakrabbamein taki sig upp hjá konum sem hafa fengið sjúkdóminn. Regluleg hreyfing getur dregið úr fitumagni líkamans og stuðlað að þyngdartapi.
Þau margvíslegu góðu áhrif sem hreyfing virðist hafa kveikti hugmynd um að kanna hvort hreyfing gæti einnig dregið úr hættu á að konur sem höfðu farið í meðferð við brjóstakrabbameini fengju sjúkdóminn á ný. Í rannsókninni sem hér er sagt frá leituðust rannsakendur við Harvard Medical School og Dana Farber Cancer Institute við að komast að því hvort hreyfing að lokinni meðferð við brjóstakrabbameini yki lífslíkur jafnframt því að draga úr líkum á að sjúkdómurinn tæki sig upp aftur. Rannsóknin var kostuð af The National Institute of Health – Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna.
Efniviður og aðferðir: Rannsakendur notuðu niðurstöður sem fengust úr svokallaðri “hjúkrunarkvennakönnun” (NHS = Nurses' Health Study) til að velja sér hóp kvenna til að rannsaka. Frá því á árinu 1976 hefur NHS fylgst með 121.700 konum sem allar eru skráðar sem hjúkrunarfræðingar. Þegar rannsóknin hófst voru konurnar á aldrinum 30-55 ára. Enn er fylgst með þeim og lagðar fyrir þær spurningar viðvíkjandi heilsufari annað hvort ár.
Af konunum 121.700 í NHS könnuninni höfðu 4.484 greinst með illkynja brjóstakrabbamein. Í könnuninni sem hér er til umfjöllunar voru athuguð afdrif 2.987 kvenna sem höfðu greinst með I., II. og III. stig ífarandi brjóstakrabbameins á árunum 1984 til 1988.
Skoðað var hversu mikla hreyfingu konurnar fengu í hverri viku um það bil tveimur árum eftir að þær greindust. Vegna þess að margar konur eru of þreyttar til að stunda líkamsrækt á meðan þær eru að ná sér eftir skurðaðgerð eða í lyfja- eða geislameðferð, kusu rannsakendur að meta ekki hversu mikið þær hreyfðu sig fyrr en eftir að meðferð var lokið að fullu. Konunum var fylgt eftir þar til í júní 2002.
Konurnar voru spurðar að því hversu miklum tíma þær verðu í hverri viku í að:
-
fara í skemmri eða lengri gönguferðir,
-
skokka eða hlaupa,
-
hjóla,
-
synda,
-
leika tennis,
-
gera þolfimiæfingar eða dansæfingar,
-
róa (í róðrartæki),
-
leika badminton eða veggtennis,
-
gera jógaæfingar,
-
leysa af hendi erfiðisstörf (eins og að slá garðflötina).
Jafnframt voru þær beðnar um að skilgreina sinn venjulega gönguhraða; hægur, venjulegur, rösklegur, mjög hraður, ekki hægt að ganga á þeim hraða.
Rannsakendur gáfu hverjum gönguhraða ákveðinn stigafjölda – METstig (Metabolic Equivalent Task) – sem segir hversu mikil brennsla fylgir hverjum gönguhraða. METstig er mælikvarði á það hversu mikil orka fer í hverja tegund hreyfingar sé hún framkvæmd í eina klukkustund. Sem dæmi má taka að gönguferð á venjulegum gönguhraða í eina klukkustund reiknast 3 METstig, að hlaupa jafnlengi reiknast 12 METstig. Rannsakendur reiknuðu saman METstundir vikunnar fyrir hverja tegund hreyfingar. Hefði kona til dæmis gengið á venjulegum gönguhraða í fjórar klukkustundir á viku, komu út úr því 12 METstundir (4 klst x 3 METstig).
Rannsakendur skoðuðu jafnframt eftirfarandi upplýsingar um hverja konu:
-
stærð krabbameinsæxlis,
-
hvort krabbamein fannst í eitlum,
-
meðferð við brjóstakrabbameini (allar tegundir),
-
hversu langur tími leið þar til krabbamein tók sig upp á ný,
-
hvort brjóstakrabbamein varð dánarmein konunnar,
-
hversu langt var liðið frá tíðahvörfum eða hvort hún var enn í barneign,
-
hve gömul hún var við fyrstu þungun,
-
notkun hormóna eftir tíðahvörf,
-
notkun getnaðarvarnapillunnar,
-
líkamsmassastuðul (BMI=Body Mass Index),
-
mataræði.
Niðurstöður: Konurnar sem hreyfðu sig meira en þrjár METstundir á viku minnkuðu hlutfallslegar líkur á að brjóstakrabbamein tæki sig aftur upp miðað við konur sem æfðu minna. Konur sem hreyfðu sig meira en þrjár METstundir á viku bættu sömuleiðis lífslíkur sínar (drógu úr hlutfallslegum líkum á að deyja úr brjóstakrabbameini) samanborið við konur sem hreyfðu sig minna.
Hlutfallslegar líkur er talan sem segir þér hversu mikið eitthvað sem þú gerir, eins og til dæmis það að stunda líkamsrækt, getur breytt líkum þínum samanborið við líkur þínar ef þú stundar enga líkamsrækt. Taflan hér að neðan sýnir fjölda METstunda og áhrif þeirra til minnkunar á hlutfallslegar líkur kvenna á að fá krabbamein á ný svo og hlutfallslega aukningu á lífslíkum.
Fjöldi MET stunda á viku |
Fjöldi kvenna sem hreyfðu sig svo mikið |
Minnkun á hlutfallslegum líkum á að meinið taki sig upp |
Hlutfallsleg aukning á lífslíkum |
3,0 til 8,9 |
862 |
17% |
20% |
9,0 til 14,9 |
335 |
43% |
50% |
15,0 til 23,9 |
428 |
34% |
44% |
24 eða meira |
403 |
26% |
40% |
Af þeim 2.987 konur sem könnunin náði til voru 959 konur sem æfðu sig eða hreyfðu skemur en þrjár METstundir á viku.
Að hreyfa sig í 9 til tæplega 20 METstundir á viku virðist gefa besta raun. Hafðu hugfast að sem kvarða nota rannsakendur METstundir , ekki klukkustundir. Níu METstundir jafngilda því að ganga á venjulegum hraða í um það bil þrjár klukkustundir.
Hafðu líka hugfast að í töflunni hér að ofan eru sýndar HLUTFALLSLEGAR tölur sem kunna að virðast ærið háar, en þær eru ekki ALTÆKAR. Munurinn á þessu tvennu er útskýrður aftar í þessari grein.
Hreyfing og meinafræði krabbameinsæxlis
Við útreikninginn sem sýnir minnkandi líkur á að mein taki sig upp á ný, tóku rannsakendur tillit til ýmissa þátta sem geta skipt máli eins og stærðar æxlis, ástands eitla og stöðu hormónaviðtaka. Þeir komust að því að hreyfing virtist nýtast betur konum með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum heldur en konum með brjóstakrabbamein án hormónaviðtaka.
-
Af konum með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum bættu þær sem hreyfðu sig níu eða fleiri METstundir á viku (609 konur) hlutfallslegar lífslíkur sínar um 50% samanborið við þær sem hreyfðu sig minna en níu METstundir á viku (955 konur).
-
Af konum með brjóstakrabbamain án hormónaviðtaka, bættu þær sem hreyfðu sig níu METstundir eða meira á viku (149 konur) hlutfallslegar lífslíkur sínar aðeins um 9% samanborið við konur sem hreyfðu sig minna en níu METstundir á viku (272 konur).
Hreyfing og líkamsþyngd
Konur sem voru yfir meðallagi að þyngd höfðu meira gagn af hreyfingu en þær sem voru í meðalþyngd:
-
Af þungum konunum bættu þær sem hreyfðu sig í 24 eða fleiri METstundir á viku (157 konur) hlutfallslegar lífslíkur sínar um 48% miðað við þær sem hreyfðu sig minna en 3 METstundir á viku (522 konur).
-
Meðalþungar konur sem hreyfðu sig í 24 eða fleiri METstundir á viku (246 konur) bættu hlutfallslegar lífslíkur sínar um 39% miðað við þær sem hreyfðu sig minna en 3 METstundir á viku (437 konur).
Konur voru settar í flokk þungra kvenna ef líkamsmassastuðull þeirra (BMI) var 25 eða meira.
Ef þig langar til að reikna út líkamsmassastuðul þinn geturðu smellt á undirstrikuðu orðin: BMI reiknivél.
Hreyfing og sjúkdómsstig
Hreyfing kom konum sem voru með I. og II. stigs krabbamein að góðu gagni, en virtist gagnast þeim konum sérlega vel sem voru með sjúkdóminn á III. stigi (aðeins 205 konur). Konur með III. stigs krabbamein sem stunduðu hreyfingu í níu eða fleiri METstundir á viku (76 konur) bættu hlutfallslegar lífslíkur sínar um 64%, samanborið við aðrar konur með III. stigs krabbamein sem hreyfðu sig minna en níu METstundir á viku (129 konur).
Lifendahlutfall
Eftir fimm ár voru 97% kvenna sem hreyfðu sig í þrjár METstundir eða fleiri á viku ennþá lifandi samanborið við 93% hjá konum sem hreyfðu sig minna en þrjár METstundir á viku.
Eftir tíu ár var lifendahlutfallið:
-
86% hjá konum sem hreyfðu sig minna en þrjár MET stundir á viku
-
92% hjá konum sem hreyfðu sig meira en níu METstundir á viku
-
89% hjá konum sem hreyfðu sig meira en þrjár og minna en 9 METstundir á viku.
Ályktanir
Rannsakendur drógu þá ályktun að konur sem hreyfa sig meira en þrjár METstundir á viku eftir að hafa greinst með brjóstakrabbamein geti hugsanlega minnkað líkur á að meinið taki sig upp aftur og bætt lífslíkur sínar. Konur með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum virðast njóta verndandi áhrifa hreyfingar í mestum mæli. Hreyfing sem samsvaraði því að ganga þrjár til fimm klukkustundir á viku á venjulegum hraða virtist gefa bestan árangur. Hreyfing umfram það skilaði sér ekki í þessu tilliti.
Lærdómur sem draga má af rannsókninni:
Þetta er umfangsmikil rannsókn sem gefur gagnlegar upplýsingar um mikilvægt málefni: Er bót að hreyfingu eftir að hafa greinst með brjóstakrabbamein?
Hreyfing gerir þér gott. Því meiri hreyfing, þeim mun betra – upp að vissu marki. Að hreyfa sig í þrjár til níu METstundir á viku skilar betri árangri en að hreyfa sig minna en þrjár METstundir á viku. Þeim konum farnaðist best sem hreyfðu sig í 9 til 15 METstundir á viku. (Það eru um það bil þrjár til fimm klukkustundir á göngu á venjulegum hraða.) Að hreyfa sig meira en 15 METstundir bætti engu við árangurinn.
Allar konurnar virtust hafa gott af hreyfingu, en sumum virtist hún gagnast betur en öðrum:
-
Konur með brjóstakrabbamein með hormónaviðtökum höfðu meira gagn af hreyfingu en konur með brjóstakrabbamein án hormónaviðtaka.
-
Konum sem voru í yfirvigt gagnaðist hreyfingin betur en konum sem vógu minna og töldust vera nær kjörþyngd.
-
Konur með III. stigs krabbamein höfðu meira gagn af hreyfingu en konur með krabbamein á I. eða II. stigi. (Þar sem aðeins voru 76 konur með III. stigs krabbamein í hópnum “meiri hreyfing” er ekki víst að niðurstöður stæðust rannsókn með þátttöku fleiri kvenna).
Ljóst er að hreyfing gerir þér gott á marga og mismunandi vegu: hún léttir lund, eykur orku, styrkir vöðva og bein, mýkir liði, örvar blóðrás, hreinsar og styrkir lungun – og sennilega er hún einnig heilsusamleg fyrir brjóstin. En þú þarft samt að setja þetta í samhengi:
-
Lifendahlutfallið eftir fimm ár hjá konum sem hreyfðu sig í þrjár eða fleiri METstundir á viku var 97%, ekki ýkja fjarri 93% líkum hjá þeim sem hreyfðu sig minna. Og lifendahlutfall eftir 10 ár hafði einnig hækkað upp í 86% hjá þeim konum sem hreyfðu sig minna en þrjár METstundir á viku, samanborið við 89% hjá þeim sem hreyfðu sig allt að níu METstundir á viku og 92% hjá þeim sem hreyfðu sig meira. Áhrif og árangur hreyfingar sást því í öllum tilfellum.
-
Hlutfallslegu líkindatölurnar eru mjög háar – um 50% aukning á lífslíkum hjá konum sem hreyfa sig á milli 9 og 15 METstundir á viku. Þessi háa tala skreppur hins vegar saman ef þú skoðar hvað hún þýðir í ALTÆKRI minnkun á líkum. Segjum að líkurnar á að þú fáir aftur krabbamein fari úr 5% niður í 2,5%. Þá er það hlutfallsleg minnkun upp á 50% (50% af 5% eru 2,5%), en altæku líkurnar hafa aðeins minnkað um 2,5% (5% mínus 2,5% = 2,5%).
Erfitt getur verið að byrja að hreyfa sig reglulega. Fjórar klukkustundir á viku hljómar eins og eitthvað óviðráðanlegt, einkum ef þú hefur aldrei verið gefin fyrir hreyfingu og líður best í sófanum fyrir framan sjónvarpið eða ert ennþá aum eftir uppskurð, of önnum kafin vegna geislameðferðar eða orkulaus vegna lyfjameðferðar. Það er erfitt að neyða sjálfan sig til að hreyfa sig þegar kraftarnir rétt nægja til að komast fram úr rúminu eða upp úr sófanum.
Hreyfing er samt mikilvægt innihald í uppskriftinni að góðri heilsu. Stefndu á að hreyfa þig í þrjár klukkustundir eða meira í hverri viku. Ef þú ert ekki að stunda neins konar hreyfingu eins og er, reyndu þá að koma þér af stað þótt í litlu sé og auka svo hreyfinguna smátt og smátt. Ekki dæma sjálfa þig þótt þú hafir lítið hreyft þig til þessa. Þú getur byrjað strax í dag. Ef aðrir sjúkdómar eða kvillar hafa komið í veg fyrir að þú hreyfðir þig, svo sem liðagigt eða vöðvagigt, fáðu þá ráðleggingar hjá lækni þínum, sjúkraþjálfa eða iðjuþjálfa um leiðir til að auka hreyfingu án vandræða. *Hjá Gigtarfélagi Íslands er margs konar fræðslu og stuðning að fá: http://www.gigt.is. Ef þunglyndi er að ræna þig orku og löngun til að hafast að, leitaðu þá hjálpar hjá heimilislækni þínum, sálfræðingi eða geðlækni.
Hreyfing framkallar alls kyns efna- og hormónabreytingar í líkamanum. Það er hins vegar margt sem enn er ekki vitað í sambandi við hreyfingu, til dæmis hvers vegna eða hvernig hún dregur úr hættu á að krabbamein taki sig upp hjá konum sem áður hafa greinst og farið í meðferð við brjóstakrabbameini eða hvernig hreyfing kann að auka lífslíkur þeirra og lengja ævina.
*Málsgrein merkt með stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB