Hreyfing kann að minnka líkur á brjóstakrabbameini
Cancer, 15. nóvember 2003
A.Patel o.fl.
Bakgrunnur og mikilvægi rannsóknar: Allar konur vilja vita hvort þær geta gert eitthvað til að draga úr líkum á brjóstakrabbameini. Hafir þú einhvern tíma greinst með brjóstakrabbamein viltu örugglega fá að vita hvernig þú getur dregið úr líkum á að fá það aftur. Eitt atriði sem vísindamenn hafa skoðað er mataræði. Þeir hafa áhuga á að vita hvaða fæðutegundir geta hugsanlega haft áhrif á líkur á brjóstakrabbameini. Hreyfing er annað sem einnig hefur verið skoðað.
Hreyfing getur haft áhrif á magn estrógens í líkamanum. Estrógen er hormón sem getur örvað vöxt ákveðinna tegunda brjóstakrabbameins og þess vegna er ekki fjarri lagi að álykta að minna af estrógeni kunni að draga úr líkum á brjóstakrabbameini.
Með rannsóknum hefur einnig verið sýnt fram á að það að vera of þung getur aukið líkur á að brjóstakrabbamein taki sig upp. Líkur á að fá brjóstakrabbamein í fyrsta sinn eru einnig meiri hjá of feitum konum en þeim sem eru grennri. Umframfita framleiðir estrógen. Regluleg hreyfing getur hjálpað þér til að hafa stjórn á líkamsþyngd svo að þú sért ekki með óþarfa fitu. Það er einn af mörgum kostum hreyfingar sem getur komið öllum konum að gagni, hvort sem þær hafa greinst með brjóstakrabbamein eða ekki.
Rannsóknir á tengslum hreyfingar og brjóstakrabbameins hafa einnig leitt í ljós að hreyfing á þátt í að styrkja ónæmiskerfið, stuðlar að því að koma í veg fyrir þyngdaraukningu af völdum lyfjameðferðar og getur einnig dregið úr aukaverkunum meðferðarinnar.
Engar beinar sannanir hafa fundist – að öðrum þáttum undanskyldum svo sem mataræði og líkamsþyngd – fyrir því að hreyfing dragi úr líkum á brjóstakrabbameini. Markmið umræddrar rannsóknar var að leita að þess háttar sönnunum.
Efniviður og aðferðir: Rannsakendur við Háskólann í Suður Kaliforníu (University of Southern California) töluðu við 567 konur sem höfðu nýlega greinst með staðbundið krabbamein (ekki ífarandi), en það ástand er talið tengjast aukinni hættu á illkynja eða ífarandi brjóstakrabbameini. Einnig var talað við 616 konur sem ekki höfðu greinst með krabbamein. Konurnar í hópunum tveimur höfðu áþekkan líkamsmassastuðul (þyngd deilt með hæð), voru á svipuðum aldri, af sama kynþætti og bjuggu á svipuðum slóðum.
Rannsakendur spurðu konurnar um reglubundnar líkamsæfingar eða hreyfingu frá þeim tíma að þær komust á kynþroskaaldur og til þess tíma að rannsóknin var gerð. Einnig var spurt um þunganir, hvort brjóstakrabbamein hefði greinst hjá nákomnum ættingja, notkun hormóna við tíðahvarfaeinkennum og önnur atriði sem vitað er að hafa áhrif á líkur á brjóstakrabbameini.
Síðan báru rannsakendur saman þá hreyfingu sem konurnar með staðbundið krabbamein höfðu tamið sér og venjur þeirra sem ekki höfðu greinst með krabbamein í því skyni að kanna hvort hreyfing kynni hugsanlega að hafa haft einhver áhrif á líkur á brjóstakrabbameini. Notað var reiknilíkan í því skyni að tryggja að verið væri að skoða áhrif hreyfingar en ekki aðra þætti sem vitað er að hafa áhrif á líkur.
Niðurstöður rannsóknar: Rannsakendur komust að því að líkur kvenna sem EKKI áttu neina fjölskyldusögu um brjóstakrabbamein og hreyfðu sig meira en 4 stundir á viku voru 47% minni á að fá staðbundið brjóstakrabbamein en þeirra sem ekki hreyfðu sig reglulega. Hjá konum sem áttu móður, systur eða dóttur sem hafði fengið brjóstakrabbamein var ekki hægt að sjá að líkur minnkuðu að neinu ráði með hreyfingu.
Ályktun: Rannsakendur ályktuðu að konur sem ekki áttu nákomna ættingja er greinst höfðu með brjóstakrabbamein, gátu dregið úr líkum á að fá staðbundið brjóstakrabbamein með því að hreyfa sig að minnsta kosti 4 klukkustundir á viku. Hjá konum sem eiga nána kvenkyns ættingja er fengið hafa sjúkdóminn er hugsanlega hægt að draga eitthvað úr líkunum, en það kom ekki fram í þessari rannsókn.
Lærdómur sem draga má: Rannsóknin gefur tilefni til að ætla að ómaksins vert sé að stunda reglubundna hreyfingu. Með rannsókninni var ekki kannað hvort hreyfing gæti dregið úr líkum á að fá illkynja (ífarandi) brjóstakrabbamein. Ekki var heldur kannað hvaða áhrif hreyfing hefði á líkur á að brjóstakrabbamein tæki sig upp. Í leiðbeiningum sem gefnar eru út af Krabbameinsfélagi Bandaríkjanna (ACS= American Cancer Society) fyrir konur sem hafa lifað það að fá brjóstakrabbamein er mælt með að konur hreyfi sig reglulega til að bæta lífsgæði sín og líkamlegt ástand jafnframt því að draga hugsanlega úr líkum á að fá krabbamein á ný.
Taka verður tillit til þess að í umræddri rannsókn voru konur beðnar um að greina frá hreyfivenjum sínum um margra ára skeið. Því er erfitt að dæma um hve nákvæmar niðurstöðurnar eru. Einnig er erfiðleikum bundið að skoða aðeins einn tiltekinn þátt – eins og hreyfingu – og aðgreina hann alfarið frá öðrum þáttum sem geta haft áhrif á líkur svo sem mataræði og líkamsþyngd. Frekari rannsókna er þörf til að hægt sé að staðfesta að beint samband sé milli hreyfingar og minni hættu á brjóstakrabbameini.
Þar til fullur skilningur fæst á áhrifamætti hreyfingar er trúlega öruggast að fullyrða ekki annað en að allir hafa gott af reglubundinni hreyfingu. Hún getur styrkt ónæmiskerfið, látið þér líða betur og stuðlað að heppilegri líkamsþyngd. Hreyfing getur einnig stuðlað að því að verja þig öðrum sjúkdómum, svo sem hjartasjúkdómum.
Hvernig áttu að fara að því að fá reglulega hreyfingu á meðan þú ert aum og sár eftir skurðaðgerð eða þreklaus eftir geislameðferð eða lyfjameðferð? Þér gæti fundist það óvinnandi vegur á meðan þér finnst þú varla komast fram úr rúmi eða upp úr sófanum! Lausnin felst í að fara nógu hægt af stað og lengja síðan smám saman þann tíma sem þú verð í að gera einhverjar æfingar eða hreyfa þig. Þú þarft alls ekki að reyna að hreyfa þig fjórar klukkustundir á viku þegar í stað. Jafnvel meðan á meðferð stendur getur verið til bóta að rölta bara um næsta nágrenni, kannski umhverfis blokkina sem þú býrð í eða út að næsta götuhorni. Hvert skref skiptir máli!
Almennt má segja að sértu óvön því að stunda markvissa hreyfingu er best að byrja rólega með því að gera léttar teygjur eða styrkjandi jógaæfingar eða fara í rólegar gönguferðir og auka síðan jafnt og þétt við áreynsluna og þann tíma sem þú hreyfir þig.
ÞB